Tölvumál - 01.11.2015, Blaðsíða 24

Tölvumál - 01.11.2015, Blaðsíða 24
24 Hjálmar Gíslason er frumkvöðull, eðlisfræðingur, forritari og hefur ástríðu fyrir tækni. Hann er einnig blaðamaður, bloggari, fjárfestir, eiginmaður og faðir. Hjálmar hefur stofnað fjögur tækni- og hugbúnaðarfyrirtæki og má því segja að hann sé raðfrumkvöðull. Hann starfar nú hjá Qlik en var áður framkvæmdastjóri Datamarket sem Qlik keypti í desember 2014. Hjálmar stofnaði netfyrirtækið Datamarket árið 2008 en starfaði þar á undan sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Símanum. Hann kom að þróun símaskrárvefjarins Já.is og hefur í gegnum tíðina stofnað nokkur hugbúnaðarfyrirtæki: Spurl ehf (sem m.a. smíðaði leitarvélina Emblu), Maskina (sem er í dag í eigu nokkurra Norðmanna) og Lon&Don (sem sameinaðist Gagarín). Hjálmar hefur einnig setið í stjórnum Tals og Trackwell. Rökstuðningur dómnefndar „Hjálmar er góð fyrirmynd og hefur víðtæka þekkingu og reynslu af upplýsingatækni. Hann er framsýnn og hefur sterka tilfinningu og framtíðarsýn fyrir tækni og þróun. Með sölu á Datamarket til Qlik sýndi Hjálmar að hann er ekki aðeins frábær frumkvöðull sem fundið hefur hugmyndum sínum farveg, heldur er hann einn af allt of fáum sem hafa kunnáttu, þrautseigu og getu til að fylgja hugmynd eftir alla leið til enda með góðri sölu til stærra og öflugra fyrirtækis og þannig tryggt enn betur framgang hennar. Hjálmar hefur alltaf verið opinn fyrir því hvernig nýta má upplýsingatækni til að bæta samfélagið. Ekki bara í hefðbundum skilningi, þ.e. innan fyrirtækja og stofnana heldur líka þegar kemur að því hvernig við ákveðum saman í hvernig þjóðfélagi við viljum búa í. Frábært dæmi um slíkt er framtak hans tengslum við Betri Reykjavík. Hjálmar er bængóður með eindæmum og hefur m.a. átt stóran þátt í að Tölvuorðasafn Skýrslu tækni félagsins var sett á vefinn í samstarfi við Spurl og Já.is. Datamarket gegndi mikilvægu samfélagslegu hlutverki á Íslandi svo sem með því að miðla upplýsingum á borð við tölfræði úr fjárlögum til almennings á netinu með myndrænum og auðskiljanlegum hætti. Einnig hefur Hjálmar stuðlað að opinni og upplýstri umræðu um menn og málefni, svo eitthvað sé týnt til. Hjálmar er vel að þessum verðlaunum kominn og óskum við honum til hamingju með heiðursverðlaunin og megi framtíðin vera björt.“ Verðlaunagripurinn er glerlistaverk eftir Ingu Elínu listakonu og afhenti Eggert Claessen verðlaunin að viðstöddum um þúsund gestum UTmessunnar. Þar sem Hjálmar býr erlendis tók hann að sjálfsögðu á móti verðlaununum með tölvutækninni en hann talaði til gesta í gegnum videó sem hann sendi inn. Á myndinni eru: Arnheiður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ský, Hjálmar Gíslason verðlaunahafi og Eggert Claessen hjá Frumtaki. UM UPPLÝSINGATÆKNIVERÐLAUN SKÝ Heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Skýrslutæknifélag Íslands (Ský) veitir verðlaunin og eru þau að danskri fyrirmynd. Veiting þeirra er árleg frá árinu 2010. TILNEFNINGAR Hægt er að tilnefna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað framúr á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti. Allir geta sent inn tilnefningar í tölvupósti á sky@sky.is. Hver aðili getur aðeins sent inn eina tilnefningu og skal hún rökstudd. Eftir að fresti til tilnefninga lýkur velur valnefnd þann aðila sem þykir skara framúr og skal hún vera einróma um valið og rökstyðja það vel. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti. OPIÐ ER FYRIR TILNEFNINGAR TIL UT­ VERÐLAUNA SKÝ ALLT ÁRIÐ Eftirtaldar upplýsingar þurfa að fylgja tilnefningum og þær sendar í tölvupósti á sky@sky.is: 1. Tilgreindu einstakling, verkefni eða fyrirtæki sem þú telur að hafi skarað framúr á sviði upplýsingatækni og uppfyllir skilyrði tilnefninga: 2. Lýstu af hverju þú tilnefnir viðkomandi (hvert er afrekið) og hvernig hefur það sannað sig með afgerandi hætti. Mundu eftir að rökstyðja vel svo valnefndin eigi auðvelt með að taka afstöðu: 3. Nafn og tölvupóstfang þitt: UT verðlaun Ský árið 2016 verða afhent á UTmessunni í febrúar í Hörpu. UT VERÐLAUN SKÝ 2015 Hjálmar Gíslason fékk UT verðlaun Ský 2015 á UTmessunni í Hörpu 6. febrúar 2015

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.