Tölvumál - 01.11.2015, Blaðsíða 42
42
Tölvumál eru nú að koma út fertugasta árið í röð. Sjálfsagt grunaði þá
Odd Benediktsson, Óttari Kjartanssyni og Grétari Snæ Hjartarsyni ekki
að útgáfa þeirra í nóvember 1976 myndi verða að þessu veglega riti í öll
þessi ár. Mikið og óeigingjarnt starf ritnefnda síðustu 40 ára hefur haldið
á lofti þessu glæsilega blaði en Tölvumál eru eina óháða ritið sem gefið
er út á Íslandi um það helsta í tölvugeiranum. Blaðið kemur út árlega á
pappírsformi en vikulega eru birtar greinar í vefútgáfu Tölvumála á www.
sky.is. Tölvumál eru ein af stoðum starfsemi Ský og fá allir félagsmenn
blaðið sent til sín árlega.
Aðal starfsemi Ský síðustu misseri er að standa fyrir viðburðum um það
sem hæst ber hverju sinni í tölvuheiminum. Aukning þeirra sem mæta á
viðburði félagsins hefur eflt starfsemina verulega og nú stendur Ský fyrir
milli 25-30 viðburðum árlega. Stjórn félagsins ásamt stjórnum faghópa
innan Ský hittast á haustin og skipuleggja starf vetrarins og nú er svo
komið að flestallir viðburðir eru undirbúnir af faghópunum og því hefur
úrval og fjölbreytni viðburða verið mikil. Fjöldi félagsmanna í Ský vex
með hverju árinu og árið 2015 fór félagafjöldi yfir 1.000 manns. Eins og
flestir vita er félagaskráning á nafn einstaklinga en ekki fyrirtæki sem
heild eins og mörg önnur félög hafa þetta. Það að hafa einstaklinga
skráða sem félagsmenn veitir mun meiri nánd og tengsl félagsmanna
við starfsemina. Þeir sem ekki eru félagsmenn en vilja vera meðvitaðir
og mæta á viðburði á vegum Ský eru skráðir á póstlista félagsins án
endurgjalds og alltaf velkomnir á viðburðina en greiða hærra
þátttökugjald í staðinn. Nú eru tæplega 5 þúsund manns í tengslaneti
Ský sem er næstum tvöföldun á fjölda frá árinu 2008. Þessi fjölgun er í
takt við hraða þróun tölvugeirans en fjölbreytileiki þeirra sem eru nú í
tengslanetinu er mun meiri en áður var, t.d. eru fjármálastjórar,
markaðsstjórar, notendur og aðrir sem starfa í fyrirtækjum tengdum
tölvugeiranum á einhvern hátt nú farnir að mæta á viðburði Ský mun
meira en áður var. Það er hrein viðbót við þá sem þegar voru tengdir
félaginu sem í grunninn eru allir tölvumenntaðir og aðrir sérfræðingar í
tölvugeiranum á Íslandi.
Vegferð UTmessunnar sem nú er orðin að einum stærsta viðburði
Íslands tengdum tölvumálum er rétt að byrja en á árinu 2015 var
UTmessan haldin í fimmta sinn. Uppselt var á ráðstefnuna og
sýningarrými í Hörpu nýtt til hins ýtrasta. Erlendir aðilar voru í fyrsta sinn
áberandi, bæði sem fyrirlesarar og einnig var í fyrsta sinn erlent fyrirtæki
sem var með bás á sýningarsvæðinu. Við gerum ráð fyrir að það styttist
í að erlendir gestir sæki UTmessuna og hún verði þar með orðin ein af
alþjóðlegum ráðstefnum sem fjalla um tölvumál og tengir á skemmtilegan
hátt tæknigeirann og almenning með opna deginum sem hefur einnig
dregið að sér enn fleiri á hverju ári.
Í byrjun árs 2016 mun samantekt um sögu tölvutækni á Íslandi líta
dagsins ljós. Verkefnið er unnið að frumkvæði Öldungadeildar Ský í
tilefni þess að árið 2014 voru 50 ár liðin frá því að fyrsta tölvan kom til
landsins. Fyrsta útgáfan verður á vef Ský og þar gefst fólki kostur á að
bæta við söguna en um gífurlega umfangsmikið verk er að ræða og ljóst
að aldrei verður hægt að gera öllum þáttum skil. Samantektin verður
einnig sett upp á formi sem hentar til prentunar en það er
framtíðarákvörðun hvort hún verður einnig gefin út í bókarformi.
Nú í nóvember mun Ský taka þátt í að halda alþjóðlega áskorun fyrir
skólakrakka, BEBRAS vikan þann 9. – 13. nóvember. Þar gefst krökkum
allt frá leikskólaaldri út grunnskóla tækifæri til að leysa skemmtileg
verkefni undir handleiðslu sinna tölvukennara og felast verkefnin öll í því
að beita rökhugsun svipaðri þeirri og notuð er við forritun. Þetta er enn
einn liðurinn í því að hvetja sem flesta til að mennta sig í tölvu- og
tæknigreinum í framtíðinni en gífurlegur skortur er nú og í nánustu
framtíð á tölvumenntuðu fólki um allan heim. Það er tilhlökkunarefni að
sjá hvernig krakkarnir upplifa þessa áskorun en nánari upplýsingar um
tilgang og útfærslu að finna á www.bebras.is
Allt starf Ský er unnið undir dyggri stjórn félagsins en þar er úrvals lið
sem er mjög vel tengt í tölvugeirann og stútfullt af skemmtilegum
hugmynd um um félagsstarfið. Hér sjáið þið mynd af þeim sem skipa
stjórn ina og hvet ég ykkur til að klappa þeim á bakið ef þið rekist á
þau :-)
Ég hvet ykkur til að vera í sambandi ef eitthvað er og einnig að tengjast
Ský á Facebook, LinkedIn og Twitter í gegnum forsíðu sky.is og taka
þátt í umræðum þar. Sjáumst á viðburðum í vetur.
FRÉTTIR AF STARFSEMI SKÝ
Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský
Stjórn Ský
2015-2016