Morgunblaðið - 18.09.2015, Page 38
38 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. SEPTEMBER 2015
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
„Þú vilt ekki vita það,“ segir Baltas-
ar Kormákur, léttur í bragði, þegar
blaðamaður spyr hann hvað hann sé
búinn að fara í mörg viðtöl vegna
kvikmyndarinnar Everest sem hann
leikstýrði og var frumsýnd á kvik-
myndahátíðinni í Feneyjum 2. sept-
ember sl. en Baltasar hefur veitt
viðtöl nær linnulaust síðan.
Almennar sýningar á Everest
hefjast hér á landi í dag. Myndin er
byggð á sannsögulegum atburði,
segir af einu mannskæðasta slysi
sem orðið hefur á hæsta fjalli jarð-
ar, þegar átta fjallgöngumenn fór-
ust þar í aftakaveðri 11. maí árið
1996. Heimsþekktir leikarar leika í
myndinni, m.a. þau Jake Gyllenhaal,
Jason Clarke, Josh Brolin, John
Hawkes, Robin Wright, Emily Wat-
son og Keira Knightley og tveir ís-
lenskir að auki, Ingvar E. Sigurðs-
son og Charlotte Bøving. Þá fer
sonur Baltasars, Stormur Jón Kor-
mákur, einnig með aukahlutverk,
skv. vefnum Internet Movie Data-
base.
Barátta upp á líf og dauða
Baltasar er beðinn um að rekja
sögu myndarinnar í stuttu máli,
segja frá því hvað kom fyrir fjall-
gönguhópinn þennan örlagaríka dag
árið 1996. Hann segir atburðina
hafa átt sér stað um það leyti er
markaðssetning á Everest-ferðum
var að hefjast. „Þetta voru allt mjög
reyndir kappar sem voru að gera
þetta og það koma alls konar vanda-
mál upp, eins og við Íslendingar
þekkjum, þegar verið er að fara
með ferðamenn út í náttúruna.
Þannig að þetta er bæði saga af
leiðsögumönnum og viðskiptavinum,
fólki sem borgar fyrir að fara upp á
fjallið. Ákveðin mistök eru gerð á
leiðinni, mörg smámistök sem verða
til þess að hópurinn lendir í erfið-
leikum. En það sem gerir útslagið
er vonskuveður sem menn áttu ekki
von á og þá verður þetta barátta
upp á líf og dauða,“ segir Baltasar.
Baltasar segist frá upphafi hafa
sett sér að skapa trúverðugar per-
sónur og frásögn. Því hafi bæði
þurft að sýna mistökin sem hóp-
urinn gerði og þau hetjulegu afrek
sem voru unnin á fjallinu. „Ég fór til
Nýja-Sjálands og fékk að hlusta á
upptökur af öllum deginum og því
sem á eftir kom, af samskiptum við
þau uppi á fjallinu í gegnum tal-
stöðvar,“ segir Baltasar. Þau samtöl
komi hvergi fyrir í þeim bókum sem
skrifaðar hafi verið um slysið en
unnið hafi verið með þau í mynd-
inni. „Það síðasta sem ég vildi gera
var að kreista þetta í einhverja
Hollywood-klisju, búa til einhverja
vonda karla og hetjur sem voru ekki
til á fjallinu á þessum degi. Ég reyni
að vera mjög heiðarlegur,“ segir
Baltasar og bætir við að það sé
óvenjulegt fyrir Hollywood-mynd af
þessari stærðargráðu.
-Er atburðarásinni þá fylgt ná-
kvæmlega eftir í myndinni?
„Já, við vorum mjög nákvæmir
hvað hana varðar. Auðvitað þarf að
velja sjónarhorn og svona til að
halda spennu í sögunni en fólk er
ekki látið gera eitthvað sem vitað er
að það gerði ekki.“
Svakalegt ævintýri
Útitökur myndarinnar fóru fram
á Everest í Nepal og Dólómítafjöll-
um á Ítalíu við erfiðar aðstæður,
eins og mikið hefur verið fjallað um
í íslenskum og erlendum fjölmiðlum.
Tökulið þurfti m.a. að þola 30 stiga
frost á Ítalíu í sex vikur og bera
þungar byrðar við rætur Everest.
„Lukla-flugvöllurinn er hættuleg-
asti flugvöllur í heimi, það er stað-
reynd og eftir að við komum þangað
voru engir bílar, bara asnar og
sauðnaut til að bera dótið. Svo urðu
menn bara að bera þetta sjálfir, all-
ar vistir og græjurnar,“ segir Balt-
asar. Þá hafi tökulið og leikarar
þurft að sofa í óhituðum húsum og
halda á sér hita á nóttunni með
sjálfhitandi teppum. „Þegar við vor-
um komin eins hátt upp og trygg-
ingafélögin leyfðu fór fólk að verða
ansi illa haldið af fjallaveiki og þá
þurfti að kalla til þyrlur og fljúga
fólki hratt niður. Þannig að þetta
var svakalegt ævintýri.“
-Hvernig lagðist þetta í leik-
arana?
„Ég var náttúrlega búinn að
leggja þetta upp við þá, þeir vissu
að hverju þeir gengju. En þetta tók
oft á og á tímabili voru einhverjir á
því að fara að hætta sem var ekki í
boði,“ segir Baltasar.
-Var aldrei hætta á ferðum?
„Ja, það voru stöðugar snjóflóða-
viðvaranir þegar við vorum í Dóló-
mítafjöllum og við misstum leik-
myndirnar í snjóflóðum. Það var
viðvarandi hætta, í næsta dal dó
fólk í snjóflóði og þyrla fórst á lend-
ingarstaðnum okkar þegar við vor-
um í Nepal. Þannig að jú, jú, það
var viðvarandi tilfinning fyrir
hættu.“
Spurður að því hvort hann hafi
velt því fyrir sér af hverju fólk legði
þetta á sig, að klífa Everest, segir
Baltasar að það sé eins og öll ævin-
týri, t.d. að fara út í geim. „Það er
spurt að þessu í myndinni og menn
gefa sín svör en hver hefur sínar
ólíku forsendur. Þetta er eins og að
spyrja um tilgang lífsins,“ segir
Baltasar. Fólk hafi þörf fyrir að
kanna þolmörk sín og komast um
leið að einhverju nýju um sjálft sig.
„Ég fer upp á hálendi og ríð á hest-
unum mínum á meðan aðrir liggja í
sólbaði á Mallorca. Það er besta
sumarfrí sem ég fæ þó ég sé í 14
tíma á hestbaki og enginn tilgangur
með því í sjálfu sér. Þannig að þetta
er einhvers konar tilvistarspurning,
þessi þörf fyrir að tengjast nátt-
úrunni og þetta er öfgafyllsta leiðin.
Ekkert eitt svar er til við þessari
spurningu.“
Með kökk í hálsinum
-Bandaríska fjallgöngukonan Al-
ison Levine, sem klifið hefur hæstu
fjöll jarðar, m.a. Everest, mætti á
frumsýningu myndarinnar í Holly-
wood í síðustu viku og sagði þar að
myndin væri sú raunsæjasta eða ná-
kvæmasta sem hún hefði séð þegar
kemur að því að lýsa aðstæðum á
fjallinu.
„Já, ég hitti hana eftir sýninguna
og hún var gjörsamlega heilluð,
sagði að þetta væri nákvæmlega
eins og hún hefði upplifað fjallið,“
segir Baltasar.
-Þá hefur nú farið um þig sælu-
hrollur?
„Jú, jú og fleiri sem hafa farið
þarna upp hafa sagt þetta. Að það
sé með ólíkindum hvað við náðum
þessu vel,“ segir Baltasar.
Hvað viðbrögð áhorfenda varðar
segir Baltasar að þau hafi verið
rosalega sterk og margir hafi verið
með kökk í hálsinum. „Ég hef aldrei
upplifað eins sterk viðbrögð og voru
á frumsýningunni í Hollywood,“
segir hann.
Spurður að því hvað taki nú við
hjá honum segir Baltasar að hann
hafi fengið mörg risatilboð sem
þurfi að skoða, þar af eitt ákaflega
spennandi og svo þurfi hann að
reyna að klára þau verkefni sem
hann hafi tekið að sér.
-Þetta tilboð sem er rosalega
spennandi er væntanlega „top sec-
ret“?
Baltasar hlær. „Já, ég get því
miður ekki sagt frá því en það verð-
ur í heimsfréttunum ef af því verð-
ur.“
Engin Hollywood-klisja
Kvikmyndin Everest frumsýnd í dag „Það var viðvarandi tilfinning fyrir hættu,“ segir leikstjór-
inn Baltasar Kormákur um tökur myndarinnar í Nepal Raunsæ frásögn af mannskæðu slysi
Ljósmynd/Jasin Boland
Harmsaga Baltasar við tökur á Everest með leikaranum Jason Clarke sem fer með hlutverk fjallaleiðsögumannsins Rob Hall sem fórst á fjallinu 1996.
Verið alltaf velkomin í Kolaportið!
Opið laugardaga og sunnudaga kl. 11-17.
Næg bílastæði við
Kolaportið
Það liggja allar leiðir til okkar – veldu þína!
Kolaportið
er umkringt af
bílastæðahúsum.
Vesturgata · Mjóstræti
Fjöldi stæða 106
Ráðhúsið · Tjarnargata 11
Fjöldi stæða 130
Traðarkot · Hverfisgata 20
Fjöldi stæða 270
Kolaportið · Kalkofnsvegur 1
Fjöldi stæða 270
K
V
IK
A