Skólavarðan - 01.03.2007, Blaðsíða 3
3
FORMANNSPISTILL
SKÓLAVARÐAN 2.TBL. 7. ÁRG. 2007
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að síðustu vikur hafa komið
fram hugmyndir um að tiltekinn hópur útvalinna nemenda verði
,,færður“ úr 9. bekk grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Það skýtur
nokkuð skökku við að þetta skuli gert á þann hátt sem fram
hefur komið.
Kennarasamband Íslands og þar af leiðandi Félag grunnskóla-
kennara hafa markað sér skýra stefnu þegar fjallað er um skil
skólastiga. Í vinnu nefnda vegna 10 punkta samkomulags
KÍ og menntamálaráðherra hefur verið fjallað ítarlega um
hugmyndafræði er lítur að því að skilgreina fljótandi skil milli
skólastiga og hvað þurfi að gera til þess að þau megi verða að
veruleika.
Tilraun sem Menntasvið Reykjavíkurborgar hefur kynnt á
þessu sviði vekur upp margar spurningar.
Hvernig og hverjir eiga að kenna nemendum sem eiga að
fara í gegnum unglingadeild grunnskólans á tveimur árum í stað
þriggja? Hver skilgreinir hverju má sleppa úr námskrám? Má
sleppa heilu fögunum ef þessir nemendur einblína á bóknám, hvað
verður um list- og verkgreinanám þeirra? Hver er réttur þeirra
nemenda sem geta ekki eða fá ekki þetta tilboð og geta því ekki
tekið þátt í tilrauninni? Hver er réttur þeirra sem eftir verða og
í hvaða námsumhverfi verða þeir þegar ,,afburðanemendurnir“
eru farnir? Eru yfirvöld í Reykjavík á því að búa til einhvers
konar nýtt landspróf sem er ári styttra en „venjubundið“
nám? Landspróf var aflagt með grunnskólalögum 1974! Hvers
vegna á einhver tiltekinn hópur nemenda að komast fram hjá
inntökuferli framhaldsskólans eins og það er nú með því til dæmis
að þreyta ekki samræmd próf nema að takmörkuðu leyti. Ekki
svo að skilja að ég sé að mæla bót samræmdum prófum við lok
grunnskólans eins og þau eru en hvernig ,,útskrifast“ þessi hópur
úr grunnskólanum? Hvernig á að velja og hafna í úrvalsliðið?
Verður hægt að kaupa pláss í hópnum? Hvað með nemendur í
skólum sem hafa ekki verið valdir til þátttöku í tilrauninni? Hvað
með félagslegan þátt þeirra sem fara og hinna sem eftir sitja?
Það er engu líkara en búa eigi til úrvalskerfi þar sem fáir
útvaldir fá að njóta sín og verði gert hærra undir höfði en öðrum
nemendum. Hvarflaði ekki að Menntasviði Reykjavíkur að kanna
hvort ekki væri hægt að gera grunnskólanum kleift að koma til
móts við þarfir þessara nemenda í grunnskólanum? Er eitthvað
sem mælir á móti því að grunnskólanum og kennurum hans
verði skapaðar aðstæður til að sinna öllum nemendum skólans á
forsendum hvers og eins?
Hefði ekki verið skynsamlegra að bíða eftir tillögum starfs-
hópa um tíu punkta samkomulag KÍ og menntamálaráðherra
í stað þess að vaða af stað með þessum flumbrugangi?
Menntasviði og ráðherra er vel ljóst hvað þeirri vinnu miðar.
Nefndir eru við það að skila af sér og von bráðar fáum við að
sjá fyrstu hugmyndir um breytingar á skólakerfinu öllu, með
hag og réttindi allra nemenda að leiðarljósi. Þessar hugmyndir
þarf væntanlega að vinna áfram og þróa í samstarfi aðila og að
lokum hrinda í framkvæmd. Þessi tilraun kemur eins og skrattinn
úr sauðaleggnum mitt inn í þessa vinnu.
Stefna FG og KÍ er ljós. Gera þarf öllum nemendum kleift að
stunda nám við hæfi á jafnréttisgrunni á því skólastigi sem þeir
eru staddir á. Grunnskólinn á að vera að jafnaði tíu ára skóli og
eiga einstaka nemendur að gera farið í gegnum hann á þeim
hraða sem þeim hentar. Til að það megi verða þarf að styrkja
grunnskólann enn frekar svo að hann geti komið til móts við
alla nemendur, jafnt bráðgera og þá sem eiga í erfiðleikum með
nám. Það sama á við um framhaldsskólann. Um þetta er verið að
fjalla í tíu punkta nefndum KÍ og ráðherra. Um þetta er verið að
setja ákveðnar leikreglur til að tryggja öllum nemendum sömu
réttindi til náms.
Tryggja verður jafnrétti til náms - grunnskólinn á að vera fyrir alla.
Ólafur Loftsson.
Skóli fyrir alla
Ólafur Loftsson formaður Félags
grunnskólakennara
Formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að að skrifa formannspistla
í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag
framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag
leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag
tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ).