Skólavarðan - 01.03.2007, Blaðsíða 17

Skólavarðan - 01.03.2007, Blaðsíða 17
17 inn á öðru starfsári hans. Það er mjög gaman að vera með í svona byrjunarvinnu. Maður tók því sem manni var boðið og ég kenndi sex ára börnum lestur sem ég hafði aldrei gert áður. Ég fylgdi svo þessum krökkum áfram. Þetta var draumaskólinn. Þarna var mikil opnun og blöndun, engar hurðir á stofunum og mikið samstarf og samkennsla. Svo var valskipulag frá upphafi. Grundaskóli átti svo sannarlega skilið að fá Íslensku menntaverðlaunin fyrir að hafa haldið áfram með og þróað þessa hugmyndafræði.” Valgeir Gestsson sinnum tveir Nú er loks hægt að taka strætó til Akraness en það er engu að síður mikil eftirsjá að Akraborginni enda snöggtum rómantískara að ferðast með skipi en einkabíl eða strætó. Valli var einn af tíðum gestum í Akraborginni á Skagaárunum, ekki síst árið 1987 en þá var hann búsettur á Akranesi í miðri viku en í Reykjavík um helgar. Ragna var þá farin að kenna í Reykjavík og fluttist til höfuðborgarinnar vetri á undan Valla. „Þar að auki var ég í samninganefnd þennan vetur svo að ferðirnar fram og til baka urðu heldur fleiri. Þetta var einn besti samningur sem Kennarasambandið hefur gert. Framreiknað til dagsins í dag væru meðallaunin 480 þúsund,“ segir Valli og hlær. „Þegar átti að skrifa undir samninginn gekk hann hringinn og þegar Geir Haarde þáverandi fjármálaráðherra ætlar að fara að skrifa undir stoppar hann og segir: „Nei, þetta er ólöglegt. Það verður að gera þetta upp á nýtt. Valgeir skrifar ekki tvisvar!“ Þá stóð nafni upp og sagði: „En við erum tveir.“ Ekki hugsa um peninga, skrifið bara Valgeir fluttist svo alfarinn til Reykjavíkur og fór að kenna í Grandaskóla þar sem hann hefur unnið síðan að frátöldu einu ári þegar hann kenndi í Vesturbæjarskóla og námsleyfisvetri 2000-2001. „Í Vesturbæjarskóla kynntist ég Hannesi Þorsteinssyni og við urðum teymi. Við vorum saman með árgang og unnum mikið og vel saman þennan vetur. Ég hvatti Hannes til að beita sér í kennarapólitíkinni. Hann varð svo síðar formaður Kennarafélags Reykjavíkur og er nú skrifstofustjóri KÍ eins og flestum er kunnugt. Í námsleyfinu sem hófst haustið 2000 fór ég svo í Margmiðlunarskólann,“ upplýsir Valli. „Þetta var mjög spennandi nám og ég lærði heilmikið. Áður hafði ég mikið tengst tölvum í starfi og vann meðal annars að gerð námskrárinnar 1999 í upplýsinga- og tæknimennt. Þessi námskrá var talin mjög byltingarkennd. Jóhann Ásmundsson heitinn sem síðar varð safnstjóri á Hnjóti í Örlygshöfn stjórnaði þessari vinnu, mjög ágætur maður. Hönnun og smíði komu inn í þetta en eru dottnar út aftur í nýju drögunum. Ég var ásamt öðrum í undirbúningshópnum að skrifa drögin og svo tóku aðrir tölvunördar við. „Ein spurning kom aftur og aftur upp við vinnuna: Getum við farið fram á einhver markmið sem skólinn hefur svo ekki fjármagn til að fylgja eftir? Það er ekki til skanni og stafræn myndavél o.s.frv. En okkur var svarað: Skrifið bara metnaðarfulla framtíðarnámskrá og hugsið ekki um peninga. Svo við gerðum það.“ Læra að gera eitthvað sem glóra er í Valli tók svo að sér skólasafnskennslu ásamt bekkjarumsjón þegar hann kom aftur til starfa í Grandaskóla. Nú er hann með tölvu- og tækjaumsjón, sér um tölvukennslu, vefsíðu skólans og er netstjóri ásamt skólasafnkennslu og -umsjón. „Það eru bara um þrjú ár síðan ég fór að kenna á tölvur sérstaklega,“ segir Valli, „en ég hef alltaf nýtt tölvurnar hérna á safninu í verkefnavinnu með nemendum. Nú er ég að fara í stórt verkefni um Norðurlönd í samstarfi við 6. bekk. Þau gera ferðabækling í Publisher forritinu hjá mér og vinna allar upplýsingar á safninu með hjálp bóka og netsins. Hugmyndin er að kenna á tölvur með tölvum. Að nemendur læri á forrit með því að gera eitthvað sem glóra er í.“ Valli hefur haft umsjón með mörgum spennandi tölvutengdum verkefnum í Grandaskóla, svo sem sjávarútvegsvef skólans og afmælisvef vegna tuttugu ára afmælis hans í fyrra. Í gegnum námið í Margmiðlunarskólanum kynntist hann vel forritum á borð við Dreamweaver, Photoshop og Flash sem öll eru mjög gagnleg í kennarastarfinu. Valli kennir krökkunum líka að búa til Powerpoint sýningar (ppt.) auk ritvinnslu og annars sem verkefnin kalla eftir. „Áður var netið mjög hægvirkt og skólar notuðu það því lítið en þeim mun meira margmiðlunardiska með námsefni,“ segir Valli og bendir á tvær hillur fullar af slíkum námsgögnum. „Þetta rykfellur og er varla notað lengur, netið er orðið allsráðandi.“ Valli hefur setið í ýmsum nefnd- um um upplýsinga- og tæknimennt og í fyrra sat hann svo dæmi sé tekið í vinnuhópi Menntasviðs Reykjavíkur um netnám og netkennslu, eða tölvu- tök. Þá hefur hann fengið styrki úr Vonarsjóði til þróunarverkefna um upplýsingaleit í gegnum tölvur og um vefbanka og innra net skóla ásamt styrkjum víðar að til uppbyggingar sæ- fiskasafns og fleiri verkefna, nú síðast til uppbyggingar Vefbanka Valla á þessu ári. „Reykjavíkurborg var að styrkja mig til viðhalds, endurnýjunar og uppfærslu á vefbankanum og til kaupa á léni (vefbankivalla.is) sem kostar 30 þúsund á ári. Styrkir til þróunarverkefna eru mjög mikilvægir fyrir framþróun í skólastarfi og ástæða til að vekja athygli á gildi þeirra og þakka líka fyrir sig,“ segir Valli og brosir. „En svo má heldur ekki gleyma því, þrátt fyrir hve tölvur eru orðnar fyrirferðarmiklar í lífinu, að bækurnar fara aldrei. Ég reyni að tengja bækur og tölvur en þetta fer eftir aðstöðu og því sem maður er með í höndunum hverju sinni. Ég er með verkefni og vinnubækur og kenni ellefu ára börnum flokkunarkerfi Dewey’s og yngri börnum meðal annars um muninn á skáldsögu, fræðibók og ævintýri. Við verðum smám saman tæknivæddari, ég er til dæmis með heimabíó hérna og gríp oft tækifærið og geri eitthvað skemmtilegt. En ég ítreka að bókin er ekki að fara neitt.“ Bókaormurinn og tæknifríkið fara saman í Valla en hann er líka maður hefðarinnar. „Ég er svolítið fyrir að búa til hefðir. Sjötti bekkur hefur til dæmis lesið hjá mér Narníubækurnar í áratug,“ segir Valli. „Svo skrifuðu þau alltaf ritgerð í lokin. Einhvern tímann fann ég svo Narníuspólur í London og þegar allir voru búnir með ritgerðina var horft á myndband á breiðtjaldi, ægilega gaman. Svo kom Narníuæðið og þá sló þetta verkefni fyrst ærlega í gegn. Nú leita krakkarnir á Netinu að upplýsingum um C.S. Lewis, skrifa um ævi hans og finna myndir af honum, það vilja allir gera Lewis verkefni. Svona þróast verkefnin áfram en bókin er grunnurinn,“ segir Valli að lokum. keg KENNARINN Í BRENNIDEPLI

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.