Skólavarðan - 01.06.2009, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.06.2009, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). Látum ekki börnin borga brúsann SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 9. ÁRG. 2009 Kennarasamband Íslands varar við þeirri hugmynd að alveg eins sé hægt að skera niður í skólakerfinu og í annarri starfsemi. Skólinn er vinnustaður og griðastaður barna okkar. Þegar foreldrar missa vinnuna, búa við skertar atvinnutekjur eða ráða ekki lengur við að eiga eða leigja viðunandi húsnæði versnar hagur barna og unglinga. Skólastarf í landinu og sú þjónusta sem við teljum að lágmarki nauðsynlega fyrir börn í leik- og grunnskólum, ungmenni í framhaldsskólum og nemendur í tónlistarskólum er vissulega stór útgjaldaliður í fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Síst má þó álykta að þar sé hægt að skera niður starfsemi og þjónustu án þess að það bitni harkalega á nemendum og fjölskyldum þeirra. Raunar er það svo að sá niðurskurður sem er hafinn, svo sem skertur opnunartími leikskóla, brottfall viðbótarstunda umfram lögboðin lágmörk í grunnskólum, sem voru til dæmis notaðar sem heima- námsstundir eða til þess að skipta stórum námshópum í hluta kennslunnar, niðurfelling forfallakennslu og skerðing stoðþjónustu á borð við náms- og starfsráðgjöf, forvarnir og félagsmálastarf hringir viðvörunarbjöllum í hugum skólamanna jafnt sem annarra sérfræðinga. Áform rekstraraðila grunnskóla um að reyna að fá því framgengt að lögboðinn starfstími grunnskólanemenda verði styttur um tíu daga á ári og yfirlýsingar um að það skipti eiginlega litlu og varla nokkur skaði af því vekja enn alvarlegri áhyggjur af andvaraleysi um afleiðingar þess að taka skref aftur á bak og skerða nám og skólastarf frá því sem talið er ásættanlegt. Skólinn og starfsemin sem þar fer fram þarf að vera fasti punkturinn í lífi nemenda. Sveitarfélögin í landinu eru mörg og hafa rekið sín bú misvel, en gert er gert og nauðsynlegt er að styðja sveitarfélög sem ekki geta rekið skóla sína með viðunandi hætti til þess verks í því efnahagslega gjörningaveðri sem nú gengur yfir okkur. KÍ tekur heilshugar undir með öðrum um að í viðleitni okkar að ná tökum á fjárhag landsins þarf að fara yfir rekstur og starfsemi allra stofnana hins opinbera – líka skólanna. Hins vegar kallar þetta óvenjulega ástand líka á að vissum spurningum um forsendur hagræðingar í rekstri sé svarað og rætt hvað geti verið skaðlegt og óhagkvæmt til lengri tíma að skera niður. Slíkar spurningar eiga vissulega við um skólastarf og menntun en einnig um ýmsa meginþætti í heilbrigðiskerfinu og félagslegri þjónustu. Spyrja má í þessu sambandi hvernig skólinn geti haldið áfram að vera öruggur samastaður barna og ungmenna og bakhjarl fjöl- skyldna með færri kennurum, verri starfsskilyrðum nemenda og kennara, styttri árlegum starfstíma, færri valkostum í námi og skertri stoðþjónustu. Á hinn bóginn er fullljóst að hvorki ríki né sveitar- félög geta rekið skólastofnanir með halla ár eftir ár heldur hlýtur að þurfa að færa til milli málaflokka, bæta í sums staðar en draga annars staðar úr útgjöldum eða minnka tekjustofna tímabundið. Félagsmenn KÍ eru vel meðvitaðir um vanda íslensks samfélags og takast á við hann bæði með nemendum sínum og í einkalífi sínu á hverjum degi. KÍ skorar á stjórnvöld, jafnt ríki sem sveitarfélög, að taka höndum saman um að verja skólastarf og menntun í landinu og mun ekki skorast undan því að leggja þar til krafta sína og þekkingu. Elna Katrín Jónsdóttir Elna Katrín Jónsdóttir Varaformaður KÍ Getur skólinn haldið áfram að vera öruggur samastaður barna og ungmenna og bakhjarl fjölskyldna með færri kennurum, verri starfs- skilyrðum nemenda og kennara, styttri árlegum starfstíma, færri valkostum í námi og skertri stoðþjónustu?

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.