Skólavarðan - 01.06.2009, Blaðsíða 6

Skólavarðan - 01.06.2009, Blaðsíða 6
6 SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 9. ÁRG. 2009 orðin forfallin áhugamanneskja um kennslu. Ég naut þess að fá góða kennslu í kennslu, þótt ég hafi aldrei lært kennslufræði. Á fyrstu önninni minni sem aðstoðarkennari í framhaldsnámi vann ég hjá prófessor sem lagði mikið upp úr samskiptum við nemendur og góðri endurgjöf. Við vorum fjögur sem unnum hjá honum og höfðum 50-80 nemendur hvert á okkar könnu. Nemendur skiluðu verkefnum og ritgerðum nær vikulega og eftir að við höfðum farið yfir verkefnin fór prófessorinn yfir vinnu okkar. Okkur var kennt að vera málefnaleg í gagnrýni og finna alltaf eitthvað til að hrósa fyrir. Þegar ég hugsaði til baka um skólagöngu mína gat ég auðveldlega fundið dæmi um kennara í Bandaríkjunum sem höfðu unnið svona, en þeir voru mun færri heima. Mun algengara var að fá endurgjöf í töluformi, einhverja punkta af tíu, og lítið sem sagði manni hvernig væri hægt að bæta frammistöðu. Það sem mér var oftast bent á að lagfæra var rithöndin. Að vísa veginn Eftir að hafa kennt í nokkur ár hérna heima sé ég sömu mál og mér fannst vera áberandi þegar ég var sjálf í skóla endurspeglast í vissum hlutum. Nemendur vita ekki endi- lega hvað það er sem þeir vilja gera. Það virðist ekki vera mikið sem sýnir þeim hvað felst í ólíkum námsbrautum og margir prófa hitt og þetta áður en þeir finna sig. Það er í sjálfu sér ekkert að því, en ég velti samt fyrir mér hvort ekki sé hægt að búa til einhverjar tengingar á milli skólastiga til að fólk átti sig til dæmis á því hver munurinn sé á sálfræði og félagsráðgjöf, viðskiptafræði og hagfræði og þar fram eftir götunum. Þá væru nemendur kannski áhugasamari um verkefnin sem þeim eru sett fyrir og legðu meira á sig við að vinna þau vel. Enn vantar þó mikið upp á þjálfun í ritun og munnlegri tjáningu til að þeir geti komið fyrir sig orði og sett fram skoðanir sínar í ræðu og riti þegar þeir koma inn í háskólakerfið. Ég dett sjálf oft í það þegar ég fer yfir ritgerðir að leiðrétta málfar, en mér finnst hreinlega erfitt að lesa í merkingu þess sem nemendur eru að segja þegar málfarið er jafn slæmt og raun ber vitni. Þegar ég bendi nemendum á að setningin „verkefni Atlantshafsbandalagsins í öðrum ríkjum“ sé ekki merkingarbær þá skilja þau fæst hvað ég á við. Þegar ég útskýri frekar, að þar sem Atlantshafsbandalagið sé ekki ríki þá eigi ekki að tala um önnur ríki í sömu setningu, finnst þeim ég vera með pjatt af því þetta skipti ekki raunverulegu máli heldur eigi ég frekar að lesa í það sem þau eru að meina. Minnir mig um margt á lítinn dreng sem ég passaði fyrir mörgum árum og hundskammaði mömmu sína einn daginn fyrir að hlusta ekki rétt á sig. En þá kemur það aftur á móti upp í hugann að enginn hugsar skýrar en hann talar og með því að æfa sig í að setja hugsanir sínar fram þá skýrast þær. Þannig þjálfum við nemendur okkar í að móta skoðun sína á hlutum með því að tala og skrifa um þá. Þegar ég fór að kenna við Háskóla Íslands fékk ég tækifæri til að taka þátt í tilraunaverkefni þar sem við hittumst nokkur sem vorum að stíga okkar fyrstu skref í kennslu. Við gátum meðal annars látið taka okkur upp í kennslu og farið yfir framkomu, hegðun og stíl. Þetta er vísir að því sem ég tel að þurfi að verða í framtíðinni, að háskólakennarar læri að kenna. Við erum öll sérfræðingar í okkar fagi, vitum hvað skapar því sérstöðu og viljum gjarnan miðla því. Hins vegar förum við flest eftir tilfinningu um hvernig eigi að koma nemendum í skilning um mikilvægi þessa efnis, án þess að hafa endilega forsendur til að meta hvernig eigi að gera það. Við höfum ratað, markvisst eða fyrir tilviljun, á okkar hillu í lífinu og reynum að sannfæra nemendur okkar um að hún sé sú merkilegasta og mikilvægasta í lífinu. Með þjálfun í kennslu og kennslufræðum verðum við færari um að kenna nemendum okkar það sem máli skiptir, að hugsa gagnrýnið um viðfangsefnið og tjá sig um það. Silja Bára Ómarsdóttir Höfundur er aðjúnkt í stjórnmálafræði við HÍ og doktorsnemi í alþjóðasamskiptum við University of Southern California. Þegar ég útskýri frekar, að þar sem Atlantshafsbandalagið sé ekki ríki þá eigi ekki að tala um önnur ríki í sömu setningu, finnst þeim ég vera með pjatt af því þetta skipti ekki raunverulegu máli heldur eigi ég frekar að lesa í það sem þau eru að meina. GESTASKRIF: SILjA BÁRA ÓMARSdÓTTIR

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.