Morgunblaðið - 05.02.2016, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 05.02.2016, Blaðsíða 25
UMRÆÐAN 25 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. FEBRÚAR 2016 Um fátt hefur verið meira talað síðustu vik- urnar en loftslags- breytingar og hlýnun jarðar, og þá ógn er af henni stafar. Að hinni miklu loftslags- ráðstefnu í París lok- inni er ef til vill rétt að fara nokkrum orðum um hvað felst í hugtak- inu gróðurhúsaáhrif, og af hverju langflestir fræðimenn, 97% þeirra sem fást við loftslagsvísindi og hafa birt greinar í ritrýndum vísindatímaritum, telja að okkur stafi mikil hætta af vænt- anlegri hlýnun jarðar um tvær gráð- ur á þessari öld eða meira, ef ekkert verður gert til að draga úr blæstri koltvíoxíðs út í andrúmsloftið af mannavöldum. Það samkomulag sem náðist á Parísarráðstefnunni, gerir ráð fyrir, að allar þjóðir heims sam- einist um að koma í veg fyrir, að hita- stig andrúmslofts hækki meira en tvær gráður fyrir lok þessarar aldar, helzt ekki meira en 1,5 gráður, en mjög óvíst er að það náist. Margir vísindamenn á ráðstefnunni bentu á, að til þess mætti engin losun koltví- oxíðs af mannavöldum eiga sér stað eftir 2030-2050 til loka aldarinnar. Hitastigsbreyting hefði gífurleg áhrif Margir munu segja, að ekki væri nú amalegt, ef meðalhitastig, a.m.k hér á norðurslóðum, hækkaði um tvær gráður eða svo. Þá er rétt að hafa í huga, að rúmlega fjögurra gráðu lækkun á meðalhitastigi á yfir- borði jarðar orsakaði síðustu ísöld, sem lauk fyrir nálega tólf þúsund ár- um. Hitastigsbreytingin sem olli henni er ekki meiri en u.þ.b. tvöföld sú hækkun meðalhitastigs andrúms- lofts, sem talin er munu verða á þess- ari öld. Það fer því ekki milli mála, að þessi tveggja gráðu aukning mun hafa gríðarleg áhrif og rugla allt ástand á byggðum bólum. Hafa áhrif á sjávarhita, fiskigengd, landbúnað, jarðrækt, búsetu og margt fleira. Þegar verðum við vör við meiri öfgar í veðri en við eigum að venjast, jöklar hopa örar en áður, og meðalhitastig á yfirborði jarðar virðist hækka stöð- ugt, þótt með miklum sveiflum sé. Reyndar eru þeir mjög margir, sem telja áhyggjur manna af hlýnun jarð- ar vera tóma vitleysu og sérstaklega þá staðhæfingu, að hún sé af manna- völdum. Þær veðurfarsbreytingar sem við lifum, ef einhverjar, séu hluti af duttlungum náttúrunnar og þeim breytileika, sem hún er undirorpin. Íslendingar skera sig úr ShapeGallup International kann- aði skoðun fólks á loftslagsbreyt- ingum í 128 löndum 2007-2008. Spurt var hvort a) viðkomandi vissi eitthvað um loftslagsbreytingar, og b) hann teldi sér stafa hættu af þeim. 29 OECD-lönd, Ísland meðal þeirra, voru með í könnuninni. Í öllum þeim löndum töldu menn sig vita eitthvað/ mikið um loftslagsbreytingar, 95% Íslendinga í þeim hópi. Í 24 löndum OECD voru loftslagsbreytingar tald- ar vera ógn af meirihluta manna. Að- eins í Tékklandi, Danmörku, Eist- landi, Finnlandi og Íslandi (33%) áleit minna en helmingur aðspurðra þær vera hættulegar. Íslendingar eru því í hópi þeirra þjóða, sem hafa litla trú á hlýnun jarðar með tilheyrandi lofts- lagsbreytingum af völdum mann- legra athafna. Í Bandaríkjunum, sem margir telja eitt mesta andstöðuríki við allar aðgerðir í loftslagsmálum, höfðu 63% þátttakenda í könnuninni áhyggjur af hnattrænni hlýnun og loftslagsbreytingum hennar vegna. Íslendingar skera sig sem sagt úr hvað þetta efni áhrærir og því ekki vanþörf á, að meira sé fjallað um þessa ógn á opinberum vettvangi. Bandaríski stjarneðl- isfræðingurinn Spencer Weart hefur skrifað merka bók um sögu og þróun þekkingar manna á gróðurhúsa- áhrifunum. Útdrátt úr henni má finna á vefsíðu bandarísku eðl- isfræðistofnunarinnar. Er meðal annars stuðst við hann í þessum skrifum. Gróðurhúsaáhrifin Lofthjúpur jarðar, gufuhvolfið, skapar lífvænleg skilyrði á jörðu. Ef hjúpurinn væri ekki til staðar, væri meðalhitastig á jarðaryfirborði -18°C, en vegna hans er yfirborðshitinn að jafnaði um +16°C, misheitt eftir því hvar við erum, eins og allir þekkja. En hvernig verður þessi hiti til? For- feður vorir brutu heilann um þá gátu fram eftir öldum án þess að finna lausn á henni. Í byrjun nítjándu aldar velti franski stærðfræðingurinn Jo- seph Fourier þessu fyrir sér. Kveikj- an að vangaveltum hans var helioter- mometer Horace Benedicts de Saussure frá því um 1760. De Sauss- ure smíðaði trékassa með glugga (þreföldu gleri), sem sólarljós komst inn um. Að innan var kassinn ein- angraður með svörtum korkplötum. Þannig hitnaði loftið í kassanum og yljaði fjallgöngumönnum, sem not- uðu slíka lampa í Ölpunum. Fourier leit á lofthjúp jarðar sem risastóran heliotermometer, er væri eins og samloka milli yfirborðs jarðar og ímyndaðs þaks, en fyrir ofan það tæki við fimbulkuldi himingeimsins (um 3 gráður Kelvin eða -270°C, sjá mynd 2) . Innan samlokunnar finnast alls kyns lofttegundir fyrir utan súr- efni og köfnunarefni svo sem vatns- gufa og kolsýra. Sólargeislar sem berast til jarðar með mjög hárri tíðni fara auðveldlega gegnum lofthjúpinn án þess að valda teljandi áhrifum. Fourier kallaði þá björtu geislana. Þeir hitta yfirborð jarðar, sem gleyp- ir eitthvað af þeim í sig og hitnar, en mestur hluti þeirra kastast til baka í formi lágtíðnigeisla, er Fourier kall- aði myrka geisla. Vatnsgufan á nú auðvelt með að fanga myrku geisl- ana, „sjúga“ í sig hitaorku þeirra og endurkasta hluta þeirra aftur til jarð- ar. Við þetta hlýnar andrúmsloftið og nær meðalhitastiginu +16°C við yf- irborð jarðar. Fourier taldi að einnig gætti áhrifa rúmgeisla frá fjarlægari stjörnum, og eins myndi innri hiti jarðar valda einhverri hlýnun gufu- hvolfsins. Hann ályktaði þó, að áhrif sólargeislanna væru langmest og sterkust. ShapeJoseph Fourier (1768-1830) var með mestu hugsuðum samtíðar sinnar. Hann var afburða stærðfræð- ingur, eðlisfræðingur, stjórn- málamaður og lögreglustjóri um skeið sem og fyrsti rektor franska tækniháskólans, l‘École polytechni- que í París. Þegar hann snéri sér að loftslagsmálum í byrjun nítjándu ald- ar, hafði hann þróað stærðfræðikenn- ingar sínar um tíðnigreiningu á sveiflukenndum hreyfingum og alls kyns bylgjukenndum tímamerkjum. Fourier-greining eða Fourier- ummyndun er enn þann dag í dag grundvöllur tíðnigreiningar á öllum slíkum merkjum. Hann birti að lok- um niðurstöður sínar um hitabúskap lofthjúpsins í viðamikilli vísindagrein 1824, þar sem hann kallaði hjúpinn risastóran heliotermometer, og setti fram flóknar stærðfræðilíkingar til að skýra mál sitt. Hann talar ekki beinlínis um gróðurhúsaáhrif, en líkir áhrifum andrúmsloftsins við það að leggja glerplötu yfir skál, sem er ein- mitt hugsunin á bak við gróðurhúsið. Kom þessi skýring fram í seinni grein hans um hitastig andrúmslofts jarðar 1827, en sú hefur náð meiri athygli fræðimanna. Sænski veðurfræðing- urinn Nils Gustav Ekholm varð lík- lega fyrstur manna til að kalla þetta gróðurhúsaáhrif, eins og kemur fram í grein hans frá 1901 um fornsögu- legar loftslagsbreytingar og hvað hafi valdið þeim. Mynd 3 sýnir hita- líkan Fourier í grófum dráttum. Ýmsir fræðimenn á nítjándu öld, svo sem Frakkinn Claude Pouillet, Englendingarnir John Tyndall og Robert Boyle, Bandaríkjamaðurinn Samuel Pierpoint Langley og Sví- arnir Svante Arrhenius og Nils Ek- holm skrifuðu um gróðurhúsaáhrifin og tóku undir kenningar Fourier um hitakerfi gufuhvolfsins og útskýrðu þær betur. Meðal annars varð mönn- um ljóst, að fyrir utan vatnsgufuna í andrúmsloftinu, væru ýmsar fleiri lofttegundir sem hefðu sams konar áhrif, kolsýra eða koltvíoxíð mik- ilvægust þeirra. Gróðurhúsaloftteg- undirnar eru annars þessar helztar: Vatnsgufa (H2O), virkni 36-70%, kolt- víoxíð (CO2), 9-26%, metan (CH4), 4-9%, ózón (O3), 3-7%. Virknin er mið- uð við getu til að fanga lágtíðni- geislana, en hún fer nokkuð eftir tíðnisviði þeirra og er mismunandi eftir lofttegundum. Flestar tveggja frumefna lofttegundir og þær, sem hafa a.m.k. þrjár frumeindir eða fleiri, teljast einnig til gróðurhúsa- lofttegunda. Þannig valda t.d. metan, níturoxíð, ýmis halógen- og klórflúor- kolefnis-sambönd svo og ózon gróð- urhúsaáhrifum, en aðallofttegundir andrúmslofts, N2 (nítur), O2 (súrefni) og Ar (argon) ekki. Þær ná ekki að fanga myrku geislana. Hinar ýmsu gróðurhúsaloftteg- undir valda mjög mismunandi áhrif- um. Fyrir tilstilli Loftslagsráðs Sam- einuðu þjóðanna (IPCC) hefur sú venja skapazt að umbreyta öllum slíkum lofttegundum nema vatnsgufu í jafngildi koltvíoxíðs. Aðgerðum ann- arra gróðurhúsalofttegunda er breytt í áhrif koltvíoxíðs með því að nota hugtakið hnattrænt hlýn- unargildi (e. global warming potenti- al eða GWPt) tegrað yfir tímann t. Eitt kíló af metan (CH4) jafngildir þannig 28-36 kg af kolsýru (CO2) yfir 100 ár. Gróðurhúsaáhrifin útskýrð Ari Ólafsson, eðlisfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, hefur skrifað fræðilega yfirlitsgrein um eðl- isfræði gróðurhúsaáhrifanna. Þeim sem vilja öðlast dýpri skilning á þess- um áhrifum er bent á grein hans frá 2007 í tímaritinu um raunvísindi og stærðfræði. Með nútíma vitneskju um tíðniróf sólargeisla ásamt aukinni þekkingu á varmageislun mismun- andi efna, er rétt að endurskilgreina gróðurhúsaáhrifin á eftirfarandi hátt. Varmageislar frá sólu (björtu geislarnir) einkennast af yfirborðs- hita hennar um 6.000 gráður Kelvin. Tíðni sólargeislanna er að megin- hluta innan sýnilega litrófsins, og mestur hluti þeirra fer rakleiðis gegnum lofthjúpinn og hittir fyrir yf- irborð jarðar. Um 30% þeirra end- urspeglast út í himingeiminn, en jörðin losar sig við 70% þeirra (kóln- ar) með varmageislun á tíðnisviði djúpt í innrauða litrófinu, en eigin- leikar geislanna ráðast af meðalyfir- borðshita á jörðu, 289°K (15-16 gráð- ur). Í lofthjúpnum eru sameindir, gróðurhúsalofttegundirnar, sem eru ljósvirkar á innrauða bilinu. Þær drekka dimmu geislana í sig og senda frá sér varmageislun sem er jafn- dreifð í allar áttir. Hún stefnir jafnt niður til jarðar og út í himingeiminn. Á litrófsbilum með háan ísogsstuðul verður geislun gróðurhúsaloft- tegunda jafn kröftug og geislun yfir- borðs, svo að jörðin kælir sig ekki gegnum þetta litrófsbil. Það eru gróðurhúsahrifin. Um gróðurhúsaáhrif og hlýnun jarðar Eftir Júlíus Sólnes » Íslendingar skera sig sem sagt úr hvað þetta efni áhrærir og því ekki vanþörf á, að meira sé fjallað um þessa ógn á opinberum vettvangi. Júlíus Sólnes Höfundur er prófessor emerítus og fv. umhverfisráðherra. Morgunblaðið mun á næstu vikum birta greinaflokk eftir Júlíus Sólnes, prófessor emerítus og fv. umhverfisráðherra, um gróðurhúsaáhrif og hlýnun jarðar. Í þessum greinaflokki verður fjallað um hvernig gróðurhúsaáhrifin voru uppgötvuð snemma á nítjándu öld, þróunarsaga loftslagsvísinda rakin og sagt frá hvernig flestir vísindamenn urðu smám saman sammála um óhjákvæmilega hlýnun lofts á jörðu vegna vaxandi losunar koltvíoxíðs. Júlíus sat aðra alheimsráðstefnu Samein- uðu þjóðanna um loftslagsmál í Genf 1990, þegar fyrsta skýrsla Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna var kynnt. Hann hefur síðan fylgst vel með þessum málum og haldið fjölmarga fyrirlestra um gróðurhúsaáhrifin. Sýnileg sólargeislun Innrauð jarðgeislun Við yfirborð jarðar, meðalhitastig um -18°C Við yfirborð jarðar, meðalhitastig um +16°C A) Ekkert andrúmsloft B) Andrúmsloft (02 (21%), N2 (78%), Ar (argon, 0,9%), H2O (vatns- gufa, 0,4%), CO2 (0,04%) svo og ýmsar aðrar gastegundir) Ofan þaks, hitastig geimsins um -270°C Lofthjúpur jarðar Gróðurhúsaloft- tegundir ná að gleypa varmageislana, endurkasta þeim og andrúmsloftið hitnar. Hluti hátíðnigeisla endurkastast og tvístrast frá smáögnum („aerosols“) í lofthjúp jarðar. Hátíðnigeislar frá sólu (bjartir geislar), komast nær hindrunar- laust gegnum lofthjúpinn. Jörðin gleypir eitthvað af hátíðnigeislunum og hitnar, og endurkastar að mestu björtu geislunum sem lágtíðni varmageislum. Lágtíðnivarmageislun frá yfirborði jarðar (myrkir geislar). SÓLIN Lofthjúpur jarðar Hlýnun Af hverju ættu Íslendingar að hafa áhyggjur af hlýnun jarðar? (Af forsíðu blaðsins The Economist, febrúar 2008.) Gróðurhúsaáhrif Líkan Josephs Fourier af gróðurhúsaáhrifum af völdum vatnsgufu í gufuhvolfinu. Lofthjúpur Fourier Nítur eða köfnunarefni er langstærsti hluti andrúms- lofts jarðar, eða um 78%. Súrefni er um 21%, og önnur efni, svo sem vatns- gufa og koltvíoxíð, mun minna.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.