Morgunblaðið - 01.04.2016, Page 19

Morgunblaðið - 01.04.2016, Page 19
19 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 1. APRÍL 2016 Þúsund ár Tólf af 15 systkinum frá bænum Öxl í Breiðuvíkurhreppi á Snæfellsnesi komu saman í Hafnarfirði í gærkvöld til að fagna því að þau náðu samanlagt 1.000 ára aldri. Afmælisbarn dags- ins, Ólafur Karlsson, var fjarverandi, sem og Reimar og Elín. Á myndinni eru þau sem komu saman í gærkvöldi, f.v. Jóhannes, Kristlaug, Sigurður Karl, Guðrún, Emilía, Ingólfur, Ólöf, Anna, Steinar, Guðbjörg Baldvina, Eiríkur og Kristjana Karlsbörn. Á forsíðu blaðsins í gær urðu þau leiðu mistök að systkinin voru sögð afkomendur Axlar-Björns og er beðist velvirðingar á því. Árni Sæberg Menn leita skýringa á undirrót hryðjuverk- anna í París í nóvember 2015 og í Brussel 22. mars 2016. Öfgahyggju- menn múslima standa að baki voðaverkunum. Ósvarað er hvers vegna ungir menn snúast gegn samborgurum sínum á þennan hátt. Hryðju- verkamennirnir laumast til Sýrlands til fundar við illvirkja og kveikja síðan á sjálfsmorðssprengj- unum á heimavelli. Engin skýring er einhlít. Hér verður vitnað til þriggja ólíkra manna sem hafa undanfarna daga lýst skoðun sinni á því sem að baki býr. Stjórnmálamaðurinn Sósíalistinn Patrick Kanner, ráð- herra borgarmála í Frakklandi, sagði í sjónvarpsviðtali á páskadag að „sum hverfi í Frakklandi“ gætu tekið á sig svipaða mynd og Molenbeek í Bruss- el. Frá því að hryðjuverkamenn réð- ust á þrjá staði í París 13. nóvember 2015 hefur Molenbeek verið í heims- fréttunum og lýst sem fátæku sam- félagi múslima, kjörlendi fyrir ísl- amska vígamenn. Athyglin á hverfið minnkaði ekki eftir að belgíska lög- reglan fann Salah Abdeslam þar 18. mars 2016, eina eftirlifandi hryðju- verkamanninn frá París. Franski ráðherrann lýsti Molen- beek sem hverfi fátæktar og atvinnu- leysis utan belgíska samfélagsins þar sem mafía stjórnaði neðanjarðar- hagkerfi. Hverfið væri að mestu án opinberrar þjónustu og kjörnir fulltrúar létu það sig engu skipta. Prófessorinn Franska blaðið Le Figaro birti þriðjudag- inn 22. mars, dag hryðju- verkaárásanna í Brussel, viðtal við Pierre Verme- ren, prófessor í nútíma- sögu Norður-Afríku við Sorbonne-háskóla. Spyr blaðið hvernig Salah Abdes- lam hafi tekist að fara huldu höfði í fjóra mánuði þrátt fyrir mikið eftirlit í Molenbeek-hverfinu. Prófessorinn segir að hann hefði ekki getað falist án samverkamanna í hverfinu og samstöðu heimamanna. Svo virðist sem hryðjuverkahópar í Brussel hafi búið um sig með fjölskyldum og hóp- um sem kenndir séu við Rif (strand- hérað við Miðjarðarhaf í Marokkó) og tengist þar með skipulögðum glæpa- hópum þaðan. „Í þessum fjallabyggð- um skammt frá Miðjarðarhafi og einkum meðal íbúa þaðan sem flust hafa til annarra landa hafa menn tam- ið sér þagmælsku, að spyrja einskis, að verjast í skjóli þagnar,“ segir pró- fessorinn Hann telur að líta megi á mafíu- netið í Marokkó sem flytur út og dreifir hassi sem sprota fyrir sellur og síðan kerfi herskárra ofsatrúar- manna. Ungu mennirnir sem stundi glæpaverkin hafi ekki aðeins beðið guð fyrirgefningar á óhæfuverkum sínum heldur gengið öfgahyggjunni á vald. Við afbrotastarfsemina á jaðri samfélagsins hafi þeir hagnast og til- einkað sér þekkingu á vopnum og hvernig laumast megi milli landa og innan Evrópu. „ Þeir sveifla sér stöð- ugt milli síma, netsins og beinna sam- skipta, maður á mann, þar sem það jafngildir dauðadómi að standa ekki við orð sín,“ segir prófessorinn. Lögregla og leyniþjónustur í Frakklandi hafi skilgreint hættuna af þessari starfsemi til fullnustu. Á hinn bóginn láti franskir stjórnmálamenn sér þetta í léttu rúmi liggja, af van- þekkingu, af áhugaleysi eða vegna hugmyndafræði. Af þessum sökum hafi svo lítið miðað frá árásunum árið 1993 (Marrakech), 1995 (Kelkal), 1996 (Roubaix-gengið), 2003 (Casa- blanca), 2004 (Madrid), 2012 (Merah) og 2015 (París í janúar og nóvember). Í öllum þessum tilvikum hafi verið tengsl milli hópa hryðjuverkamanna og mafíunnar. Sú skoðun hafi rutt sér til rúms undanfarna áratugi meðal ráða- manna (til hægri og vinstri) að versl- un með hass sé ekki eins slæm og áð- ur hafi verið talið. Elíturnar telji að í hassi felist leið til að kaupa sam- félagsfrið hjá ungu fólki, til að auðga fátæka og draga úr byltingarþrá ann- arra. Menntunarleysið, ofbeldið, geð- veikin, umferðarslysin skipti minna máli í þessu samhengi en afkoma mafíunnar sem yrði enn ofbeldisfyllri gæti hún ekki stundað þessi viðskipti. Í stuttu máli þá telji margir miklu skipta að ekkert sé gert á hlut hinna umfangsmiklu fíkniefnasmyglara, þeir verndi samfélagsfrið í Marokkó en einnig í úthverfum franskra borga og rói unga fólkið. Lögfræðingurinn Eftir árásirnar í Brussel leitaði belgíska blaðið DH álits svissnesks lögfræðings, Philippes Kenels, for- manns svissnesk-belgíska verslunar- ráðsins og birtist viðtal við hann fimmtudaginn 24. mars. Hann segist oft hafa talið þróunina í Sviss og Belg- íu sambærilega þótt Sviss hafi aldrei verið nýlenduveldi. Fjöldi verka- manna frá Ítalíu, Spáni og Portúgal hafi komið til Sviss en aldrei neinir frá Marokkó eða Túnis eins og til Belgíu á sjöunda og áttunda áratug- unum. Norður-Afríkubúarnir hafi fljótt fengið belgískan ríkisborgara- rétt og aldrei hafi verið hugað sér- staklega að aðlögun þeirra. Þetta hafi leitt af sér sérstök hverfi í Belgíu eins og Molenbeek. Íbúarnir þar beri belgískan ríkisborgararétt og njóti gæða samfélagsins þótt þeir hafi aldrei lagað sig að hefðum þess og siðum. „Sósíalistaflokkurinn hefur árum saman notið þar [í Molenbeek] verulegs fylgis meðal kjósenda. Það er hart að þurfa að segja það en Belg- ar borga það nú dýru verði að hafa ekki fylgt markvissari stefnu,“ segir Kenel. Sjálfur hafi hann sætt ámæli og verið stimplaður hægri maður fyrir að minna á að Evrópa sé að grunni kristin álfa. „En hvers vegna að hræðast að segja það? Þetta er einfaldlega stað- reynd og felur alls ekki í sér andstöðu við neinn annan. Ég hef ávallt talið að best sé að taka á móti útlendingum með óbrenglaða sjálfsmynd. Í mínum huga er ekkert land án eigin sjálfs- myndar, væri málum ekki þannig háttað þyrfti ekki að ræða nauðsyn þess að aðrir löguðu sig að einhverju. Í Belgíu hafa menn dregið um of að átta sig á þessu og gefið of mikið eftir í stað þess að beita sama strangleika og Svisslendingar gagnvart þriðju ríkjum – er of seint að snúa nú við blaðinu?“ spyr svissneski lögfræðing- urinn og lýkur samtalinu á þeim orð- um að í Belgíu kunni að reynast sér- staklega erfitt að berjast fyrir aðlögun múslima að belgísku sam- félagi, þeir hugsi kannski einfaldlega með sér að eftir hálfa öld myndi þeir meirihluta í landinu. Flókinn veruleiki Nokkur samhljómur er í orðum þessara manna: það hafi orðið til hóp- ur á jaðri evrópskra samfélaga þar sem öfgahyggju undir merkjum ísl- ams hafi tekist að fylla tómarúm. Tekist hafi að virkja smáglæpamenn og fíkniefnaneytendur, oft með hörmulegum afleiðingum. Ósann- gjarnt er þó að setja alla í umræddum hverfum undir sama hatt, þar eru einnig dugmiklir, friðsamir og lög- hlýðnir borgarar landa sinna. Í samtímanum hefur skírskotun til aðkomufólks sem lagar sig ekki að siðum og hefðum nýrra heimalanda meiri hljómgrunn en áður vegna hins mikla fjölda sem streymir til Evrópu. Hér á landi skiptir miklu eins og ann- ars staðar að tómlæti og skortur á markvissri stefnu geti ekki af sér jaðarhópa, kjörin fórnarlömb öfga- hyggju. Eftir Björn Bjarnason »Nokkur samhljómur er: það hafi orðið til hópur á jaðri evrópskra samfélaga þar sem öfga- hyggju undir merkjum íslams hafi tekist að fylla tómarúm. Björn Bjarnason Höfundur er fyrrv. ráðherra. Jaðarhópar fórnarlömb öfgahyggju

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.