Morgunblaðið - 31.05.2016, Síða 23
23
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 31. MAÍ 2016
Tungumálaauður Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgar-
stjóri voru viðstödd afhjúpun listaverksins Tungumálaregnbogans í Fellaskóla í gær. Á það
eru rituð heiti lita á öllum þeim tuttugu og þremur tungumálum sem eru töluð í skólanum.
Eggert
Furðu gegnir hversu
sjaldan er í íslenskri
leiklistarumfjöllun
staldrað við og reynt að
líta um öxl eða spá í
veðrið í dag og á morg-
un, hugsanlega beina
kíkinum til útlanda ell-
egar jafnvel rifja upp ís-
lensku leiklistarsöguna
í sínu samhengi.
Nú í vetur vorum við
minnt rækilega á blómsturtíð evr-
ópskrar og bandarískar leikritunar
um og upp úr miðbiki síðustu aldar,
þann tíma þegar helstu verk Arthurs
Millers, Tennessee Williams og Edw-
ards Albee litu dagsins ljós vestra,
verk Sartres og Anouilh’s og síðar ab-
súrdistanna Becketts, Ionescos og
allra hinna í Frakklandi, Chri-
stophers Fry, reiðu ungu mannanna
Osbornes og Weskers og svo Pinters
í Bretlandi, Dürrenmatts og Max
Frisch í hinum þýskumælandi heimi
og Darios Fo á Ítalíu svo að fátt eitt
sé nefnt. Það þótti kominn tími á að
láta reyna á það, hvort þessi verk eru
líkleg til þess að fá á sig sígildan
stimpil og sleppa inn í páfagarðinn og
verða kanón eins og nú þykir svo fínt
að kalla öndvegisverk.
Þrjú slík verk voru á fjölunum í
vetur og stóðust öll prófið í sinni ís-
lensku útfærslu, þó að þau byggju
ekki lengur yfir þeim ferskleika sem
naflastrengurinn við ritunartíma
verkanna iðulega flytur með sér.
Kannski hefði mátt leika Pinter ögn
minna bókstaflega, galdurinn hjá
honum er oftar milli línanna. Og
Þjóðleikhúsið tefldi fram ungum leik-
urum í Sporvagninum, af því að leik-
hópur hússins hefur
ekki komið mjög sterk-
ur undan vetri, en naut
reynslu Stefáns Bald-
urssonar, sem hefur
persónuleikstjórn á
valdi sínu – og það er
reyndar langt frá öllum
leikstjórum gefið. Áber-
andi var að sjá, að Nína
Dögg Filippusdóttir
hafði vaxið mjög af
þeirri samvinnu. Í Hver
er hræddur við Virginíu
Woolf? var reynsluleysi
ungu leikaranna einnig þeim fjötur
um fót, en hins vegar var afar gaman
í þessari uppfærslu – ætli ég hafi ekki
séð einar sjö – að sjá George í yf-
irburðatúlkun Hilmis Snæs Guðna-
sonar standa uppi sem sigurvegara í
værum þeirra hjónakornanna, hér
var það hann sem er ofbeldismað-
urinn bæði líkamlega og andlega – og
því innst inni sá sem tapar. Martha
Margrétar Vilhjálmsdóttur varð nið-
urbrotið fórnarlamb. Í fyrri upp-
færslum hér á landi voru það Mörth-
urnar Helga Valtýsdóttir, Lilja
Guðrún Þorvaldsdóttir og Helga
Bachmann sem höfðu töglin og hagld-
irnar í skjóli föður Mörthu og þannig
hef ég séð verkið hafa verið túlkað
víða erlendis. Í miðsýningunni, sem
Kjartan Ragnarsson stýrði, var túlk-
un Rúnars Freys Gíslasonar á unga
kennaranum mjög minnisstæð, hann
var ófyrirleitinn frá fyrstu tíð og vissi
hvað hann ætlaði sér. En Róbert
Arnfinnsson sem lék George á móti
Helgu Valtýsdóttur forðum var hins
vegar á mjög ólíkum nótum og Hilmir
Snær og þó einnig næsta eftirminni-
legur; hann barðist við einhvers kon-
ar vitsmunalegt nennuleysi sem gerði
það að verkum að hann hafði ekki út-
hald nema í lotum í glímu þeirra.
Verkið reyndist ganga upp á hvorn
veginn sem er. Georg Rydeberg í
sýningu Bergmans í Stokkhólmi hafði
vitsmunalega yfirburði, en var jafn-
framt heftur af þeim sömu vitsmun-
um eins og alþekkt fyrirbæri er. Þau
Richard Burton og Elizabeth Taylor
börðust mest á erótískum nótum í
kvikmyndinni sem gerð var eftir
leiknum.
Þetta leiðir auðvitað hugann að því
blómaskeiði sem við upplifðum hér á
Íslandi í kjölfar áðurnefndra höfunda
og verka, þeim árum þegar leikrit
Jökuls Jakobssonar, Guðmundar
Steinssonar, Odds Björnssonar, Jón-
asar Árnasonar, Birgis Sigurðssonar,
Nínu Bjarkar Árnadóttur, Kjartans
Ragnarssonar, Svövu Jakobsdóttur,
Vésteins Lúðvíkssonar – og Halldórs
Laxness – og svo margra annarra
ágætra höfunda komu fyrst fram – og
nú verður stór hópur að fyrirgefa,
ekki eru allir taldir sem verðugt væri.
Á fá þessara verka hefur verið látið
reyna aftur og má það furða sæta. En
sú staðreynd helst í hendur við að þau
fáu íslensku leikrit, sem þjóðin hafði á
árum áður, allt frá miðri 19. öld, yljað
sér við aftur og aftur, eru einnig horf-
in af verkefnaskránni. Ég hefði hald-
ið, að á tímum dægurlagamenningar
(og mest erlendrar) og auglýsinga-
mennsku væri mikil þörf á að reyna á
reipi fortíðar svo að ekki myndist
menningarlegt rof milli kynslóðanna,
að kanna hvert hald er í þessu gamla,
sem sumum þykir ástæða til að hæð-
ast að: þjóð, tungu, sögu.
Trúlega yrði niðurstaðan í ein-
hverjum dæmum önnur en segjum
fyrir 30 árum, en það er höfuðsök að
kanna ekki hvar við stöndum. Reynd-
ar ætti ekki að vera óskemmtilegri
glíma að taka fram þessi gömlu leikrit
og framreiða þau á þann hátt sem við
höldum nútímalegan, fremur en stara
óaflátanlega á aumingja Shakespeare
og Tjekhov sem ýmsir leikstjórar
hafa verið önnum kafnir við að betr-
umbæta – sem skáld. Hver segir að
ekki megi útbúa mikla menning-
arlega skemmtun úr Pilti og stúlku
með listrænni stílfærslu? Og Þjóð-
leikhúsið skuldar Indriða Einarssyni
enn að láta á Sverð og bagal reyna –
þegar leikhúsið dró sambærilega van-
rækt verk fram, Jón biskup Arason
séra Matthíasar og Smalastúlku Sig-
urðar málara (og Þorgeirs Þorgeirs-
sonar), þá tókst það vel og var vegs-
auki fyrir leikhúsið.
En vel á Tjekhov minnst. Við sáum
Máfinn í vetur í þeim afbyggingarstíl
sem tröllriðið hefur evrópsku leik-
húsi, einkum hinu þýska, að und-
anförnu, og botnar í rauninni á ein-
hvers konar skömmum þrunginni
afneitun á fortíðinni, og verður til
lengdar fremur niðurdrepandi en
upplyftandi. Hér var fyrri hluti sýn-
ingarinnar að vísu upplyftandi og
býsna skemmtilegur en eftir hlé datt
botninn úr öllu saman. Og sú aðferð
að setja frásögnina í ramma fannst
mér ekki takast; við vissum frá upp-
hafi að Konstantin myndi fremja
sjálfsmorð. Ég hélt að leikritið ætti
að leiða það fram.
Eftir Svein
Einarsson
»Reyndar ætti ekki að
vera óskemmtilegri
glíma að taka fram þessi
gömlu leikrit og fram-
reiða þau á þann hátt
sem við höldum nútíma-
legan.
Sveinn Einarsson
Höfundur er leikstjóri.
Að loknu leikári
Morgunblaðið/Þorkell
Kristnihald undir Jökli Leikararnir Pétur Einarsson og Gísli Örn Garðarsson.
Aðalskipulag Reykjavíkur
2010-2030 gengur út á þéttingu
byggðar. Þrátt fyrir stefnu
borgarinnar um þéttingu
byggðar er varla hægt að segja
að borgin hafi verið með til sölu
lóðir á þéttingarreitum í borg-
inni eftir hrun. Þær lóðir sem
verið er að byggja á eða til
stendur að byggja á eru flestar í
höndum fasteignafélaga á dýr-
ustu stöðunum í borginni og
hæpið að þar verði byggðar litlar og ódýrar
íbúðir en mikil þörf er á slíkum íbúðum. Það
gengur of hægt að byggja til að mæta þeirri
miklu eftirspurn sem er og slíkt leiðir af sér
verðhækkanir. Ekki hjálpar síðan til lítið lóða-
framboð borgarinnar og staðsetning húsnæð-
isins en þétting byggðar leiðir af sér hærra verð
þar sem verið er að byggja á dýrustu stöðum
borgarinnar, allt á kostnað unga fólksins sem
hefur ekki ráð á því húsnæði sem er í boði.
Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kemur
fram að það þurfi að byggja um 700 íbúðir á ári.
Í Reykjavík var byrjað að byggja 614 íbúðir á
árinu 2013, 597 íbúðir á árinu 2014 og útgefin
byggingarleyfi á árinu 2015 voru 926. Það tekur
tíma að byggja eins og sjá má á vef Þjóðskrár
Íslands en þar kemur fram að íbúðum í Reykja-
vík fjölgaði um sex á árinu 2011, 137 á árinu
2012, 229 á árinu 2013 og 398 á árinu 2014.
Einungis 10 fjölbýlishúsalóðum úthlutað
á rúmlega fimm árum
Reykjavíkurborg hefur einungis úthlutað 10
fjölbýlishúsalóðum með fleiri en fimm íbúðum á
rúmlega fimm ára tímabili. Aðgerðarleysið við
lóðaúthlutanir og vanræksla við að fylgja hús-
næðisstefnu borgarinnar frá 2011 hefur skapað
mikinn vanda. Uppbyggingin gengur hægt og
eftirspurnin er langt umfram framboð sem hef-
ur í för með sér hærra húsnæðisverð. Þétting
byggðar á lóðum sem eru í höndum annarra að-
ila leysir ekki húsnæðisvandann í Reykjavík
enda er það ekki á allra færi að kaupa eða leigja
íbúðir á dýrustu stöðunum í borginni.
Lóðaúthlutanir 2015
Á árinu 2015 úthlutaði borgin engri fjölbýlis-
húsalóð með fleiri en fimm íbúðum. Á síðasta ári
úthlutaði borgin samtals 45 lóðum
fyrir samtals 97 íbúðir, þ.e. 13 lóðum
fyrir einbýlishús, 17 lóðum fyrir par-
hús, tveimur raðhúsalóðum fyrir þrjú
hús á lóð, þremur raðhúsalóðum fyrir
fjögur hús á lóð og fjórum raðhúsa-
lóðum fyrir fimm hús á lóð. Þá var
einni lóð úthlutað með fjórum íbúðum
í blönduðu húsnæði. Auk þess sem á
fimm lóðum, sem úthlutað var, eru
samtals átta íbúðir, þ.e. fjögur sérbýli
og eitt fjölbýli með fjórum íbúðum.
Af þeim 45 lóðum fyrir samtals 97
íbúðir sem borgin úthlutaði á síðasta
ári voru einungis 15 íbúðir á lóðum
annars staðar en í Úlfarsárdal eða Reynisvatns-
ási.
Einbýlishúsalóðir og
ein parhúsalóð til sölu
Auk lóðanna tveggja í Vesturbugt fyrir svo-
kölluð Reykjavíkurhús hefur borgin nú til sölu
einbýlishúsalóðir í Úlfarsárdal og í Reyn-
isvatnsási, auk einnar parhúsalóðar í Úlfars-
árdal, sem sýnir að framboð borgarinnar á lóð-
um er mjög einsleitt og hefur svo verið um
árabil. Þarf því að hafa hraðar hendur að út-
hluta allskonar lóðum fyrir fjölbreytt húsnæði
víðsvegar um borgina ef það á að takast að leysa
húsnæðisvandann í borginni í nánustu framtíð.
Þó að til standi að borgin úthluti á þessu og
næstu misserum lóðum fyrir 1.200 íbúðir þá eru
þær nú þegar eyrnamerktar ákveðnum aðilum
eða hópum og því ljóst að lítið framboð verður
áfram á lóðum fyrir aðra en fáa útvalda í borg-
inni og mun það gera ákveðnum hópum, t.d.
ungu fólki, erfitt fyrir að eignast húsnæði í borg-
inni.
Einsleitt lóðaframboð
Eftir Guðfinnu
Jóhönnu
Guðmundsdóttur
Guðfinna Jóhanna
Guðmundsdóttir
» Þær lóðir sem verið er að
byggja á eða til stendur að
byggja á eru flestar í höndum
fasteignafélaga á dýrustu stöð-
unum í borginni og hæpið að
þar verði byggðar litlar og
ódýrar íbúðir
Höfundur er borgarfulltrúi
Framsóknar og flugvallarvina.