Morgunblaðið - 17.06.2016, Síða 32

Morgunblaðið - 17.06.2016, Síða 32
32 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. JÚNÍ 2016 ✝ Birgir GrímurJónasson fæddist 6. apríl 1954. Hann lést á Eisenhower- sjúkrahúsinu í Palm Desert í Kali- forníu 30. apríl 2016. Foreldrar Birgis eru Halldóra Guð- mundsdóttir, f. 8. mars 1933, og Jón- as Guðvarðsson, f. 17. október 1932, d. 29. nóvember 1997. Systkini hans eru Björg Jón- asdóttir, maki Halldór Þ. Sig- urðsson, og Jónas Bragi Jón- asson, maki Catherine Dodd. Æskuheimili Birgis var að Stekkjarkinn 17 í Hafnarfirði. Hann sótti framhaldsskóla í Barcelona og Palma á Mallorca meðan foreldrar hans voru þar við nám og störf. Birgir starf- aði um hríð sem fararstjóri á Mallorca, starfaði við fisk- verkun og aðra verkamanna- vinnu og var í þjóðlagatríóinu Tríóla. Árið 1976 hlaut hann styrk til að stunda nám við University of Ore- gon í Eugene og útskrifaðist þaðan sem innanhúss- arkitekt 1981. Á námsárunum kynntist Birgir eiginkonu sinni, Janet Lynn Spry frá Yreka í Kali- forníu, og gengu þau í hjóna- band í Eugene í Oregon 8. sept- ember 1981. Þau settust að í Palm Desert í Kaliforníu og vann Birgir þar að verkefnum í fagi sínu og að húsagerð, en breytti um kúrs síðustu árin og annaðist forfallakennslu á unglingastigi, þar á meðal í spænsku. Synir Birgis og Janet eru Jo- nas Leo Jonasson, f. 30. júní 1987, og Thor Jonasson, f. 24. apríl 1989. Bálför Birgis hefur farið fram. Birgir Grímur Jónasson, bróð- ir minn, er nú fallinn frá. Hann mun ætíð lifa í hugum okkar vina og vandamanna. Birgir var ævintýramaður sem elti drauma sína. Hann ólst upp í fallegu húsi sem foreldrar okkar, Halldóra Guðmundsdóttir og Jónas Guðvarðsson, reistu í Hafnarfirði. Á unglingsárum Birgis bjuggum við í Barcelona og Palma á Mallorca er faðir okk- ar stundaði þar myndlistarnám á árunum 1968-72. Þar gekk Birgir í enskumæl- andi menntaskóla og Björg, syst- ir okkar, fór sem au-pair til Frakklands á þeim árum. Síðar vann Birgir sem fararstjóri ís- lenskra ferðamanna á Mallorca. Áhugi Birgis á allri góðri hönnun, tónlist, myndlist og byggingalist fór ekki framhjá neinum. Varð svo úr að hann nam innanhússarkitektúr við Uni- versity of Oregon á vesturströnd Bandaríkjanna og útskrifaðist 1981. Að námi loknu var Birgir ráðinn til starfa hjá hinni virtu hönnunar- og arkitektastofu Ste- ves Chase í Kaliforníu þar sem hann starfaði um árabil. Eftir að Birgir hóf að starfa sjálfstætt hannaði hann nokkurn fjölda bygginga. Mest teiknaði hann þó innréttingar í glæsihýsi, skrifstofubyggingar, söfn og verslanir í Kaliforníu. Þar á með- al má nefna fornbílasafn og heilsustofnun. Birgir og Janet, eiginkona hans, bjuggu sér fallegt heimili í Palm Desert í Kaliforníu og eign- uðust synina Jonas Leo og Thor. Stærstan hluta hússins hannaði Birgir sjálfur og annaðist mest- alla smíði og frágang með eigin höndum. Mér er sérstaklega eftirminni- legt eitt árið sem Birgir kom heim í sumarleyfi frá náminu. Þá kynnti hann föður okkar, sem var þá starfandi myndlistarmaður, fegurð glers og glerlistar sem hann hafði upplifað í námi sínu í Oregon. Þessi kynni höfðu tölu- verð áhrif á listsköpun föður okk- ar, sem innleiddi litað gler í verk sín um tíma. En ekki síður hafði það áhrif á mig að fá þessa innsýn í töfra glersins. Alla tíð síðan hef ég helgað mitt starf myndlist og haft gler sem þann miðil sem ég nota helst. Það var mér mikil gæfa að eiga Birgi sem stóra bróður og áhrifavald á þeirri braut sem ég hef fetað. Birgir lést langt um aldur fram og missir Janet og sona þeirra er mikill og sár. Við Cat- herine og börnin vottum þeim innilega samúð okkar. Jónas Bragi Jónasson. Í ágúst verða 40 ár liðin frá því að Birgir bankaði upp á hjá mér til að heilsa tilvonandi skóla- félaga við University of Oregon. Við höfðum báðir fengið styrk fyrir skólagjöldunum, ég í blaða- mennsku og hann í arkitektúr. Saman flugum við til Oregon um haustið og næstu þrjú ár vorum við sem bræður, leigðum saman, skemmtum okkur, ferðuðumst og eignuðumst sameiginlega vini. Með okkur tókst vinátta sem hélst óslitið þó Birgir hafi sest að í Bandaríkjunum að námi loknu. Þau voru ófá klukkutíma löngu símtölin sem við áttum gegnum árin. Birgir var kappsamur dugnað- arforkur, talaði hraðar og meira en nokkur sem ég hafði kynnst, sýndi alltaf góða skapið, var hæfilega stríðinn og lagði sig fram um að miðla af ótrúlegri þekkingu sinni á tónlist, gömlum bílum, arkitektúr og listum. Sér- staklega var tónlistaráhugi hans bráðsmitandi, vínilplötusafnið stækkaði hratt og honum tókst að sannfæra mig um að það væri peninganna virði að skella sér á tónleika með Elvis. Það var ekki í boði að fljúga heim í jólafríum og þá var ekki annað en leita uppi aðra náms- menn í sömu stöðu til að eiga hálfíslensk jól. Sérstaklega minnisstætt er jólahaldið í sund- laugarhúsinu hjá Ellu Þóru Frið- finnsdóttur, Halla Thorsteins og Evu litlu Bergþóru. I‘m an Ice- landic cowboy var sungið í tætlur við undirleik Birgis og geðþekka skátans Tryggva Jónssonar og jólatónleikunum lauk ekki fyrr en síðasti gesturinn var sofnað- ur. Listrænu hæfileikarnir sem Birgir erfði frá foreldrum sínum fengu vel að njóta sín í þeim verkefnum sem hann tók sér fyr- ir hendur sem innanhússarki- tekt. Húsgögnin sem hann teikn- aði hjá Steve Chase-hönnunarstofunni voru einstök listaverk. Birgir var ósérhlífinn og sá eiginleiki kom sterklega í ljós eft- ir að hann veiktist. Hann greind- ist með krabbamein í kjálka fyrir fjórum árum og gekkst undir uppskurði og erfiðar meðferðir sem gengu afar nærri honum. Samt kvartaði hann aldrei, talaði bara um viðfangsefnin sem hann ætlaði að halda áfram með þegar hann væri búinn að ná sér. Sú von rættist því miður ekki og það er sárt að sjá á eftir góðum vini á besta aldri. Fyrsta árið í Oregon kynntist Birgir tilvonandi eiginkonu sinni, Janet Lynn Spry, sem stundaði nám í listasögu. Áhuginn á fal- legri hönnun sameinaði þau og milli þeirra ríkti mikill kærleik- ur. Að námi loknu fluttu þau til Palm Desert í Kaliforníu og keyptu sér hús. Það leið þó ekki á löngu þar til athafna- og sköp- unarþrá Birgis hreinlega varð að fá útrás. Hann réðst í viðbygg- ingu við húsið og sinnti því öllum stundum að innrétta og fegra. Húsið var stóra áhugamálið og hann þreyttist ekki á því að tala um hvernig gengi og hvað væri næst á dagskrá. Birgir hafði einnig mikinn áhuga á gömlum amerískum bílum. Nash-fólksbíll frá fjórða áratugnum átti sinn stað í innkeyrslunni við heimilið, óhultur fyrir ryði í eyðimerkur- loftslaginu og því hægt að grípa í endurbætur eftir hendinni. Þau Birgir og Janet voru alla tíð einstaklega samheldin og samstiga. Missir hennar og sona þeirra er mikill en minningin um góðan dreng lifir áfram. Ólafur Hauksson. Birgir Grímur Jónasson ✝ Björn VíkingurÞórðarson fæddist í Vest- mannaeyjum 10. júní 1931. Hann lést á Líknardeild Land- spítalans 8. júní 2016. Foreldrar hans voru Þórður Bene- diktsson, f. á Grenj- aðarstað í Suður- Þingeyjarsýslu þann 10. mars 1898, d. 14. apríl 1982, og Anna Kamilla Sylvia Benediktsson, f. í Danmörku 3. júlí 1900, d. 4. desember 1997. Björn Víkingur var næstyngstur fjögurra systkina; 1) Sveinn Áki, f. 1. ágúst 1922, d. 16. ágúst 2011. ber 1973. Maki er Lísbet Alex- andersdóttir, f. 24. apríl 1975. Börn þeirra eru; a) Björn Vík- ingur Þórðarson, f. 18. nóvember 1995, b) Alexander Þórðarson, f. 10. febrúar 1999, c) Benedikt Þórðarson, f. 27. nóvember 2007. Björn Víkingur ólst upp í Vest- mannaeyjum til 11 ára aldurs en flutti þá til Reykjavíkur með fjöl- skyldu sinni. Alla sína starfsævi starfaði Björn Víkingur hjá ÁTVR, fyrst sem sendisveinn en vann sig upp í starf aðalgjald- kera og starfaði sem aðal- gjaldkeri ÁTVR til starfsloka 1. janúar 1999. Björn Víkingur var einn af kunnari skákmönnum landsins, sterkur meistaraflokksmaður úr TR um áratugaskeið, og síðar með Riddurunum – skákfélagi eldri borgara í Hafnarfirði. Þar var hann sleginn til heiðursridd- ara fyrir fimm árum. Útför Björns Víkings hefur farið fram í kyrrþey. 2) Ásta Benedikta, f. 16. júní 1924, d. 12. júlí 2001, og 3) Bald- ur, f. 20. september 1932. Eftirlifandi eig- inkona Björns Vík- ings er Guðmunda Inga Guðmundsdóttir, f. 1. júlí 1940. Guð- munda og Björn Víkingur gengu í hjónaband 31. desember 1967. Börn þeirra hjóna eru; 1) Anna Regína Björnsdóttir Nielsen, f. 21. febrúar 1968. Sonur hennar er Vikingur Nielsen, f. 14. nóv- ember 1997. 2) Þórður Björnsson, f. 9. októ- Ég kynntist Birni Víkingi fyrst haustið 1994 þegar ég fór að vera með Þórði, syni hans. Ég sá strax að þar fór góður maður, al- gert gæðablóð. Fyrsta barna- barn Björns Víkings og Guð- mundu fæddist í nóvember 1995 og fékk sá eðaldrengur nafnið Björn Víkingur Þórðarson. Mikið var sá gamli stoltur af alnafna sínum. Barnabarn númer tvö fæddist svo árið 1997 í Svíþjóð og þar var annar Víkingur á ferð og ekki var sá gamli minna stoltur þá. Barnabörnin urðu í heildina fjögur, allt drengir og voru þau hjónin einstaklega stolt af þeim öllum. Fallegustu og klárustu drengir sem uppi hafa verið og ekki ætla ég að mótmæla því. Björn var einstaklega ljúfur og góður maður og skipti aldrei skapi. Hann hafði góðan húmor og líka húmor fyrir sjálfum sér. Hann var óspar á hrósið og þegar hann kom í mat til okkar Þórðar var það alltaf besti matur sem hann hafði smakkað og bestu kökurnar sem hann hafði fengið. Hann náði meira að segja að hrósa mér fyrir jafninginn sem ég bauð honum uppá forðum daga, jafninginn sem var svo þykkur að hann þurfti að nota hníf og gaffal en samt var hann einstaklega bragðgóður. Já, Björn Víkingur var einstakur maður. Björn gekk í gegnum ýmis veikindi á sínum efri árum en náði sér alltaf á strik aftur. Ótrú- legur lífsvilji og kraftur í honum. Það var dýrmætur tími sem við fengum með honum síðustu sjö vikurnar þar sem ýmis mál voru rædd. Það var líka dýrmæt stund að fá að halda í hönd hans þegar hann kvaddi þennan heim. Ég er lánsöm að hafa átt Björn Víking sem tengdaföður. Hvíl í friði, elsku Björn Vík- ingur, þín tengdadóttir, Lísbet (Lísa). Við Björn Víkingur gengum í Taflfélag Reykjavíkur sama dag- inn, fyrir rúmum 60 árum. Þá réð þar ríkjum Guðmundur S. Guð- mundsson, formaður félagsins. „Þið skuluð tefla saman“ voru orð formannsins, og þetta átti svo sannarlega eftir að rætast. Við áttum eftir að heyja ótal orrustur á reitunum 64, en í stað grimmi- legra átaka myndaðist þarna djúp og einlæg vinátta sem aldrei bar skugga á. Björn var ljúflingurog skipti aldrei skapi, hvort sem hann hreppti vinninginn eða missti af honum. Björn varð fljótt öflugur skákmaður, og það merkilega var að hann færðist allur í aukana eftir að hann komst á eftirlaun, tæplega sjötugur, og mér fannst hann alltaf vera að bæta sig. Árið 2001 tókum við félagar þátt í Norðurlandamóti skák- manna 60 ára og eldri, en mótið var haldið í Noregi. Þar tefldi Björn af miklum krafti og var að- eins ½ vinningi frá verðlauna- sæti. Síðustu árin tefldi Björn vikulega á skákmótum eldri borgara, sem fram fóru í Hafn- arfjarðarkirkju hvern miðviku- dag. Þar setti hann jafnan svip sinn á mótin, og ef hann var ekki mættur tímanlega á staðinn fóru menn að ókyrrast og spurðu: „Hvar er Björn Víkingur? Er Björn ekki kominn?“ Björn var gæfumaður. Eigin- kona hans, hún Guðmunda, var hans trausti bakhjarl, allt þar til yfir lauk. Þau eignuðust tvö mannvænleg börn, óskabörnin, eins og oft er sagt, Önnu Regínu og Þórð. Ég tel það mikið lán í mínu lífi að hafa átt Björn að vini og bið honum og fjölskyldu hans Guðs blessunar. Jóhann Örn Sigurjónsson. Björn Víkingur Þórðarson Nú er hún elsku amma mín og nafna látin. En það er í raun ein- kennilegt að vera að kveðja þig núna því í raun- inni er nokkuð síðan þú hvarfst úr þessum heimi. Það hefur verið erfitt að horfa upp á þig síðustu ár en núna færðu hvíld- ina sem þú átt svo skilið. Minningarnar sem ég á um þig eru margar og góðar. Heimsóknirnar í litla, sæta, hvíta húsið þitt á Hvamms- tanga þar sem maður mátti borða endalausan kandís og ís úr frystikistunni þinni. Þá mátti maður skoða allt merkilega dótið þitt. Það var svo ótrúlega huggu- legt að sitja og horfa á Línu eða Emil á meðan þú sast og heklaðir í horninu þínu. Þú hafðir endalausa þolinmæði við okkur og við barnabörnin vor- um alltaf svo velkomin. Við Beta frænka nýttum okkur það mikið og lékum okk- ur mikið í fjörunni fyrir neðan húsið. Elsku amma, þú varst ótrú- leg kona og magnaður einstak- lingur. Ég ber nafn þitt með stolti og mun passa upp á hringinn þinn að eilífu. Guðrún Ingadóttir yngri. Elsku amma Gunna. Auðvit- að hlaut að koma að þessu, maður hefur vonað í nokkur ár að þú fengir hvíldina lang- þráðu, fyrir lifandi löngu orðin södd lífdaga og líkami þinn bú- inn að gefast upp fyrir löngu, allt nema hjartað sem ekki átti að þola mikið en jú það sló. Og það kannski lýsir þér best, að þrátt fyrir að hafa fengið fyrir mörgum árum dóm lækna um að hjartað stæði tæpt og að það yrði þér að falli varst þú á annarri skoðun, hjartað var ekki að gefa sig fyrr en í fulla hnefana. Þú hefur alltaf verið svo mik- ill dugnaðarforkur sterk og svo blíð og góð, undanfarna daga hef ég sagt strákunum mínum sögur af ömmu Gunnu og margar ljúfar minningar rifjast upp og sögurnar verða fleiri og fleiri. Ég er svo þakklát fyrir stundirnar sem ég átti með þér við handavinnu, sundferðirnar og göngutúrana. Það eru á viss- an hátt forréttindi að geta rifj- að upp góðar minningar og þá Guðrún Ingadóttir ✝ Guðrún Inga-dóttir fæddist 15. janúar 1925. Hún lést 7. júní 2016. Útför Guðrúnar fór fram 16. júní 2016. að eiga eingöngu góðar minningar með þér og um þig. Í hjarta mínu er gleði yfir því að hafa getað setið hjá þér og strokið vanga þinn síðustu dagana og fylgt þér svo síðasta sprett- inn vitandi að nú ertu komin á góðan stað með fólkinu okkar, afa Tryggva og Kalla frænda, sem hafa beð- ið komu þinnar um stund. Elsku amma, takk fyrir allt. Takk fyrir allt sem þú kenndir mér, og takk fyrir tímann sem við áttum saman tvær. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífsins nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Elska þig, amma mín. Þín Þórdís Erla. Elsku amma Guðrún. Ég vil með þessum orðum fá að þakka þér og afa fyrir að hafa verið hluti af lífi mínu og um leið fært mér og mínu fólki hlýju og minningar sem aldrei gleymast. Sakna þess enn að keyra inn á Strandgötuna og labba inn í yndislega litla húsið með sjáv- arútsýninu. Eitthvað alveg sér- stakt og veitir mér yl í hverri hugsun. Að sitja, spjalla og fara yfir sveitamálin, borða góðan mat og fylgjast með afa lesa bók og þér að prjóna eða hekla kallaði mikið á mig og er ég þakklátur fyrir hversu oft ég lagði leið mína til ykkar á mínum yngri árum og eins lengi og heilsa ykkar leyfði. Ég veit að þú ert nú komin á góðan stað og afi tekur vel á móti þér ásamt öðrum sveit- ungum og vinum. Mér þykir miður að geta ekki verið við útförina, elsku amma en ég kem norður í sum- ar og kíki við hjá þér og afa. Við sendum öllum ættingjum og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúðarkveðjur. Arnaldur Birgir Konráðsson og fjölskylda í Kaupmannahöfn. Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla útgáfudaga. Skilafrestur | Ef óskað er eftir birtingu á útfarardegi verður greinin að hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstu- degi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein ber- ist áður en skilafrestur rennur út. Lengd | Minningargreinar sem birtast í Morgunblaðinu séu ekki lengri en 3.000 slög. Ekki er unnt að senda lengri grein. Lengri greinar eru eingöngu birtar á vefnum. Hægt er að senda örstutta kveðju, HINSTU KVEÐJU, 5-15 línur. Ekki er unnt að tengja viðhengi við síð- una. Formáli | Minningargreinum fylgir formáli sem nánustu aðstandendur senda inn. Þar koma fram upplýsingar um hvar og hvenær sá sem fjallað er um fæddist, hvar og hvenær hann lést og loks hvaðan og klukkan hvað útförin fer fram. Þar mega einnig koma fram upplýsingar um foreldra, systkini, maka og börn. Ætlast er til að þetta komi aðeins fram í formálanum, sem er feitletraður, en ekki í minningargreinunum. Myndir | Hafi mynd birst í tilkynningu er hún sjálfkrafa notuð með minningargrein nema beðið sé um annað. Ef nota á nýja mynd skal senda hana með æviágripi í innsendikerfinu. Hafi æviágrip þegar verið sent er ráðlegt að senda myndina á netfangið minning@mbl.is og láta umsjónarmenn minningargreina vita. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.