Morgunblaðið - 05.07.2016, Qupperneq 2
Viðar Guðjónsson
vidar@mbl.is
Tugþúsundir manna komu saman í
miðborg Reykjavíkur til þess að
taka á móti íslenska karlalandslið-
inu þegar það kom heim eftir
frægðarför á Evrópumótið í Frakk-
landi. Allt ætlaði um koll að keyra
þegar landsliðið kom að Arnarhóli
og hápunkturinn var svo þegar allir
sem þarna voru saman komnir tóku
það sem sumir kalla víkingafagnið
sem flestir þekkja einfaldlega sem
húh!
Landsliðið kom akandi í opinni
tveggja hæða rútu og á framhlið
hennar mátti sjá ritað „Ég er
kominn heim“, en lagið er í flutningi
Óðins Valdimarssonar orðið eins
konar einkennislag landsliðsins.
Landsliðinu var vel fagnað eftir
allri Reykjanesbrautinni áður en
komið var að Skólavörðustíg, þar
sem fjöldi fólks fagnaði liðinu í blíð-
viðri. Þaðan var haldið niður Banka-
stræti og loks að Arnarhóli, þar sem
samkoman hafði staðið yfir í tæpar
tvær klukkustundir. Meðal annarra
hélt landsliðsþjálfarinn Lars Lager-
bäck stutta tölu og sjá mátti á hon-
um að hann var hrærður yfir mót-
tökunum. „En það sem ég hef séð
hér í dag er tilkomumeira en það
sem ég sá í París. Stuðningurinn er
ótrúlegur,“ sagði Lars.
Morgunblaðið/Eggert
Stjórnandinn Lars Lagerbäck var kampakátur á Arnarhóli og sagði stuðninginn sem liðið hefði fengið ótrúlegan. Var honum vel fagnað af viðstöddum eftir stutta tölu hans.
Tugþúsundir hylltu íslenska landsliðið
Gleði Hvarvetna mátti sjá bláklædda glaðlynda stuðningsmenn Íslands. Ungviðið Sannkölluð fjölskyldustemming var í miðbænum í gærkvöldi og stutt var í brosið hjá flestum.
Mikill mannfjöldi kom saman við Reykjanesbraut í gær í þeim tilgangi
að hylla íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu þar sem því var ekið til
Reykjavíkur. Þar fór fram heiðursathöfn þar sem landsliðið var boðið
velkomið heim. Stuðningsmennirnir veifuðu fánum í takt við dynjandi
lófatak þegar liðið keyrði framhjá.
Að sögn Hilmars Braga Bárðarsonar, fréttastjóra Víkurfrétta, voru
hundruð manna saman komin, en á myndinni að ofan má sjá stuðnings-
menn landsliðsins úr Innri-Njarðvík. Hilmar segir að við Keflavíkur-
flugvöll hafi einnig verið mikill mannfjöldi og í raun langleiðina að flug-
vellinum. Ljósmynd/Víkurfréttir
Fögnuðu við Reykjanesbraut
2
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 5. JÚLÍ 2016
Morgunblaðið Hádegismóum 2, 110 Reykjavík. Sími 5691100 Fulltrúar ritstjóra Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Fréttir Guðmundur Sv. Hermannsson ritstjorn@mbl.is Menning Einar Falur Ingólfsson menning@mbl.is
Viðskipti Sigurður Nordal vidskipti@mbl.is Íþróttir Víðir Sigurðsson sport@mbl.is mbl.is Sunna Ósk Logadóttir netfrett@mbl.is Smartland Marta María Jónasdóttir smartland@mbl.is Umræðan | Minningar mbl.is/senda grein Prentun Landsprent ehf.
EM Í FÓTBOLTA KARLA