Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.07.2016, Side 26
TÍSKA
26 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.7. 2016
Mikil hefð er fyrir götumörkuðum í Brussel. Einn sá þekktasti er markaðurinn
Gare du Midi á sunnudagsmorgnum. Þar er hægt að kaupa fatnað, matvörur
og húsbúnað á góðu verði. Þegar líða tekur á daginn er hægt að prútta vel.
Markaðsstemning í Brussel
C
openhagen Fashion Summit er stærsta ráðstefna
sinnar tegundar í heiminum en á henni er fjallað
um sjálfbærni (e. sustainability) í tískuheiminum.
Á námskeiði sem haldið er samhliða ráðstefnunni,
Youth Fashion Summit, koma saman 120 nem-
endur frá 40 löndum, bæði úr fatahönnun og líka úr viðskipta-
fræði og tengdum greinum, til þess að fræðast um stöðu mála í
fataiðnaðinum í dag, ræða vandamálin, viðra hugmyndir til batn-
aðar og semja kröfur til betri tískuiðnaðar. Ég var svo heppin að
fá að taka þátt í námskeiðinu og ráðstefn-
unni í tenglsum við mastersnám mitt í
fatahönnun í Kaupmannahöfn.
Dylis Williams, sem er yfir miðstöð
sjálfbærrar tísku við University of the
Art í London, stjórnaði námskeiðinu og
hún hvatti nemendurna áfram með þeim
orðum að við værum fyrsta kynslóðin
sem raunverulega gerir sér grein fyrir
skaðanum sem þessi oftast fallegi og
spennandi tískuiðnaður hefur valdið og
veldur enn í dag, en líka síðasta kynslóðin sem getur gert eitt-
hvað til batnaðar. Áður en það er of seint.
Mengar næstmest á eftir olíu
Tísku- og fataiðnaðurinn er sá næstmest mengandi í heiminum,
einungis á eftir olíuiðnaðinum. Langmest af framleiðslunni fer
fram í löndum sem hafa enga burði til þess að fylgja eftir reglum
um losun eiturefna, mengaðs vatns og koltvísýrings, ef þau þá
hafa þessar reglur yfirhöfuð. Bómullarræktun krefst gríðarlegs
vatnsmagns sem og litunaraðferðir. Akrar sem áður hafa verið
notaðir undir matarræktun víkja fyrir bómullarökrum og bænd-
ur sem ekki vita betur úða óhóflegu magni af skordýraeitri á
akra sína, án þess einu sinni að nota viðeigandi hlífðarbúnað.
Gríðarlegan mannafla þarf til þess að vinna efnin, spinna þau,
lita þau, prenta á þau og sauma úr þeim. Þessi störf eru iðulega
mjög lágt launuð, aðbúnaður starfsfólks engan veginn viðunandi,
vinnutíminn langur og vinnufólk fær ekki tækifæri til þess að
ganga í stéttarfélög til þess að geta bætt aðstöðu sína. Konur
verða fyrir kynferðislegu áreiti í vinnunni og eru reknar ef þær
verða ófrískar og í verstu tilfellum sitja börn við saumavélarnar.
Bláfátækar konur handsauma
pallíettur heima hjá sér
Evrópskt fyrirtæki sem til dæmis verslar við framleiðanda í
Bangladess á mjög erfitt með að vita nákvæmlega aðbúnað
starfsfólksins þar sem framleiðendur ráða verktaka sem svo
ráða aðra verktaka og engin yfirsýn er yfir keðjuna. Neðst í
henni, jafnvel lægri en starfsfólk í verksmiðjum, eru fátækar
konur sem sækja verkefni í verksmiðjurnar en taka með sér
heim flíkur sem þarf að handsauma. Þær sauma marga klukku-
tíma á dag, ásamt því að sjá um heimilið og börnin sín og þurfa að
sjá fyrir allri aðstöðu og verkfærum heima hjá sér og vinna jafn-
vel á handknúnar saumavélar því þær hafa ekki efni á því að
borga rafmagnsreikninginn sinn. Ef þú hefur einhvern tímann
keypt ódýra flík með ísaumuðum pallíettum eða flóknum hand-
saumi er mjög líklegt að sú flík hafi, allavega að einhverju leyti,
orðið til á moldargólfi inni á heimili bláfátækrar konu í fjarlægri
heimsálfu.
Á námskeiðinu Youth Fashion Summit var markmið þátttak-
enda að vinna með sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna fyr-
ir 2030 og huga að því hvernig fataiðnaðurinn getur orðið betri.
Það er ljóst að mikið þarf að gerast til að markmiðunum verði
náð, þau eru til dæmis að útrýma hungri og fátækt, jafna stöðu
kynjanna í öllum heiminum, auka sjálfbærni í framleiðslu og
neyslu og að auka jöfnuð á plánetunni fyrir alla þessa 9 milljarða
manns sem munu búa á jörðinni árið 2030.
Það sem stóð helst upp úr í niðurstöðum námskeiðsins og kröf-
um nemendanna er að mikil þörf er á því að draga úr neyslu fólks
í vestrænum löndum og að við þurfum að auka sýnileika allra
hlekkjanna í keðjunni og auka reglur og eftirlit með þeim í fram-
leiðslu, bæði hvað varðar umhverfismál og einnig um lágmarks-
laun, vinnuaðstöðu og vinnuumhverfi. Fataiðnaðurinn þarf auk
þess að hætta að reiða sig á ferskvatn og landsvæði sem annars
gætu verið notað undir matarræktun.
Hönnuðir hugi að endingu
Einnig kom fram að hönnuðir þurfa að vera virkari í því að hanna
góðar vörur sem endast lengur, bæði hvað varðar efni og frágang
en líka hvað varðar notagildi. Hönnuðir þurfa að vera meðvitaðir
um hvaða afleiðingar þeirra ákvarðanir hafa í gegnum alla keðj-
una. Ef hönnuður ákveður á síðustu stundu að bæta við flík í
fyrirfram ákveðna línu eða skipta um efni í flík setur hann eða
hún meiri pressu á framleiðandann sem þarf þá að beita pressu á
sitt verkafólk til þess að ná að afhenda vöruna á fyrirfram
ákveðnum tíma. Þetta er oft þrautin þyngri fyrir hönnuðina því
flest stór fatamerki vinna með fjórar heilar fatalínur á hverju ári
sem gerir það mjög erfitt að gefa sér góðan tíma í hönn-
unarferlið. Hönnuður getur samt sem áður ákveðið að vinna ekki
með efni sem er búið til með skaðlegum hætti eða með framleið-
anda sem uppfyllir ekki staðlaðar vinnuaðstöðureglur. Hönnuðir
þurfa að huga að öllum skrefum vörunnar, líka því sem gerist eft-
ir að hún er seld úr búð. Hversu oft þarf að þvo hana? Hvað nýt-
ist hún lengi? Er auðvelt að endurvinna hana? Hvað er hún lengi
að brotna niður í náttúrunni? Við þurfum að huga meira að allri
hringrásinni.
Það sem stóð þó mest upp úr í niðurstöðunum er að það þurfa
allir, neytendur, fjölmiðlar, hönnuðir, stjórnmálamenn og fjár-
festar, að gera sér virkilega grein fyrir því hvert við erum í alvör-
unni komin. Margir héldu að með hruni Rana Plaza-verksmiðj-
unnar í Bangladess fyrir þremur árum, þar sem 1.134
starfsmenn létu lífið og þúsundir slösuðust , myndi almenningur
átta sig á stöðu mála en húsið sem verksmiðjan var í hrundi
vegna þess að ekki var farið eftir byggingarreglugerðum. Þegar
sprungur tóku að myndast í veggjunum var önnur starfsemi flutt
tafarlaust úr húsnæðinu á meðan starfsmönnum fataverksmiðj-
unnar var hótað með engum launum í mánuð ef þeir myndu ekki
mæta til vinnu daginn eftir en þann dag hrundi byggingin. Það er
sorglegt að segja frá því að lítið hefur breyst. Fyrir áhugasama
og óáhugasama vil ég benda á heimildarmyndina The True Cost
of Fashion sem útskýrir hvernig staðan er í dag. Hún sýnir svart
á hvítu hvernig við erum smátt og smátt að eyðileggja náttúru og
fólk. Myndin er á Netflix.
Einhver greiðir fyrir lága verðið
Þegar maður hugsar um þetta allt saman er auðvelt að fallast
hendur og að sjálfsögðu er langeinfaldast að hugsa ekkert út í
hvaðan hræódýra bómullarskyrtan kemur. Out of sight, out of
mind. Staðreyndin er sú að okkur finnst gaman að kaupa ný föt,
okkur finnst gaman að skapa okkar eigin stíl og skera okkur úr.
En það er líka alveg hægt, bara ef við hægjum aðeins á okkur og
veljum að eyða peningunum okkar skynsamlega. Það gefur
augaleið að það gengur ekki upp að gallabuxur kosti 3.000 krón-
ur. Eitthvað eða einhver hefur fengið að borga fyrir þetta lága
verð. Og hversu lengi geta 3.000 króna gallabuxur enst áður en
við hendum þeim? Og hvað þegar við hendum þeim? Fólk heldur
að það sé að gera góðverk með því að gefa gömul föt í neyð-
arhjálp en staðreyndin er sú að með því erum við oft bara að
flytja vandamálið á stað sem getur ekki tekist á við það. Í mörg-
um þróunarlöndum eru heilu landfyllingarnar af notuðum fötum
frá Vesturlöndum, sem nýtast engum og koma jafnvel í veg fyrir
að innlendir fataframleiðendur og handverksfólk geti selt sínar
eigin vörur og útrýma þannig innlendum textíl- og fatasaums-
hefðum.
Sjálfbærni er að byrja að komast í tísku, fólk kaupir lífrænt
ræktaðan mat og egg beint frá býli og er almennt meira með-
vitað um framleiðsluaðferðir en áður og það er allt gott og bless-
að. En við verðum að passa að þessi vitundarvakning um sjálf-
bærni sé ekki bara tískubylgja. Ef fatamerki selur lífrænan
bómullarbol þá er ekki þar með sagt að manneskjan sem saum-
aði hann hafi fengið viðunandi laun. Við verðum að vera vakandi
fyrir svokölluðum grænþvotti (e. greenwashing) sem sum fyr-
irtæki nota til þess að reyna að hoppa á sjálfbærnitískubylgjuna.
Við þurfum að nýta gagnrýna hugsun og sjá í gegnum loforðin og
auglýsingarnar og ekki láta ginnast af verðmiðanum sem sýnir
sama verð og kaffibolli kostar. Þrennt til að hafa í huga: Kaupa
minna og vandaðra, hugsa vel um það sem við kaupum svo það
nýtist sem lengst og endurvinna eins og við getum.
Talsmenn vinnuhópanna kynntu kröfur sínar til tískuheimsins og hugmyndir að úrbótum að loknu vel heppnuðu námskeiði.
Ljósmyndir/Gianluca Mazzarolo
Tíska er falleg en tískuiðnaðurinn er mengandi og því brýnt að huga að leiðum til að draga úr neikvæðum áhrifum hans á umhverfið.
AFP
Pallíettur á
moldargólfi
Framtíð tísku og fataframleiðslu var
viðfangsefni Youth Fashion Summit,
þriggja daga námskeiðs á vegum
Copenhagen Fashion Summit sem haldið
var í byrjun maí. Ragna Bjarnadóttir,
nemi í fatahönnun við Danmarks
Designskole, skrifar hér um þær
áskoranir sem heimur tískunnar
stendur frammi fyrir.
ragnabjarna@gmail.com
Ragna Bjarnadóttir