Morgunblaðið - 31.08.2016, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 31. ÁGÚST 2016
F
yrirtæki hans var stofnað ár-
ið 2004 og hefur vaxið og
eflst allar götur síðan. Er
það að meirihluta í eigu
Egersund Group í Noregi.
Egersund Island er leiðandi fyr-
irtæki á sviði sölu, veiðarfæragerðar
og viðgerða á flottrollum og nótum
ásamt því að bjóða upp á allar vörur
og þjónustu sem við koma uppsjáv-
arveiðum. Starfsmenn þess hafa ára-
tuga langa reynslu af framleiðslu
veiðarfæra og búnaði til veiða. Öll
flottroll eru framleidd samkvæmt
óskum hvers viðskiptavinar til að
tryggja hámarksárangur veiða.
Á heimasíðu fyrirtækisins segir að
það hafi með netaverkstæðinu á
Eskifirði á að skipa einni fullkomn-
ustu aðstöðu til viðgerða á síldar- og
loðnunótum og veiðarfæragerðar í
Evrópu. Eins og nærri má geta er
aðstaða þar til viðgerða sem þessara
mjög góð en öll veiðarfæri er hægt
að taka frá skipshlið og beint inn á
nótaverkstæði sem flýtir mikið fyrir
verkefnunum.
Byggðu upp þegar allt hrundi
_Við erum að framleiða snurpu-
nætur fyrir loðnu og síld og hvaðeina
og svo framleiðum við troll fyrir allar
uppsjávartegundir, síld og makríl og
eins poka fyrir kolmunna, síld og
makríl. Það má eiginlega segja að við
séum 100% í uppsjávarveiðarfær-
um,“ segir Stefán. Segja má að
Egersund sé vel staðsett miðað við
veiðar á síld, loðnu, kolmunna og
makríl. Fyrirtækið sinnir einnig öðr-
um verkefnum.
Þegar allt hrundi árið 2008 réðst
fyrirtækið í að byggja 2.000 fer-
metra netaverkstæði á Eskifirði.
„Með tilkomu þess gátum við geymt
öll veiðarfæri inni. Breytingin með
nýja húsið, ja, það var eins og maður
væri að byrja í nýrri vinnu. Áður
fyrr geymdum við öll veiðarfærin
úti, og gat þá allt verið á kafi í snjó
og allt frosið. Við vorum að vinna
jafnvel á götunum og niðri á bryggju
við þessar aðstæður. Í dag leggjast
veiðiskipin upp að bryggjunni við
endann á verkstæðinu og allt er tek-
ið beint inn í hús. Nú fer 99% vinn-
unnar fram innandyra í upphituðu
rými og menn eru þar bara á stutt-
ermabol,“ segir Stefán.
Hótelstjóri sömuleiðis
Segja má að hann sé hótelstjóri
því Egersund tekur að sér að hýsa
veiðarfæri sem eru í árstíðabundinni
notkun og ekki í notkun árið um
kring. Þörf var fyrir „netahótel“ og
almennt höfðu fyrirtæki ekki haft
gott húsnæði til að geyma þau miklu
verðmæti sem í veiðarfærum felast.
Að sögn Stefáns er „gistirými“ í hót-
eli þessu á þrotum. „Það stendur til á
næsta ári að lengja bryggjuna um
einhverja 30 metra og erum við að
velta því fyrir okkur að byggja við
húsið. Veiðarfærageymslan er orðin
full, við getum eiginlega ekki bætt
neinum við. Fengjum við nýja við-
skiptavini værum við komin í hálf-
gerð vandræði.“
Egersund rekur skrifstofu í
Reykjavík með einum starfsmanni,
sölustjóra fyrirtækisins, Benedikt
Erni Stefánssyni. „Hann stjórnar
öllum innkaupum í fyrirtækinu og
eins höfum við verið að selja þar allt
sem þarf til laxeldis, nema sjálfan
laxinn. Á þá vöru er fengin löng og
góð reynsla úr laxeldi í Noregi. Við
rennum hýru auga til þess laxeldis
sem er verið að starta. Til dæmis
stendur til að hefja eldi hér í Reyð-
arfirði næsta sumar, þá er heilmikið
um að vera á Vestfjörðum og hér
eystra er laxeldi í Berufirði.“
Spennandi tímar á Eskifirði
Stefán segir að margt spennandi
sé að eiga sér stað í sjávarútvegs-
geiranum á Eskifirði sem annars
staðar og nóg um að vera. „Eskja er
að byggja hér upp flottasta uppsjáv-
arfrystihús á Íslandi og þótt víðar
væri leitað,“ nefnir hann sem dæmi.
„Hjá okkur er alltaf nóg að gera
og fyrirtækið gengur fínt. Til gam-
ans má geta að ég er hér með fjóra
stráka sem eru að læra netagerð.
Það virðist vera vakning í þeirri
grein og er það vel. Við höfum þjón-
að öllum stærstu útgerðum landsins.
Og eins höfum verið að þjónusta
hérna bæði norsk skip og færeysk og
seldum troll til Færeyja í síðustu
viku. Það er yfirleitt mikið að gera í
netaviðgerðum fyrir norska flotann
þegar hann er hér á loðnuveiðum á
veturna. Hjá okkur fá allir þjónustu,
saman hvaðan þeir koma, þá reddum
við því bara,“ segir Stefán B. Ingv-
arsson.
agas@mbl.is
„Þá reddum við því bara“
„Það er bara mjög fínt
að gera, hér erum við
með 16 starfsmenn og
það er nóg að gera. Við
þurfum ekki að kvarta
neitt,“ segir Stefán B.
Ingvarsson, fram-
kvæmdastjóri netagerð-
arinnar Egersund Ísland
á Eskifirði í samtali við
Morgunblaðið.
Hótelgisting Gistirými í netahóteli Egersund er fullnýtt og þörf fyrir stærra hús-
næði undir það. Stefnt er á frekari stækkun fyrir bragðið, segir stjórinn.
Hátæknibúnaður Aðstaða til netasmíði er framúrskarandi góð á netaverkstæði Egersund á Eski-
firði. Ekki veitir heldur af því eftirspurnin eykst sífellt og umsvifin í framhaldinu.
Eskifjarðarnætur Síldar- og loðnunætur eru svo sannarlega engin smásmíði en
framleiðsla þeirra fer fram í upphituðu húsnæði Egersund á Eskifirði.
Ungur nemur, gamall temur Þeir verða um síðir fullnuma netagerðarmenn, nemarnir fjórir sem læra netagerð hjá Egersund á Eskifirði. Þeir heita Jóhann Óli Ólafsson,
Andri Bergmann Þórhallsson, Þorvaldur Einarsson og Ármann Sturlaugsson. Alls eru starfsmennirnir 16 talsins hjá Egersund Ísland og næg eru verkefnin.
Þróunin Stefán segir þá hjá Egersund horfa til
enn frekari stækkunar húsakynna netaverkstæð-
isins á Eskifirði á næsta ári.