Morgunblaðið - 31.08.2016, Qupperneq 36
36 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 31. ÁGÚST 2016
J
á, þú gerir það eiginlega, Liv-
erpool er nefnilega í sjón-
varpinu. Viltu hringja aðeins
seinna, svona um tvöleytið.“
Þannig hófst samtal okkar
Sævars Jónssonar, trillukarls í Nes-
kaupstað, en svona svaraði hann eft-
ir að hafa verið spurður hvort ég
hringdi á óheppilegu augnabliki.
Þegar við tókum upp þráðinn aft-
ur var Sævar ekkert ósáttur við leik-
inn þótt lyktað hafi honum með jafn-
tefli. Í glímunni við þann gula á trillu
sinni er hann hins vegar öllu vanari
sigri og góðum afla.
„Síðustu árin hef ég einungis
stundað strandveiðar á sumrin, á C-
svæðinu, eins og aðrir austfirskir
trillukarlar. Nú er maður farinn að
slá af og hef því látið strandveið-
arnar duga. Þær gengu bara þokka-
lega á okkar svæði, bæði hjá sjálfum
mér og öðrum. Ég ætlaði nú bara að
taka þetta rólega í sumar en ég var
með um 20 tonn, sem er gott á svona
hæggengum báti,“ segir Sævar.
„Hann lagði bann á Rússana!“
Bátur hans heitir Mónes NK-26 og
segir Sævar hann ganga bara 6-7
sjómílur á klukkutímann, „meðan
hraðfiskibátarnir þeytast á miðin á
20-30 mílum. Þeir eru fljótari í för-
um. Það hefur verið nokkuð langt að
sækja fiskinn, en núna í sumar hefur
hann þó fært sig aðeins nær landi.
Við vorum mikið að sækja út á 10 til
15 mílur en hann var nokkru nær í
sumar. Áður fyrr sóttu trillur aldrei
svona langt út. Þetta hefur breyst
eftir að makríllinn fór að ganga
hérna, eftir það hefur fiskurinn stað-
ið dýpra.“
- Er hann þá ekki vænni en áður?
„Já, miklu, miklu vænni en við átt-
um að venjast hér áður fyrr. Það er
bara svoleiðis.“
- Landaðir þú og þínir félagar á
markaði?
„Já, allt. Það fer allt á markað og
yfirleitt er mjög vel gengið um fisk-
inn. Þetta er allt saman sett í krapa
niður í kör, mjög vel gengið um
hann.“
- Hafið þið fengið ásættanlegt verð
fyrir aflann?
„Já já, en það er slöttungs lægra
en í fyrra, þökk sé Gunnari Braga ut-
anríkisráðherra fyrrverandi.“
- Hvað gerði hann af sér?
„Hann lagði bann á Rússana, þetta
hefur allt áhrif. Og svo er krónan að
styrkjast líka, það er nú bara þannig.
Yfir 20 vertíðar á loðnunni
- Rærð þú einn á báti?
„Já, núna í seinni tíð hef ég verið
einn á mínum báti. Ég er búinn að
vera rúm 50 ár í slorkössunum, það
er nú ekkert annað. Svo er ég búinn
að eiga minn eigin bát í 45 ár eða
eitthvað svoleiðis,“ segir Sævar sem
er 68 ára. „Fyrstu árin var maður á
stóru bátunum á veturna, þá tók
maður trilluna á land yfir þann tíma
en reri á henni á sumrin. Ætli ég hafi
verið eitthvað yfir 20 vertíðar á
loðnunni, á skipum Síldarvinnsl-
unnar og annarra héðan heima í
Neskaupstað.
Almenn ánægja ríkir
með strandveiðarnar
- Þú hefur verið farsæll til sjós?
„Já, maður hefur krafsast gegnum
þetta allt saman án þess að hljóta
mikinn skaða af, það er bara svoleið-
is sko. Sjómennskan breyttist rosa-
lega á þessum trillum eftir að menn
fengu vissar aflaheimildir á bátana.
Þá hættu menn að sækja í eins stíf-
um veðrum, já það gjörbreyttist
bara og meðferð á fiski batnaði líka.
Þetta var í kringum 1980.“
Sævar sagði að strandveiðarnar
hafi verið sérstakt fagnaðarefni og
sér virtist, að upp til hópa ríkti
ánægja með þær. „Menn virðast
bara mjög ánægðir með þær hvar-
vetna, allan hringinn kringum land-
ið.
- Þær hafa gefið mönnum færi á að
sækja svolítið sjóinn?
„Já, og afleiðingin er að það er
eitthvað fleira en bara stóru skipin
sem sigla inn og út úr fjörðunum.
Það hefur haft góð áhrif og aukið lífið
í höfnunum. Það er sko engin spurn-
ing. Við erum náttúrulega vel settir
hér á Norðfirði með svo stórt og öfl-
ugt fyrirtæki sem Síldarvinnslan er
með stór og mikil skip, en smábát-
arnir eru partur af lífinu á hafn-
arsvæðinu,“ sagði Sævar Jónsson að
lokum.
agas@mbl.is
Rúm 50 ár í slorkössunum
Trillukarlinn Sævar
Jónsson frá Neskaup-
stað á að baki hálfa öld
til sjós og veit því hvað
hann syngur þegar sjó-
sóknin er annars vegar.
Hann fagnar strandveið-
unum en er síður hrifinn
af því að vera ónáðaður
þegar Rauði herinn frá
Liverpool er að spila –
sem er vitaskuld skilj-
anlegt!
Aflakló Sævar Jónsson fagnar góðum árangri um borð í trillu sinni. Hann segir almenna ánægju ríkja með strandveiðarnar, hringinn kringum landið.