Skagfirðingabók - 01.01.2004, Page 36
SKAGFIRÐINGABÓK
niður í sjálfhelduna þá náði ég báðum lömbunum samtímis og
átti í svolitlum erfiðleikum að geta fest band á öðru lambinu
handa þeim að draga upp, en einhvernveginn bjargaðist þetta
allt og við náðum lömbunum upp. Svo þegar að kom upp á
fjallið þá bundum við þau saman og höfðum band á þeim.
Þetta var nú stundum svolítið þekkt að hafa þetta svona, að
binda kindur saman, reka þær í sambandi. Og mér er minnis-
stætt þegar Hrólfur, sem var ekki skeleggur klettamaður.
...En þegar var búið að binda lömbin saman tekur hann við
þeim, og svo fer allt á fulla ferð út Afréttarfjall. Mér er minnis-
stæður léttleiki í Hrólfi þarna, sem þó var farinn að reskjast
þónokkuð mikið, þessi fleygiferð þarna á honum eftir lömb-
unum, því þarna var hann í essinu sínu þó hann nyti sín ekki
til fulls við að ná þeim úr sjálfheldunni. Svo man ég eftir því
að Jóhannes á Merkigili átti eitthvert hross fram á Ábæ, ein-
hvern fola, og við tókum hann með. Tókum hann í réttinni við
Geldingslækinn og gekk býsna vel. Þetta var ótaminn foli og
ég man að Jóhannes sagði að það væri alltaf mikill munur hvað
hross væru alltaf þægari á haustin heldur en á vorin.“
Um tvítugsaldur var Hjörleifur orðinn algjör göngugarpur.
Frásagan hér að framan er góð heimild um hvað menn lögðu á
sig í erfiði og áhættu sem því fylgdi að leita að skepnum víðs-
fjarri byggðum bólum til þess að bjarga þeim frá erfiðum kjör-
um og örlögum sem öræfin bjuggu þeim.
Önnur vetrarferð var Hjörleifi einnig býsna minnisstæð, var
þó engin þolraun. Jóhann bóndi Eiríksson á Tyrfingsstöðum
fékk Hjörleif með sér að vetri til í leit á Tungudal og Egilsdal.
Ekki fundu þeir fé og ekki lentu þeir félagar í neinu harðræði í
ferðinni. En það sem var minnisstætt við ferðina var að er þeir
koma í svokallaða Hóla, heimanvert við miðjan Dalinn, tók
Jóhann að syngja við raust: „Þar sem háir hólar hálfan dalinn
fylla.“ Þetta taldi Hjörleifur algjör fádæmi. Sjálfur var hann
það göngumóður að brennt var fyrir að hann gæti sungið, en
34