Skagfirðingabók - 01.01.2004, Page 59
HJÖRLEIFUR Á GILSBAKKA
og halda aðra veislu sem hann hugðist kalla framhaldsafmæli
og var ætlað þeim sem ekki komust til hans í sjálft afmælið.
Gekk svo fram að hann náði sér í vínföng og var undirbúningi
lokið að kalla fyrir framhaldsafmælið. En þá kemur í heimsókn
til hans vinur hans langt að kominn, sem var „túramaður“.
Með það upphófst mikil veisla sem entist í þrjá daga. Þeir fóru
þá vítt um sveitir og veittu mönnum af rausn hvar sem þeir
komu. En veislan fjaraði út jafn snemma og vínið þraut.
Nokkru seinna spurði undirritaður Hjörleif hvort hann væri
nokkuð frekar farinn að hugsa um framhaldsafmælið. Svarið
kom snöggt. „Nei, blessaður vertu. Það sem mér þykir verst er
að nú hef ég svo mikið ógeð á víni að ég veit ekki hvenær í ósköp-
unum ég get látið það inn fyrir mínar varir aftur.“ Því varð
ekki meira úr framhaldsafmælinu. Það skal tekið fram að hvor-
ugur þeirra félaga hreyfðu bíla sína meðan veislan stóð en
fengu mann til að aka sér, og heim fóru þeir jafnan að kveldi og
Hjörleifur gaf skepnum sínum sem áður meðan á þessu stóð.
Önnur saga flýtur hér með um víndrykkju. Hjörleifur átti
marga símavini. Einn þeirra var togaraskipstjóri á Akureyri.
Það var vani hans að hringja í Hjörleif þegar hann datt í það
og talaði þá lengi í senn. Hjörleifur fann því oft fyrir því að
það getur orðið erfitt að tala við drukkinn mann og sjálfur
ódrukkinn. Nú bar það til kvöld eitt að Hjörleifur hringir í
mig og heyri ég strax að hann er ögn við skál. „Nú fór ég illa
út úr því“, var það fyrsta sem hann segir, eftir að hafa heilsað.
Síðan kom sagan: Nokkrir ungir menn komu til hans þetta
kvöld, í kurteisisheimsókn. Fyrir þeim fór Magnús Bragi
Magnússon, þá ungur, mikið höfðingjaefni er nú situr Ipishól.
Hjörleifur hafði rétt skenkt þeim kaffi, sem þeir drengir
bragðbættu með víni, þegar síminn hringir. Þar er á línunni
aflaskipstjórinn frá Akureyri. Upphófst nú langt símtal sem
Hjörleifur sleit um síðir og sagði hreint sem var að hann þyrfti
að sinna gestum, en skipstjórinn gæti hringt eftir hæfilega
gestatöf og þá gætu þeir rætt málin betur. Hjörleifur þiggur
57