Skagfirðingabók - 01.01.2004, Page 98
SKAGFIRÐINGABÓK
ég út á tröppur að ræða við hann, átti ég heima á efstu hæð
í húsi á Brunnstíg 10 í Vesturbænum. Samdist þá með okkur
að ég skyldi vera kaupakona hjá honum, fá að slá þegar rigndi
og hafa 28 krónur í kaup á viku og aðra ferðina fría. Mundi
ég mæta við skipshlið á tilsettum tíma daginn eftir.
Eg tók nú til það dót sem mér lá á að hafa með mér; hitt ætl-
aði ég að fá með skipi norður, því að ekki var hægt að hafa
mikið fyrir aftan hnakk á leiðinni. Fór ég síðan inn á Laugaveg
að kveðja kunningjana. Ætlaði Guðný að koma með mér
morguninn eftir og bera dótið með mér niður að höfn. Morg-
uninn þann beið ég eins lengi og ég þorði, en ekki kom Guð-
ný. Kom það upp úr kafinu að hún hafði hringt á neðri hæð-
ina, en konan þar sagði henni að ég væri farin. Bauðst nú hús-
móðir mín til þess að bera með mér dótið niður að höfn. Mátti
það ekki seinna vera, því það átti að fara að taka landganginn
þegar á áfangastaðinn kom. Þar hitti ég fljótlega Guðnýju og
Jón. Kvaddi ég svo kóng og prest, eins og þar stendur, og snar-
aðist um borð.
Þegar skipið er komið dálítið út á flóann, kemur til mín
kona þar sem ég sit á bekk á þilfarinu og spyr hvort ekki megi
bjóða mér upp á kaffi niðri í skipinu og þakkaði ég fyrir.
Klifruðum við síðan niður stiga og fórum inn í kompu hægra
megin við stigann; var hún sennilega við hliðina á eldhúsinu,
því kafifið var rétt gegnum gat á skilrúminu. Drukkum við
kaffið með góðri lyst og borðuðum tvíbökur með. Þakkaði ég
svo fyrir kaffið en gleymdi að spyrja konuna að nafni; hún ætl-
aði að Þingnesi í Borgarfirði. Alls staðar var fullt af fólki,
meira að segja niðri í lest, var það farið að gubba og gaus upp
fremur vond lykt. Var heldur munur að vera á dekki í blessuðu
sjávarloftinu.
Við fórum í land í Borgarnesi. Rétt á eftir kom mótorbátur
frá Hvanneyri að taka mannskapinn og varð báturinn fljótt
hlaðinn. Stóðu sumir en aðrir sátu. Ég man að ég sat hægra
megin á borðstokk bátsins. Það var farið að rigna.
96