Skagfirðingabók - 01.01.2004, Page 101
FORLÖGIN KALLA
nema á miðjar síður. En tveir urðu að ríða með Rósu, hana hef-
ur sennilega svimað.
Við Þóra höfðum verið að spjalla saman annað slagið á leið-
inni. Meðal annars spurði hún mig hvort ég kannaðist við tvær
ungar stúlkur, er voru að spranga um götur borgarinnar sér-
kennilega búnar. Voru þær báðar á upphlut, í stuttu pilsi,
rauðum bol, með rauða báta (húfur) á höfði og ekkert utan yfir
upphlutnum. Önnur með brúnar fléttur ofan á rass en hin með
ljóst hár snúið í lokka niður á herðar. Gat ég frætt hana á því
að sú ljóshærða væri kölluð Dúfa og væri fósturdóttir Ásgríms
Magnússonar sem stofnaði unglingaskólann í Bergstaðastræti,
en sú með dökku flétturnar héti Svanhildur og væri dóttir Þor-
steins Erlingssonar skálds. Var hún á þeim árum talin fnðasta
stúlka bæjarins. Dúfa var líka mjög lagleg stúlka. Höfðu þær
klætt sig þannig til þess að frekar yrði tekið eftir þeim.
Þegar við komum að túninu í Hvammi var stansað og kom
fólkinu saman um að biðjast gistingar þar. Bauðst frú Þóra til
að útvega mér gistingu þar, því að hún var þar kunnug, en ég
afþakkaði það og kvaðst mundu bíða eftir samferðamönnum
mínum. Fór ég af baki og settist þar. Þurfti ég ekki lengi að
bíða. Þegar piltar fréttu að Eyfirðingar ætluðu að gista í
Hvammi, ákváðu þeir að fara í Fornahvamm. Lögðum við nú
af stað sem leið liggur upp Norðurárdalinn og fórum greitt því
áliðið var og óvíst um næturstað.
Þegar við komum í Fornahvamm og hittum húsráðanda,
sagði hann að þar væru komnir 30 næturgestir; væri húsið orð-
ið fullt. Var þar að sjá nýlegt timburhús, en svo var þar gamall
bær. Sagði bóndi að við gætum fengið gistingu í baðstofunni,
ef við gætum gert okkur það að góðu; var það vel þegið. Fóru
piltar með hrossin á haga, en ég gekk í bæinn. Þar var stofa
furðu rúmgóð, nokkuð löng og í henni stórt borð. Við fengum
lax og fleira að borða. Gekk svo bóndi með okkur til baðstofu;
virtist mér hún löng og mjó með rúm til beggja hliða. Ekki
man ég hvað þau voru mörg, hef sennilega ekki talið þau.
99