Skagfirðingabók - 01.01.2004, Qupperneq 130
SKAGFIRÐINGABÓK
byggðar megin, og verður það efni lítt reifað hér. Þar sem lönd
vissu að óbyggðum (öræfum) var ekki venja að skilgreina landa-
merki náið. Svo er að sjá sem land Hofs að sunnan hafi tak-
markazt af jökli þeim, sem við höfuðbólið er kenndur,
Hofsjökli. Nú vita menn ekki til víss við hvað er átt með
orðunum „Goðdali alla“. Vera má, að auk Vesturdals, sem nú
kallast svo, sé átt við Austurdal og Svartárdal. Þó nam Eiríkur
Austurdal aðeins vestanverðan og lét síðar laust.4 Verður land-
nám Austurdals síðar reifað nokkuð. Um Svartárdal segir:
„Hrosskell hét maðr, er nam Svartárdal allan ok Yrarfellslönd
öll með ráði Eiríks; hann nam ofan til Gilhaga ok bjó at Yrar-
felli.“5 Óvíst er, hvort Svartárdalur telst til Goðdala. Að vísu
segir í jarðaskiptabréfi frá 1486 „Svartardaal j dovlvm"6, en það
gæti allt eins verið stytting úr samheitinu Skagafjarðardalir,
sem þá var að ryðja sér til rúms og notað um framdali
héraðsins.
Eiríkur Hróaldsson var talinn meðal ágætustu landnáms-
manna, friðarhöfðingi og vitmaður hinn mesti. Hvað kom til,
að héraðshöfðingi af hans tagi kaus sér bólfestu í afdölum
Skagafjarðar? Svarið felst sennilega að nokkru leyti í umsögn
höfundar Landnámabókar: „Sumir þeir, er fyrstir kómu út,
byggðu næstir fjöllum ok merkðu at því landkostina, at
kvikféit fystisk frá sjónum til fjallanna."7 Ætla má, að Eiríkur
hafi verið búhöldur og alizt upp við eða stundað kvikfjárrækt x
Noregi og hugur hans staðið til umsýslu á því sviði í hinu nýja
landi.
Landnám Eiríks var svo stórt, að hann átti margra kosta völ,
er velja skyldi bæjarstæði. Hann valdi sér það þar, sem víðsýni
er mest og nefndi Hof. Þar er við hæfi hin forna merking
orðsins, hæð, hæðarhryggur8, og jafnframt mun nafnið höfða til
þess, að Eiríkur hafi reist hof að bæ sínum, verið goðorðs-
maður, enda talinn „vitrastr maðr í heraði þessu"9 eins og fýrr
segir. Hann hefur haft um sig sveit þingmanna, þar sem hann
var talinn einn ágætastur landnámsmanna x fjórðungnum.10
128