Skagfirðingabók - 01.01.2004, Side 212
SKAGFIRÐINGABÓK
varð iðnsveinn hans. Herlev var á sama aldri og meistarinn og
var heyrnarlaus eins og hann. Með þeim vinnufélögum tókst
strax mikil vinátta. Eftir að Herlev hafði lokið námi sínu varð
hann samstarfsmaður Markúsar til æviloka.
Árið 1918 kom upp skæð veiki sem hefur verið kölluð
„spænska veikin“. Þetta var inflúensa, og varð mörgum að
aldurtila svo sem kunnugt er hérlendis, þar sem hún herjaði
sama ár. Skraddararnir í Nprregade 24, Markús og Herlev,
veiktust báðir. Voru þeir þá komnir nálægt sjötugu, og vegna
aldurs síns hafa þeir hugsanlega átt erfiðara en margir þeir
sem voru í blóma lífsins að takast á við sjúkdóminn. Þeir
létust báðir 19- nóvember 1918, Markús klukkan 10.30
árdegis og Herlev um klukkustund síðar. Utför þeirra var
sameiginleg og fór fram þann 21. sama mánaðar. I Ringsted
Folketidende, var þeirra minnst þannig: „Tvöföld útför. Hinir
tveir heyrnarlausu menn, skraddarameistarinn Thorleifsson og
sveinn hans, Herlev, voru bornir til grafar frá kapellunni í
Ringsted kirkjugarði. ... Presturinn nefndi hvað samrýndir
hinir tveir heyrnarlausu menn hefðu verið og væri andlát
þeirra beggja táknrænt fyrir vináttu þeirra. ... Eftir sálminn
„Du Herre Krist“ voru kisturnar bornar út í kirkjugarðinn og
jarðsettar hlið við hlið.“19
Marie Thorleifsson, ekkja Markúsar, lést sjö árum eftir dauða
hans, 7. desember 1925.
Markús vitjaði aldrei æskustöðva sinna í Skagafirði eftir að
hann, 12 ára niðursetningur, var settur á skip og sigldi til
Danmerkur. Þar beið hans hamingjuríkt líf, þar sem hann
eignaðist konu og börn, varð iðnmeistari og rak sitt eigið fyrir-
tæki. Sjálfsagt hefðu örlög hans orðið önnur og að líkindum
dapurlegri, ef leið hans hefði ekki legið úr átthögunum til
skólamenntunar í nýju og félagslega þróaðra fósturlandi.
19 Ringsted Folketidende. [Þýðing: M.H.] 22. nóvember 1918. Ringsted.
210