Fréttatíminn

Tölublað

Fréttatíminn - 17.06.2016, Blaðsíða 18

Fréttatíminn - 17.06.2016, Blaðsíða 18
18 | FRÉTTATÍMINN | Föstudagur 17. júní 2016 Nokkur augnablik lýðveldisins Íslands Lýðveldið er að komast á virðulegan aldur. Það er 72 ára í dag. Framundan er verkefni sem lýðurinn þarf að taka að sér í fimmta sinn, nefnilega að kjósa nýjan forseta. Fréttatíminn leitaði svara hjá nokkrum vel völdum ein- staklingum og bað þá að velja eftir eigin hentisemi áhrifamesta, mikilvægasta, skemmtilegasta eða kostulegasta atburð lýðveldis. Reglurnar eru einfaldar: Veldu einn atburð og útskýrðu valið. Guðni Tómasson gudni@frettatiminn.is Nýir Íslendingar Mikilvægasti atburður lýðveldistímans átti sér stað þann 20. september árið 1979. Þá komu hing- að 34 víetnamskir flóttamenn. Fram að því höfðu Íslendingar litla ábyrgð viljað bera á atburðum í fjarlægum löndum og íslenskt þjóðerni var fyrst og fremst kristið, norrænt og hvítt. Þennan dag urðum við örlítið fullorðnari sem þjóð. Stefán Pálsson sagnfræðingur Lyklaskiptin 1. febrúar 2009 Lyklaskiptin í forsætisráðu- neytinu 1. febrúar 2009 eru margþætt tímamót. Verkefnið sem við blasti var sérstætt, en líka sá einstaklingur sem hafði verið valinn til forystu. Jó- hanna Sigurðardóttir tók við af Geir Haarde sem var dæmi- gerður fulltrúi þess hóps sem hafði farið með lyklavöld í stjórnarráðinu allt frá upphafi heimastjórnar réttum 105 árum fyrr. Jóhanna var fyrsta konan til að gegna hlutverki forsætis- ráðherra á Íslandi, hún var for- maður vinstri flokks, en ekki Sjálfstæðis- eða Framsóknar- flokks og með annars konar bak- grunn en margir fyrri forsætis- ráðherrar (hún var t.d. ekki með stúdentspróf frá Menntaskólan- um í Reykjavík). Að auki virð- ist það endurspegla rækilega viðhorfsbreytingu að Íslending- um fannst það ekki í frásögur færandi að þeir höfðu fengið samkynhneigðan forsætisráð- herra. Þegar hún afhenti næsta manni lyklana að stjórnarráð- inu sást skýrt og greinilega hversu sérstæður þessi atburður er í lýðveldis- sögunni. Ragnheiður Kristjánsdóttir sagnfræðingur Hrunið Efnahagshrunið í október árið 2008 er því mið- ur sá atburður sem fyrstur kemur upp í hugann og stutt um liðið. Þó að við séum á góðri leið með að ná okkur aftur fjárhagslega og banka- menn séu að afplána fangelsisdóma þá eru enn ekki öll kurl komin til grafar varðandi þessi mál, að ég tel, þegar heilt samfélag gat riðað til falls. Í hvert sinn sem ég hugsa til dagsins sem lýð- veldið var stofnað, 17. júní árið 1944 á Þingvöll- um, þá fyllist ég alltaf miklu stolti yfir sjálfstæð- isbaráttu þeirra manna sem þar fóru fremstir í flokki, okkar duglegu þjóð sem svo miklu hefur áorkað og hvað Ísland er fallegt og gjöfult land. Gleðilega þjóðhátíð, kæru landsmenn! Elín Hirst alþingismaður Stökk kengúrunnar Mér finnst eins og líta megi á lýðveldistímann sem einn samhangandi atburð, að við séum stödd í miðri þessari atburðarás og þjóðin sé að þeytast út í loftið í einhvers konar stórahvelli. Stundum finnst mér líka eins og um miðja öldina hafi tappi hrokkið úr óræðum alad- ínslampa og andinn sloppið út og fari svo síðan sínar eigin leiðir og tjúlli mannskapinn ýmist með prakkara- skap og yfirgangi eða fagurgala og bjartsýnisbelgingi. Annars hefur lýðveldistíminn markast af þessu svakalega stökki Lýðveldiskengúrunnar út úr myrkri og kyrrð inn í sílogandi jólaseríu og óstöðvandi sírenu- söng, úr baðstofunni inn í Hörpuna. Æðibunugangur virðist hafa orðið þjóðardyggð á þessum tíma, hvort heldur sýslað er við axarsköft eða uppbyggingu. En skondnasti einstaki gerningur síðustu áratuga er vafalaust frá því 1972 þegar þrír danskir sjóliðar birtust niður á Reykjavíkurhöfn hver með sinn böggul í hönd- um og í einum þeirra mátti sjá sjálfa Mónu Lísu norð- ursins sprikla og reka út úr sér tunguna. Hannes Lárusson myndlistarmaður Sáttmálinn Fullgilding Mannréttindasáttmála Evrópu 1953 því hann átti síðar eftir að gerbreyta lagaum- hverfinu hvað snertir mannréttindi og opna ís- lenskan rétt fyrir alþjóðlegum áhrifum. Ragnhildur Helgadóttir lagaprófessor Geislavirkni og tónlist Ég hugsa að það sem hafi haft mest áhrif á mig á lýðveldistím- anum sé útgáfa hljómplötunn- ar Geislavirkir með Utan- garðsmönnum. Fyrir mér er það tímapunkt- urinn þar sem Ísland komst í nútímann. Þetta er menningarlegur vendipunkt- ur. Þessi plata breytti öllu og er stórt skref í því að gera Ísland að því tónlistarfyrirbæri sem það er. Næsta menningarlega risaskrefið voru Sykurmolarn- ir og svo auðvitað Björk. Þegar útlendingar hugsa um Ísland er tvennt sem kemur fyrst upp í hugann, náttúra og menning. Utangarðs- menn sýndu óttaleysi í sinni tónlist sem hef- ur verið lykilatriðið í þróun íslenskrar dægurtón- listar. Það sem gerir tónlistina okkar svona spennandi er óttaleysi. Sigurður Björn Blöndal borgarfulltrúi Lýðveldishátíðin í huga foreldranna Fyrst ég má bara nefna einn viðburð á lýðveldistímanum, þá verð ég að nefna atburð sem átti sér stað rúmum 8 árum fyrir fæðingu mína. Það var stofnun lýðveldisins Íslands 17. júní 1944, í grenjandi rigningu á Þingvöllum. Sam- kvæmt foreldrum mínum heitnum hafði ekkert meiri áhrif á þau og þeirra þjóðarsýn. Ég, ófædd þá og enn langt í mig, tek undir þeirra uppeldisorð. Pabbi minn hefði orðið 100 ára í nóvember síðastliðnum og mamma 100 núna á sjálfan kvennadaginn, 19. júní. Ég man ekki eftir öðru sem krakki en að foreldrar mínir töluðu af virðingu og stolti um þjóðhátíðina á Þingvöll- um, þrátt fyrir alla rigninguna. Þau voru svo hreykin að hafa eignast sinn eigin forseta. Pabbi sagði alltaf að við sem þjóð hefðum fyrst sýnt dug þegar við náðum fullveldi 1918. En hann sagði jafnframt að ég mætti ekki gleyma því að það voru tvær heimsstyrjaldir sem hjálpuðu okkur, sú fyrri við að gera okkur að fullveldi, og sú síðari, að gera okk- ur að lýðveldi. Hann skildi mig eftir með spurninguna: Hvað gerðum við sjálf? Agnes Bragadóttir blaðamaður Vigdís á Bessastaði Kjör Vigdísar Finnboga- dóttur sem forseta Íslands, fyrst kvenna í þjóðhöfð- ingjasæti í lýðfrjálsum kosningum, á fögrum sumardegi árið 1980, er einn áhrifamesti atburður Íslandssögunnar á lýðveld- istímanum. Ekki aðeins fyrir jafnréttis- og kven- frelsisbaráttuna, eins og augljóst er, heldur gaf sigur hennar líka yngri kynslóð- um trú á framtíðina og flýtti mjög hugmyndaleg- um breytingum til fram- fara í þjóðfélaginu, eins og menn geta sannfærst um með því að ímynda sér að hún hefði ekki unnið. Sigur hennar, og síðar fram- ganga á forsetastóli, gaf líka þjóðinni sjálfstraust og stolt, sem skipti afar miklu máli á þeim tíma., Páll Valsson ritstjóri Kostuleg herferð Auglýsingaherferð Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosn- ingunum fyrir hrunið þegar frambjóðendur birtust undir slagorðum á borð við: Traust efnahagsstjórn. Herferðin afhjúpaði svo innilega að í augum margra hlyti Sjálfstæðisflokkurinn að vera samasemmerki við trausta efnahagsstjórn – af því bara að ... hann væri þesslegur. Téð auglýsingaherferð er ekki beint atburð- ur, en segir mikið um þetta tiltekna lýðveldi og innri lögmál þess, bæði þá og nú. Ég held þó að einn kostulegasti og um leið sorgleg- asti atburðurinn hafi verið þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson heitinn vildu leika sig stóra á heimstaflinu og kvittuðu upp á innrásina í Írak fyrir hönd þjóðarinnar. Þar með var hún gerð ábyrg í ein- um hræðilegasta og afdrifaríkasta atburði samtíma- sögunnar sem sér ekki ennþá fyrir endann á. Það tímabil var reyndar allt skrýtið; þessi ár þegar Fram- sóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn stýrðu okkur bæði inn í heimsátök og Kárahnjúkavirkjun, óafturkræfa eyðileggingu á landi og lífi – sama með hvaða rökum sérfræðingar og vísindamenn mótmæltu þessu tvennu. Ég veit ekki alveg hvaða eyðileggingaröfl knúðu annað eins áfram en það fennir seint yfir þessar ákvarðanir og afleiðingar þeirra. Auður Jónsdóttir rithöfundur

x

Fréttatíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.