SÍBS blaðið - 01.10.2008, Side 34
Ég vissi ekki hvar ég var og vissi trauðla hvað
hafði komið fyrir. Ég lá, slöngum vafinn og
snúrum, í tjaldi, án þess að vita til þess að ég
hefði farið í tjaldútilegu og alls ekki innan um
fólk sem talaði tungum. Eina samband mitt við
veruleikann var þétt hnýttur, og afskaplega fal-
legur blómvöndur, ekki stór, en fagmannlega
gerður. Litbrigðin glöddu mig. Það var hvítt
í honum og blátt, og rautt. Hann var á borði
nærri mér.
Þetta var vöndur sem forseti Finnlands hafði
látið færa íslenskri forsetafrú, 26. ágúst 1997,
þegar hún, ásamt eiginmanni sínum, sótti þann
finnska heim í Helsinki.
Og smám saman rifjaðist þetta upp. Ég var að
fylgja forseta í opinbera heimsókn til Finn-
lands. Þungur verkur fyrir brjóstinu, ekki ólíkt
því sem mætti ímynda sér að gerðist lenti
maður fyrir mistök í risastórri þvingu sem verið
væri að herða upp á. Svitinn sem spratt af mér
perlaði í gegnum snyrtilegu jakkafötin sem ég
hafði farið í vegna forsetaheimsóknarinnar. Og
orðin sem hann hvíslaði að mér finnski sjúkra-
flutningamaðurinn sem stumraði yfir mér þar
sem ég lá flatur á gólfinu, nær dauða en lífi: -
Det er en hjärtinfarkt på gång og den er mycket
allvarlig.”
Þegar ég rankaði við mér næst sat konan mín
við sjúkrabeðinn. Hún var á þeirri tíð frétta-
maður hjá Ríkisútvarpinu, af gamla skólanum,
og hafði aflað sér nákvæmra upplýsinga um
það sem gerst hafði og flutti mér fréttirnar.
Myndin varð skýrari eftir að hafa hlýtt á frétt-
irnar hennar. Það var ómetanlegt að vita af
henni hjá mér.
Menn verða ótrúlega meyrir við svona aðstæð-
ur. Utanríkisráðherra var með forseta í för og
næsta kvöld stóð hann og hélt um hönd mína
þegar ég lauk upp augunum. Ég gat ekkert sagt,
en ég sá í svip hans samúðina og fann hana,
þar sem hann hélt um hönd mína.
Ég var of veikburða til að láta hjartaslagið fara
í taugarnar á mér á meðan ég var að jafna mig
í Finnlandi. Það var ekki fyrr en ég kom heim
að það fór að renna upp fyrir mér að nú hefði
það strik verið sett í reikning minn gagnvart
Guði sem ég yrði að taka tillit til.
H e l g i M á r A r t h u r s s o n
...eitt lítið spor
í morgundögg
Og tilfinningin sem smám saman kviknar í
manni eftir áfallið, hvernig er hún? Hún er eins
og djúpvitur Matthías:
Nú bíðum við þess að bráðum komi
þessi broslausi dagur – og svo þetta högg.
Þegar líf okkar er að lokum aðeins
eitt lítið spor í morgundögg.
Minnig um dreng, eftir Matthías Johannessen,
úr Tveggja bakka veður
Eftir skoðun á Landspítala tók við endurhæf-
ing á Reykjalundi. Fyrir utan frábæra þjónustu
þar, endurhæfingu hugar og handar, fannst
mér mikilvægast að fá að vera í friði. Að fá
að hugsa sjálfur um þær aðstæður sem ég var
lentur í. Jafn undarlegt og það kann að hljóma,
að fá frið frá daglegum skyldum við fjölskyldu
og vini. Að vera einn með sjálfum sér. Þetta er
af því maður verður svo meyr, viðkvæmur, og
þarf á öllu sínu að halda til að hysja sig upp á
hárinu sjálfur.
Pústið sem ég fékk á Reykjalundi gerði sitt. Að
geta velt fyrir sér lífinu og tilverunni í friði og