Ráðunautafundur - 15.02.1990, Síða 70
-60-
FÓÐURNÝTING HJÁ SVÍNUM
Með fóðurnýtingu hjá svínum er átt við hvað þurfi margar fóðureiningar til að grís
þyngist um 1 kg. Ekki þarf að fjölyrða um hve mikilvægt það er fyrir svínabændur
að fóðurnýting grísanna sé sem mest, þar sem fóðurkostnaðurinn er oftast 60-70% af
heildarframleiðslukostnaðinum.
Hér á eftir verður gert grein fyrir niðurstöðum rannsókna á fóðurnýtingu og þeim
árangri sem náðst hefur í að auka fóðurnýtingu grísa á Norðurlöndum, en hér á landi
hafa ekki enn verið gerðar rannsóknir á fóðurnýtingu íslenskra grísa. Ennfremur
verður reynt að áætla fóðurnýtingu íslenskra grísa af upplýsingum um það fóðurmagn
sem fer til svínaræktarinnar á einu ári ásamt viðkomandi ársframleiðslu
búgreinarinnar.
Á afkvæmarannsóknastöðvum á Norðurlöndum fara fram umfangsmiklar rannsóknir
á afkvæmum svína, sem skara fram úr samkvæmt niðurstöðum víðtæks skýrsluhalds.
Tilgangur þessara afkvæmarannsókna er að afla meðal annars upplýsinga um
vaxtarhraða, fóðurnýtingu og kjötgæði grísanna og nota síðan þessar upplýsingar til
að velja hæfustu grísina til undaneldis. Afkvæmarannsóknirnar hefjast þegar grísirnir
hafa náð 25 kg þyngd og þeim lýkur þegar sláturþyngd, 90-100 kg er náð. Fram að
25 kg þyngd grísanna er notaðar upplýsingar um viðkomandi grís úr skýrsluhaldi
viðkomandi bænda og kynbótabúa.
Áður en byrjað er að gera grein fyrir niðurstöðum rannsókna, sem gerðar hafa
verið á Norðurlöndum, er við hæfi að rifja upp atriði sem skiptir miklu máli við
kynbætur búfjár, en það er arfgengi.
Arfgengi: Þar sem að baki mældra eiginleika, sem mestu máli skipta í búfjárrækt og
búskap almennt eru flókin og margbrotin erfðalögmál, er beitt tölfræðilegum aðferðum
til að komast að raun um og gefa til kynna hve miklu leyti erfðirnar eiga hlut í
breytileika hvers erfðahóps. Sá hluti breytileikans sem orsakast af mismunandi
genasamsetningu kallast arfgengi og er það metið og túlkað með tölunum 0,0-1,0.
Þegar arfgengið er 1,0 orsakast allur breytileikinn af erfðum, en sé arfgengið 0,0
orsakast allur breytileikinn af atvikum og umhverfi t.d. fóðrun, uppeldi o.s.frv.
í kynbótastarfinu er nauðsynlegt að vita um hlut erfðanna í mismun og breytileika
innan erfðahóps, því að ræktunaraðferðir verða ætíð að miðast við arfgengið. Því
hærra sem arfgengið er því auðveldara er að breyta eðlisfari búfjárstofna með vali
undaneldisgripa. Þannig er að vænta mikils árangurs á skömmum tíma, ef arfgengi
eiginleikanna er yfir 0,40 og bestu einstaklingarnir eru valdir til undaneldis. Einnig má