Ráðunautafundur - 15.02.1990, Page 172
-162-
RÁÐUNAUTAFUNDUR 1990
Viðhorf ullarmatsins til breytinga á rúningstíma
Emma Eyþórsdóttir, ullarmatsformaður
Rannsóknastofnun landbúnaðarins
INNGANGUR
Ullarmat er starfrækt samkvæmt lögum nr. 21, frá árinu 1976, og reglugerð frá sama
ári. Töluverðar breytingar hafa orðið á forsendum reglna um ullarmat frá setningu
þeirra og munar þar mest um aukna haustull í tvennum skilningi. Annars vegar er
ull af fé, sem rúið er í upphafi gjafatíma og aftur seinni hluta vetrar eða að vori, og
hins vegar er ull af fé, sem gengur í tveimur reyfum fram á haust.
Hér á eftir verður gerð grein fyrir skipulagi og reglum um ullarmat, sem í gildi
eru, og síðan kynntar hugmyndir höfundar að tillögum til breytinga á þessum reglum,
með tilliti til breyttra aðstæðna.
SKIPULAG ULLARMATSINS
Við ullarmat starfa ullarmatsmenn, sem hafa fengið löggildingu frá lögreglustjóra,
eftir tillögum yfirullarmatsmanna. Ullarmatsmenn hafa fengið þjálfun í mati hjá
matsmönnum ullarþvottastöðva áður en þeir fá löggildingu. Þeir eru starfsmenn
ullarkaupenda, þ.e. Álafoss h.f. eða umboðsmanna þeirra. Yfirullarmatsmenn eru
fjórir, einn í hverjum landshluta og eru starfssvæði þeirra ákveðin í reglugerð.
Hlutverk þeirra er að hafa eftirlit með ullarmati, hver á sínu svæði og að leiðbeina
matsmönnum í starfi. Ullarmatsformaður veitir fræðslu og ráðgjöf um ullarmat og
ullarmeðferð og sker úr ágreiningsmálum. Ullarmatsformaður og yfirullarmatsmenn
eru opinberir starfsmenn í hlutastarfi, skipaðir af landbúnaðarráðherra.
Á árinu 1989 voru starfandi 28 ullarmatsmenn á 17 stöðum á landinu. Þar af voru
4 við mat í ullarþvottastöð Álafoss í Hveragerði, en aðrir störfuðu á vegum umboðs-
aðila (kaupfélaga í flestum tilfellum) víða um land. Matsmenn, sem mátu ull að
einhverju eða öllu leyti heima hjá bændum voru 8 talsins en aðrir höfðu aðstöðu á
vegum umboðsaðila. Álafoss h.f. greiðir matskostnað til umboðsaðila með ákveðinni
krónutölu á kg af metinni ull.
Engar reglur eru til um vinnuaðstöðu við ullarmat og er óhætt að fullyrða, að hún
er mjög misjöfn, einkum þó þar sem ull er metin heima hjá bændum. Yfirullarmats-