Ráðunautafundur - 15.02.1990, Page 178
-168-
III. flokk.
Helstu rökin fyrir að auka haustrúning eru stórbætt mat á ull sem rúin er á réttum
tíma að hausti, í samanburði við vetrarrúna ull. Niðurstöður úr mati frá síðastliðnu
hausti hafa verið að berast til bænda undanfarnar vikur og þá bregður svo við að ekki
fá allir jafn góða flokkun á haustullina og búist var við. í flestum tilfellum má finna
eðlilegar skýringar á þessu, ef grannt er skoðað. Haustull, sem rúin er á réttum tíma,
eins hrein og hægt er að fá hana af kindinni, er metin eftir eðlisgæðum. Ull með
gulum illhærum, dökkum hárum eða blettum, grófu togi eða þellítil kemst aldrei í
Úrval og jafnvel ekki í I. flokk ef gallarnir eru slæmir. Oft hafa menn ekki fengið
kvartanir yfir þessum göllum á vetrar- eða sumarrúinni ull vegna þess að
meðferðargallar hafa vegið þyngra. Þar sem ullin fellur í mati vegna eðlisgalla, þarf
að taka meira tillit til ullargæða við ræktun á fénu. Nauðsyn á ullarkynbótum kemur
þannig bezt í ljós þegar rúið er að haustinu.
Haustullin er ekki alltaf ómenguð, í henni geta verið jurtaleifar t.d. lyng eða mosi,
mýrarrauði er sums staðar og einnig getur komið fyrir að ullin sé þófin. Það er mjög
áríðandi að snoðið sé hreinsað af haustrúnu fé annað hvort seinni hluta vetrar eða
á vorin, annars má búast við þófinni brynju utan á ullinni haustið eftir, sem skemmir
nýja reyfið.
Nokkuð hefur borið á gæruull, sem klippt er af gærum af heimaslátruðu fé og
hefur hún verið lögð inn sem haustklippt ull. Þessi ull kemur oft mjög illa út úr
mati vegna bleytu og blóðmengunar, sem veldur rotnun þannig að ullin fer í III. flokk
eða jafnvel í úrkast.
Lélegur frágangur á haustull getur valdið lakara mati en ástæða er til og loks
geta verið byrjunarörðugleikar við mat á haustull þar sem matsmenn eru óvanir slíkri
ull.
FRÁGANGUR OG GEYMSLA
Bændur geta auðveldað matsmönnum starfið með réttum vinnubrögðum við rúning og
frágang á ullinni. Mestu máli skiptir, að ullin sé grófflokkuð strax við rúning, þannig
að ull, sem er misjöfn að gæðum sé ekki sett öll í sama pokann. Eftirfarandi
vinnureglur er gott að hafa í huga.
1. Gætið þess að blanda aldrei saman hvítri og mislitri ull og að rýja hvítt fé alltaf
á undan mislitu.
2. Takið strax frá kviðull og læraull ásamt ull af hnakka og skæklum af gulu fé.
Þessi ull er ævinlega lakari en afgangurinn af reyfinu.