Ráðunautafundur - 15.02.1990, Page 250
-240-
FÓÐRUN OG EFNAINNIHALD MJÓLKUR
Hér verður einungis fjallað um áhrif fóðurs á sykur, fitu og prótein í mjólk en að
sjálfsögðu getur fóðrun haft áhrif á önnur efni í mjólkinni, svo sem vítamín og
steinefni.
Mjólkursykur
Fóðrun hefur mjög h'til áhrif á hlutfall mjólkursykurs og er það aðallega vegna þess
hve sykurinn er tengdur stjórnun á vökvaspennu í mjólkinni. Ef framleiðsla á
mjólkursykri eykst, þá dregur hann með sér vatn í mjólkina þannig að mjólkurmagnið
eykst, en hlutfall mjólkursykurs helst óbreytt. Á hinn bóginn hefði þetta aukna
mjólkurmagn í för með sér lækkun á hlutfalli fitu og próteins í mjólkinni, þó svo
engar breytingar hefðu í raun orðið á framleiðslu þeirra efna. Út frá þessu má færa
rök fyrir því að réttara sé að skoða áhrif fóðrunar á efnainnihald út frá framleiddu
heildarmagni efna (g/dag), frekar en styrkleika þeirra í mjólkinni (P.C. Thomas, 1984).
Mjólkurprótein
Undir venjulegum kringumstæðum er mjög erfitt að breyta hlutfalli próteins í mjólk
svo einhverju nemi, en almennt má segja að prótein í mjólk fylgi betur orku en
próteinfóðrun. Þannig hækkar prótein % í mjólkinni yfirleitt við aukna kjarnfóðurgjöf
og einnig þegar kýr komast á beit á vorin, svo dæmi séu tekin. Þessu til stuðnings
má benda á norskar (Vik-Mo, 1984), sænskar (Spörndly, 1989) og bandarískar (Emery,
1978) athuganir. Þessi aukning á próteini við aukna orkufóðrun er oftast tengd hærra
hlutfalli própionsýru í vömbinni, þó ekki sé vitað nákvæmlega hvernig það gerist (P.C.
Thomas, 1984).
Rétt er að benda á að oft er erfitt að greina sundur áhrif próteins og orku í fóðri.
Ef orkan eykst með meira kolvetnafóðri þá eykst um leið örverupróteinmyndun í
vömbinni og þar með væntanlega magn amínósýra í blóði. Á hinn bóginn getur aukið
prótein í fóðrinu hækkað meltanleika á gróffóðrinu og þar með orkuframboð.
Próteinmagn í fóðri virðist ekki hafa veruleg áhrif á prótein í mjólk nema ef um
er að ræða mikla undirfóðrun, þá lækkar prótein í mjólkinni. Algengara er að sjá
niðurstöður sem sýna að aukið prótein í fóðri á fyrstu vikum mjaltaskeiðsins auki
afurðir mjólkur og mjólkurefna, en ekki hlutföll þeirra. Þannig sýna danskar
niðurstöður (sjá Hermansen & Pedersen, 1987) að hækkun á próteini í fóðri úr 15
í 21% af þe. auki afurðir mjólkur og mjólkurefna en lækki fitu %, en sé próteinið
hækkað enn frekar (19-23%) hafi það ekki áhrif á hlutföll né afurðir mjólkurefna.