Morgunblaðið - 24.06.2017, Page 26
26 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. JÚNÍ 2017
Tvennt hefur að undanförnu orðið til að gleðja alla sem annt er um ís-lenska tungu: Annarsvegar lýsti forsætisráðherra því yfir á Austur-velli 17. júní að Hús íslenskunnar yrði risið úr gryfju sinni á Mel-unum á næsta ári, um það leyti sem fagnað verður aldarafmæli
fullveldis okkar 1. desember 2018. Hinsvegar var kynnt niðurstaða nefndar
sem lagt hefur fram verkáætlun um máltækni 2018-2022 þar sem tekur skipu-
lega á því hvernig hin ýmsu undratæki nútímans skuli kúskuð til hlýðni og
skikkuð til að tala og skilja íslensku á íslenskum heimilum og vinnustöðum.
Þarna eru nútímaleg viðhorf mætt til leiks og lagt á ráðin um það hvernig við
viljum hafa framtíðina. Vonandi verður þessum fyrirætlunum fylgt kröft-
uglega eftir.
Það var mikil blessuð
hressing að fá þessar gleði-
fréttir beint ofan í Air Ice-
land Connect-málið þar sem
gat að líta sótsvarta fortíð-
arhyggjuna grasserandi,
undanlátssemi og uppgjöf
fyrir úreltum kröfum um enskuvæðingu alls og allra, þeirri undarlegu skoðun
að erlendir ferðamenn, hvaðanæva að, geti engan veginn kunnað fótum sínum
forráð hér nema þeim sé leiðbeint þar um á ensku. Og ekki nóg með það: Var-
hugavert sé að láta hin frumstæðu og sveitalegu íslensku heiti fylgja með, þau
gætu truflað skilninginn. Fái þau að fljóta með skuli þau koma náðarsamleg-
ast í kjölfar enskunnar með smærra letri. Þannig er málum til dæmis háttað á
Keflavíkurflugvelli nú um stundir í boði Isavia. (Hvers vegna ekki Patterson
Airport og Iceavia?)
Air Iceland Connect: Það var engin þörf á þessari nafnbreytingu, hún er al-
gjörlega misráðin, byggð á rándýrri ímyndun ímyndarsérfræðinga. Það er
ekkert að því að nota íslensk nöfn og láta sérvalin ensk heiti fljóta með. Þannig
var þetta löngum, áður en stóru flugfélögin sameinuðust. Flugfélag Íslands
nefndist þá Iceland Airways á erlendum vettvangi. Loftleiðir kölluðu sig Ice-
landic Airlines, skammstafað IAL. Sagt var reyndar að í New York hafi fólk
talið að þetta fangamark stæði fyrir Icelandic Always Late (íslenskt æ seint).
Þegar Flugfélagið og Loftleiðir sameinuðust 1973 undir nafninu Flugleiðir
fylgdi með aukanafnið Icelandair. En svo hófst enska öldin hin nýja og þar
með var Flugleiðanafnið talið til trafala og fellt burt illu heilli. Svo virðist sem
stjórnendur Flugleiða, rétt eins og stjórnendur Flugfélags Íslands nú, hafi lit-
ið svo á að útlendingum geti ekki verið ljóst að um flugfélög sé að ræða ef þeim
er ekki skýrt frá því á ensku eingöngu. Þetta er áreiðanlega misskilningur.
Þjóðverjar a.m.k. ættu að kannast ágætlega við nafnorðið Flug úr eigin tungu.
Eins gætu Norðurlandabúar og enskumælandi þjóðir jafnvel áttað sig á því að
íslenski orðstofninn flug eigi eitthvað skylt við sagnorðin at flyve og to fly.
Útlendingar eru alls ekki jafnvitlausir og sumir halda.
Fagnaðarefni
og ófagnaðar-
Tungutak
Þórarinn Eldjárn
thorarinn@eldjarn.net
Tvennt hefur vakið mesta athygli eftir að Donald J. Trump tók við sem forseti Banda-ríkjanna. Ásakanir um óeðlileg tengsl hansog hans manna við Rússland og kerfis-
bundnar árásir hans og hans manna á fjölmiðla í
Bandaríkjunum.
Sjálfur hefur Trump afgreitt alla gagnrýni á störf
sín sem forseta með því að segja að um falsaðar
fréttir sé að ræða. Og þeim fullyrðingum fylgir hann
gjarnan eftir með því að hæðast að rekstrarvanda
sumra fjölmiðla.
Síðan gera hann og hans menn lítið úr einstökum
nafngreindum blaðamönnum og leitast við að draga
úr aðgengi fjölmiðla yfirleitt að Hvíta Húsinu.
Það er alvarlegt umhugsunarefni að til er nýlegt
fordæmi fyrir því að nýr valdamaður í embætti hafi
byrjað feril sinn á því að þagga niður í fjölmiðlum og
einstökum blaðamönnum en sá beitti að vísu enn
ruddalegri aðferðum en Trump.
Eftir fall Sovétríkjanna varð til um skeið í Rúss-
landi eitthvað sem hægt var að kalla frjálsa fjölmiðla
en það stóð ekki lengi. Eitt fyrsta
verk Pútíns eftir að hann tók við sem
forseti Rússlands um síðustu aldamót
var að koma böndum á fjölmiðla. Það
var gert með ýmsu móti. Ef eigendur
þeirra voru ekki tilbúnir til að sverja honum holl-
ustueiða voru þeir kúgaðir til að selja fyrirtækin til
þeirra, sem voru þegar gengnir Pútín á hönd.
Blaðamenn voru ýmist settir í tugthús fyrir upp-
lognar sakir, flæmdir úr landi eða þeir voru myrtir af
óþekktum aðilum.
Um þessa sögu má lesa í merkilegri bók eftir
bandarískan háskólakennara, sem heitir Karen
Dawisha en bókin heitir Putińs Kleptocracy – who
owns Russia? og kom út árið 2014.
Það er ekki nýtt að valdamenn reyni að hafa áhrif
á fjölmiðla og gangi býsna langt í þeim efnum.
Vinnubrögðin í Moskvu eru sér á parti í því sem kalla
má okkar heimshluta en að bandarískur forseti skuli
ganga fram með þeim hætti sem Trump gerir nú
veldur verulegum áhyggjum um það að lýðræðislegar
umræður séu einfaldlega í hættu.
Auðvitað verða fjölmiðlar að sæta því að vera
gagnrýndir eins og aðrir. Í því felst aðhald, sem gerir
það að verkum að þeir vanda sig þeim mun betur og
það er gott.
Bandaríkjaforseti og hans menn halda hinsvegar
ekki uppi málefnalegri gagnrýni á fjölmiðla vestan
hafs. Þeir segja einfaldlega að þetta og hitt sem fjöl-
miðlar segja frá sé lygi á sama tíma og það hefur
verið sannað með óvéfengjanlegum hætti.
Og veruleikinn er auðvitað sá, að það er jarðvegur
fyrir slíkan málflutning vegna þess að mörgum er af-
ar illa við fjölmiðla.
Það á ekki bara við í Bandaríkjunum heldur í öllum
löndum og þar á meðal hér á Íslandi.
Morgunblaðið hefur hvað eftir annað orðið fyrir því
á undanförnum áratugum að hópar fólks, sem hafa
ekki þolað skoðanir blaðsins hafa bundist samtökum
um að segja því upp og hrósa sér af því að lesa ekki
blaðið. Auðvitað er hverjum og einum frjálst að segja
upp áskrift að blaði eða ákveða að lesa það ekki en
þegar samtök eru mynduð í því skyni eru þeir sem
slík vinnubrögð stunda farnir að nálgast starfs-
aðferðir Donalds Trump.
Alla vega er hugarfarið að baki mjög áþekkt.
Í samfélögum sem byggjast á lýðræðislegum
stjórnarháttum eru frjálsar umræður eitt af því mik-
ilvægasta til að halda við og þróa þá stjórnarhætti.
Og allar aðferðir, sem eru notaðar til að afvegaleiða
slíkar umræður eru hættulegar lýðræðinu. Þess
vegna eru nútímalegar aðferðir sem notaðar eru til
að skapa einstaklingum eða flokkum og fyrirtækjum
ímynd, sem ekki er í samræmi við raunveruleikann
ekki alveg saklausar. Þær eru að
vísu ekki eins grófar og þær aðferðir
sem Trump notar til að rægja fjöl-
miðla vestan hafs en þær eiga þátt í
að búa til skekkta mynd af því eða
þeim sem um er að ræða.
Það er orðið tímabært að ræða þessi mál öll hér á
Íslandi.
Það þurfa að fara fram skoðanaskipti á mili blaða-
manna og stjórnmálamanna.
Það þurfa að fara fram skoðanaskipti á milli blaða-
manna og almannatengla.
Um leið og hinn almenni borgari finnur að það er
ekki allt með felldu skapast jarðvegur fyrir menn
eins og Donald Trump.
Ný samskiptatækni veldur því að stjórnmálamenn
geta nú átt bein boðskipti við borgarana og þurfa
ekki á aðstoð hefðbundinna fjölmiðla að halda til
þess. Um það er að sjálfsögðu ekkert nema gott að
segja en það þýðir auknar kröfur á hendur fjölmiðla
um að þeir fylgi hinum kjörnu fulltrúum eftir og
gangi úr skugga um að þeir fari með rétt mál.
Hin lýðræðislegu samfélög okkar tíma standa á
einhvers konar krossgötum um þessar mundir. Við
þurfum að finna leiðir til þess að hin nýja sam-
skiptatækni verð til þess að efla lýðræðið og frjálsar
umræður fólks en verði ekki notaðar af óprúttnum
pólitískum ævintýramönnum til þess að afskræma
lýðræðið.
Adolf Hitler hafði hæfileika til að ná til fólks eins
og glöggt kom í ljós í Þýzkalandi á árunum fyrir
heimsstyrjöldina síðari. Að hluta til gerði hann það
með því að setja miklar sýningar á svið, þar sem
hann lék aðalhlutverkið.
Donald Trump er búinn að vera í miklu aðal-
hlutverki í Washington frá því að hann flutti í Hvíta
Húsið. Hann hefur náð athyglinni frá degi til dags
með ótrúlegri ósvífni, sem hefur leitt til þess að hann
hefur verið aðalfréttin nánast dag hvern.
Til hvers getur það leitt?
Valdamenn og fjölmiðlar
Trump fylgir í kjölfar
Pútíns að hluta
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Írannsóknum mínum á banka-hruninu 2008 rakst ég á það að
danski fjáraflamaðurinn Christian
Dyvig rataði árið 2015 á lista yfir 100
ríkustu Danina vegna gróða síns af
kaupum á FIH-banka. Ég tók þá eftir
því að á sama lista var dánarbú Hal-
dors Topsøe og raunar í tíunda sæti
með 7,2 milljarða danskra króna eign
(um 110 milljarðar íslenskra króna).
Fornafnið hljómaði kunnuglega, og
eftir nokkurt grúsk komst ég að því
að þessi danski auðjöfur var íslenskur
að langfeðgatali.
Haldor Topsøe fæddist 1913, gerð-
ist efnaverkfræðingur og stofnaði ár-
ið 1940 fyrirtæki sem ber heiti hans
og stendur enn framarlega í efnaiðn-
aði á alþjóðavettvangi. Hann lést
2013, skömmu áður en hann hefði
orðið hundrað ára. Faðir hans var
Flemming Topsøe liðsforingi en afi
hans Haldor Topsøe, kunnur danskur
efnafræðingur og félagi í danska Vís-
indafélaginu. Móðir Haldors eldri var
hálfíslensk, Sigríður Thorgrímsen.
Hún var dóttir Halldórs Thor-
grímsen, sem fæddist byltingarárið
1789, lærði lög í Danmörku og var
sýslumaður í Gullbringu- og Kjós-
arsýslu 1814-1818, en dæmdur frá
embætti. Hann var síðar rekinn úr
skrifarastarfi og lést í umkomuleysi í
Laugarnesi 1846. Halldór var sonur
Guðmundar dómkirkjuprests Þor-
grímssonar og konu hans Sigríðar
Halldórsdóttur prófasts Finnssonar
biskups.
Eftir að Halldór Thorgrímsen
missti embætti sendi hann konu sína
og dóttur til Danmerkur. Sigríður
giftist Søren Christian Topsøe, sem
var bæjarfógeti í smábænum Skel-
skør á Suðvestur-Sjálandi. Annar
sonur þeirra Sigríðar var Vilhelm
Topsøe, ritstjóri hægriblaðsins
Dagbladet í Kaupmannahöfn og
kunnur rithöfundur í Danmörku. Sig-
ríður var raunar líka langamma pró-
fessors Peters Bredsdorff, sem gerði
aðalskipulag Reykjavíkur 1962.
Haldor Topsøe kom til Íslands
1951, rannsakaði nýtingu jarðvarma
á Íslandi og skrifaði um það skýrslu.
En árið sem hann lést, 2013, kom út
bók samnefnd honum eftir danska
blaðamanninn Thomas Larsen. Í við-
tali við bókarhöfund kvað Topsøe afa
sinn og nafna hafa talið að Topsøe-
ættin hefði notið sterkra íslenskra
erfðavísa (gena). Haldor eldri hefði
verið stoltur af því að geta rakið ættir
sínar til Gunnlaugs Ormstungu og
Egils Skallagrímssonar.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Auðjöfur af
íslenskum ættum