Víkurfréttir


Víkurfréttir - 18.11.2004, Blaðsíða 12

Víkurfréttir - 18.11.2004, Blaðsíða 12
12 VÍKURFRÉTTIR Á NETINU I www.vf.is I LESTU NÝJUSTU FRÉTTIR DAGLEGA! 8 Ástríður Helga Sigurðardóttir skrifar: Oft hefur mér verið misboðið síðan kenn- araverkfallið hófst og það varð engin breyting þar á, við lestur Tíðindanna sem út komu miðvikud. 10. nóv. Sá sem þar geysist fram á ritvöll- inn hefur ekki fyrir því að skrifa undir nafni og hvergi kemur fram í bæklingnum hverjir séu höfundar pistlanna sem þar eru birtir. Eftir talsverða leit fann ég þó innan um smáauglýsin- garnar, að ábyrgðar- maður er talinn Vikar Sigurjónsson og verður pistillinn því líklega skrifaður á hans ábyrgð. Að þurfa að hlusta á, eða lesa það, seint og snemma að ég sé algjör letingi, sem ekki nenni að vinna vinnuna mína. Sé sífellt að reyna að koma mér undan því sem mér ber að gera, svíkist um, mæti seint og illa í vinn- una og sé komin heim upp úr hádegi. Sé þar að auki í fríi stóran hluta úr árinu, því ef ekki sé það jólafrí eða páskafrí, þá sé það sumar- frí allt heila sumarið, meðan allt heiðvirt fólk sé í vinnu við að halda samfélaginu á floti, meðan við kennararnir f latmögum einhvers staðar í leti okkar. Ég hef unnið ýmis- legt um dagana, en ég held að engu starfi sem ég hef sinnt, hafi verið sýnd slík lítilsvirðing og kennarastarfinu er sýnt, af ákveðnum hópi fólks. Kennarar voru ókátir yfir því að þurfa að fara í verkfall, því þeim er annt um nemendur sína. Þeir höfðu hins vegar ekkert val. Þeir voru búnir að vera samnings- lausir frá því í mars og ekkert útlit fyrir að talað yrði við þá. Það mætti hins vegar halda að sumir álíti, að kennarar hafi gert þetta af mannvonsku einni saman. Að kennarar fái eitthvað út úr því að níðast á saklausum börnum. Kennarar vita ósköp vel að verkfallið bitnar harðast á saklausum börnum og þeim finnst sárt til þess að hugsa. En við framfleytum ekki heimilum okkar, né borgum reikningana með samviskunni einni saman. Kennurum hefur verið kennt um velflest sem talið er að miður hafi farið, meðan á verkfallinu hefur staðið. Það er sök kennaranna, að sumir foreldrar eru sagðir leyfa börnum sínum að vera úti á kvöldin og virða ekki úti- vistarreglur. Það er sök kennaranna, að sum börn eru sögð í óæskilegum tölvuleikjum heima hjá sér og það er sök kennaranna, að einhverjir unglingar eru sagðir hafa sótt í vímuefni. Ýmislegt f leira hefur verið skrifað á reikning okkar kennaranna. Þegar ég skrifaði undir ráðningarsamninginn minn, stóð hvergi í honum að þar með tæki ég að mér að ala upp fjöldann allan af börnum út um allan bæ, hugsa um þau allan sólarhringinn og bæri ábyrgð á uppeldinu. Mér finnst hins vegar athygl- isverð þessi mynd sem dregin er upp af foreldrum. Með þessu er verið að segja að foreldrar séu óábyrgir og óhæfir uppalendur og ef ekki væru kennarar til að ala upp börnin þeirra, þá sé allt á heljarþröm. Þó við kenn- arar séum stórkostlegir kraftaverkamenn, þá held ég að enginn geti komið í stað foreldra, ekki einu sinni kenn- arar. Ég skora hér með á foreldra að rísa upp og reka af sér þetta slyðruorð, að þeir séu duglausir uppalendur. Ég væri ekki kát í þeirra sporum að sitja undir slíku. Í pistli téðra Tíðinda er gefið í skyn, að eitthvað sé athugavert við atkvæðagreiðsluna um miðlunartil- lögu sáttasemjara, af því hún hafi verið felld með 93% atkvæða. Það var ekki erfitt fyrir kennara að reikna sig út, hvernig þeir kæmu út úr þessum samningum. Það þurfti ekkert samráð, eins og flaug í koll pistlahöfundar (nema að hann hafi verið að reyna að vera fyndinn), kennarar kunna stærðfræði og þar með prósentu- reikning. Pistlahöfundur sagði að það hefði sett að sér hroll, þegar hann hafi séð þessar tölur. Ég vil ráðleggja honum að taka ekki að sér að vera kennari, ef hann hefur ekki taugar í meira en þetta. Pistlahöfundur segir kenn- ara halda börnum í gíslingu. Réttlætiskennd þeirra sé dregin í efa á mörgum heimilum. Það þýði ekki fyrir þessa stétt að prédika um gildi menntunar, æskan sé aðeins peð sem kennarar séu tilbúnir til að fórna til að tryggja sér betri stöðu í endataflinu. Hann heldur svo áfram og segir að best væri að kennarar gerðu eins og flestir aðrir, mættu í sína vinnu á tilteknum tíma og ynnu sína vinnu þar. Hvar hefur þessi ágæti pistlahöfundur haldið sig? Veit hann ekki hvenær skólarnir byrja á morgnana og hvað þeir standa lengi á daginn? Hvenær heldur hann að kennarar mæti í vinnuna og hvað heldur hann að börnin séu að gera í skólanum á morgnana, ef kennarar eru ekki mættir fyrr en seint og um síðir? Pistlahöfundur heldur svo áfram að úthúða þessari lötu stétt, kennurum og hvernig þeir ljúgi til um vinnuna sína, kallar það reyndar þjóðsögu. Ætla ég ekki að tíunda það frekar. Það er ekki skrýtið þótt nemendur sýni agaleysi og virðingarleysi í skólum og utan þeirra, telji ekki ástæðu til að fara eftir því sem þeim er sagt, ef þau eru nestuð með þetta sjónarmið að heiman. Kennarinn þeirra sé letingi, sem reyni sífellt að koma sér undan vinn- unni sinni og beiti til þess ósannsögli. Það er ekki skrýtið þótt nemendur sjái ekki ástæðu til að taka mark á kennaranum sínum, eða sína honum tilhlýði- lega kurteisi. Þótt kennarar kenni nemendum sínum heilmikið og séu samvistum við þá langtímum saman, þá draga börnin dám af foreldrum sínum og því upp- eldi sem þau fá hjá þeim. Lengi býr að fyrstu gerð. Svona talar aðeins það fólk, sem hefur ekki haft fyrir því að venja komur sínar inn í skólana og kynnast skóla- starfinu og hefur því ekki hugmynd um hvað þar fer fram. Er hreinlega ekki nógu vel upplýst. Margt fólk sem ég hef talað við, sem hefur látið sig eitthvað varða málefni skólanna, er á öðru máli. Það hefur líka kynnt sér starfsemi skólanna, hefur þekkingu á starfi kennar- ans, þekkingu á starfi nemenda og það hefur þekkingu á því sem er að gerast í skólunum. Það fólk er vel upp- lýst. Fyrir hina sem ekkert vita, ætla ég að láta fylgja hér lýsingu á örlitlu broti af því sem felst í starfi kennara, þótt ekki sé ég viss um að þeir hafi fyrir því að lesa það. Vinnutími kennara er vissulega lengri en 130-140 klukkustundir á mánuði, eins og sumir hafa haldið fram, þótt kennarinn sé ekki að kenna nemendunum allan þann tíma, því starf kennara er sannarlega fólgið í f leiru en að standa fyrir framan nemendur sína og fylla þá visku. Kennari þarf að undirbúa kennslu og þar þurfa allir að fá námsefni við hæfi. Í blönduðum bekkjum eins og tíðkast í dag, eru nemendur á öllum getustigum og með alls kyns fylgikvilla, svo sem ofvirkni, athyglisbrest, dyslexíu, stærðfræði- vandamál og svona mætti lengi telja. Allir verða að fá námsefni við hæfi. Svo þarf að búa til próf og fara yfir próf og oft er ekki hægt að leggja sama próf fyrir allan bekkinn, svo það verður að búa til f leiri en eitt próf, fyrir mismunandi getustig. Það eru við- talstímar fyrir foreldra, for-eldrafundir, bæði einkafundir og hóp- fundir, sem oft þurfa þá að fara fram utan hefðbundis vinnu- tíma, því foreldrar komast ekki úr vinnu. Það eru kennara- fundir, starfsmanna- fundir, deildarstjóra- fundir, fundir vegna eineltismála og agavandmála nem- enda, að ónefndri teymisvinnu og þróunarverkefnum ýmiskonar, undir stjórn skólastjóra. Kennarar þurfa að fylla út skýrslur og beiðnir vegna alls kyns greininga á nemendum. Skýrslur fyrir sál- fræðinga, atferlisfræðinga, talkennara, sérkennara og hina ýmsu sérfræðinga, en enginn nemandi fer í greiningu, nema kennarinn hans hafi fyllt út þar til gerð eyðublöð, sem geta verið allt að 6 þéttskrifaðar síður, sem þarf að skrá upplýsingar í. Kennarar þurfa að útbúa bekkjarnámskrár og einstaklingsnámskrár fyrir þá sem ekki geta fylgt eftir bekkjarnámskránni. Þegar jafn fjölbreytt f lóra af nemendum eru í einum og sama bekknum, er ekki eins og kennarinn geti gengið inn í bekkinn, kennt og gengið svo út aftur og sé þar með laus allra mála. Það eru alls kyns hlutir sem þarf að leysa, sem fylgir því að kenna börnum sem ekki falla inn í hin ,,venjulegu viðmið.” Það þarf að vera í dag- legum samskiptum við foreldra sumra þeirra og æði oft kemur það fyrir að hringt er heim til kennarans á kvöldin, eða kennarinn þarf að hringja heiman frá sér að kvöldi, því ekki hefur náðst í foreldrana. Það gerir kennarinn á sinn kostnað, án þess að fá greidd laun eða greitt fyrir símtalið. Þetta er aðeins lítið brot af störfum kennara og gæti ég haft upptalninguna miklu lengri. Ég átti samtal við konu á dögunum. Eftir að hafa lýst skoðun sinni á kennarastéttinni, sem ekki var bein- línis fögur og fullyrt um hluti sem hún ekki hafði kynnt sér og þekkti því ekki til, lauk hún orðræðu sinni á því, að sjálf myndi hún ekki fyrir nokkuð sem í boði væri, taka að sér það starf að kenna börnum í grunnskólum í dag. Það væri sama hvað launin væru há, hún myndi aldrei nokkurn tíman taka að sér þetta starf, sem krefðist alls þess sem í því fælist. Það er greinilegt að aðrir eru nógu góðir til að sinna þessu starfi og eiga bara að vera ánægðir með þau laun sem þeir hafa nú. Talandi um laun, þá get ég upplýst, að mánaðarlaun mín eru í dag, kr. 187.700.- heildarlaun, fyrir að vera umsjónarkennari og auk þess komin með alla aldurslaunaflokka sem hægt er að fá. Útborguð laun eru tæp 135.000.- krónur, þrátt fyrir að ég hafi að baki sex ára háskólanám. Ég er fyrirvinna heimilis- ins og hef því ekki í aðra vasa að seilast, eða get treyst á aðra. Finnst fólki þetta virkilega ásættanlegt fyrir þessa vinnu? Ég vil benda fólki á, að kynna sér fyrst þau málefni sem það tjáir sig um, áður en það fer að taka of stórt upp í sig. Fæst orð bera minnsta ábyrgð. Ástríður Helga Sigurðardóttir guðfræðingur og kennari Njarðvíkurskóla Nú er mér nóg boð ið

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.