Morgunblaðið - 29.12.2017, Qupperneq 8
8 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 29.12. 2017
Fyrir nákvæmlega tólf mánuðum var á þess-
um síðum fjallað um einstakt íþróttaár sem þá
var að baki – 2016. Þá um sumarið fór karla-
landsliðið í fótbolta fram úr öllum væntingum
með því að komast í átta liða úrslit Evrópu-
keppninnar í Frakklandi og fjölmargir aðrir ís-
lenskir íþróttamenn voru áberandi, í hinum
ýmsu greinum. Ekki síst afrekskonurnar okk-
ar í sundi og golfi.
Smáþjóðin Íslendingar vakti athygli og um-
tal heimsbyggðarinnar með árangrinum á EM
í Frakklandi. Fyrst með því að komast þangað
og síðan með því að slá eftirminnilega í gegn.
Fyrir 335 þúsund manna þjóð hefði þetta átt
að vera toppurinn. Varla var möguleiki á að ná
lengra?
En samt hefur það gerst. Ísland er komið á
stærsta sviðið í umfangsmestu og vinsælustu
íþróttagrein heims. Hvern hefði órað fyrir því
að Ísland ætti eftir að komast í lokakeppni
heimsmeistaramóts karla? Vera í hópi þeirra
13 Evrópuþjóða sem kæmust í gegnum undan-
keppnina? Og það án þess að þurfa að fara í
umspil. Ísland var líklega í sterkasta riðli
undankeppninnar með þremur öðrum löndum
sem léku á EM í Frakklandi. Með Króatíu,
Úkraínu og Tyrklandi, auk Finnlands og
Kósóvó.
Heimir Hallgrímsson, Aron Einar Gunnars-
son, Gylfi Þór Sigurðsson og allir hinir stefndu
hinsvegar bara að einu marki: Þeir ætluðu að
vinna riðilinn og fara á HM. Það var ákaflega
einfalt í þeirra augum. Eftir ósigur gegn Finn-
landi í Tampere í byrjun september virtist
draumurinn þó nánast úti og í mesta lagi
mögulegt að ná inn í umspilið með góðum úr-
slitum í lokaleikjunum. En þarna sýndi þessi
magnaði hópur enn og aftur úr hverju hann er
gerður. Glæsilegur sigur vannst á Úkraínu á
Laugardalsvellinum í nánast hreinum úrslita-
leik um hvort liðið kæmist í góða stöðu fyrir
síðustu tvo leikina. Síðan kom þessi ótrúlegi
sigur í Tyrklandi, á einhverjum erfiðasta úti-
velli sem fyrirfinnst í Evrópufótboltanum.
Tyrkir tapa sárasjaldan á heimavelli og þá
helst bara gegn albestu liðum heims.
Fullkomni leikurinn í Eskisehir
En í þessum eftirminnlega leik í Eskisehir þar
sem íslenska liðið hreinlega gjörsigraði það
tyrkneska, 3:0, komu fram svo margir af þess-
um eiginleikum sem liðið býr yfir. Ekki síst
heimavinnan og undirbúningurinn. Búið var að
kortleggja tyrkneska liðið, ekki bara út frá
leikfræðinni heldur líka sálfræðinni. Það er
svo sem ekkert einsdæmi í fótboltanum eða
öðrum íþróttum að búið sé að greina andstæð-
inginn í þaula. Liðum og leikmönnum gengur
hinsvegar misvel að útfæra það sem fyrir er
lagt af þjálfurum og aðstoðarmönnum þeirra.
Ísland átti hreinlega fullkominn leik í Esk-
isehir. Allt gekk samkvæmt skipulagi og áætl-
un og niðurstaðan var einhver glæsilegasti sig-
ur í allri knattspyrnusögu Íslands. Og til að
kóróna allt saman skoruðu Finnar óvænt jöfn-
unarmark í uppbótartíma í Króatíu um það bil
sem flautað var til leiksloka í Eskisehir. Ísland
var komið í efsta sæti riðilsins fyrir loka-
umferðina og þurfti „bara“ að sigra Kósóvó á
heimavelli til að komast á HM í Rússlandi. Það
verkefni leystu strákarnir af fagmennsku og
sóma, og nú eru tíu prósent landsmanna á
höttunum á eftir miðum og ferðum til Rúss-
lands næsta sumar.
Hvernig var hægt að endurtaka leikinn? Ís-
lenska liðið og styrkleiki þess kemur engum
lengur á óvart. Andstæðingarnir vita allt um
leikmenn Íslands og liðið og enginn ætti leng-
ur að vanmeta það sem mótherja. Sú tíð á að
vera liðin að óvænt úrslit náist vegna þess að
andstæðingurinn hélt að verkefnið yrði auð-
veldara en raunin varð.
Knattspyrnuheimurinn hefur tekið miklum
breytingum á undanförnum árum. Gríðarlegar
tekjur hafa gert þá leikmenn sem ná langt í
íþróttinni að auðkýfingum. Um leið hefur
dregið úr metnaðinum og þjóðarstoltinu hjá
mörgum þeirra knattspyrnumanna sem nú
skipa bestu lið heims. Þeir eru ekki jafn til-
búnir til þess að fórna öllu fyrir land og þjóð
og fyrri kynslóðir. Liðsheildir eins og Heimir
Hallgrímsson og Lars Lagerbäck hafa skapað
hjá íslenska landsliðinu á undanförnum árum
eru fágætari en áður. Allavega þegar við horf-
um á bestu landslið heims.
Í þessu umhverfi hafa íslensku landsliðs-
mennirnir notið sín til hins ýtrasta. Þeir eru
almennt ekki að spila með liðum í fremstu röð
og enginn þeirra lék t.d. í riðlakeppni
Meistaradeildarinnar í vetur. Þetta er ekki
samansafn afburðaknattspyrnumanna. Liðs-
heildin og ekki síst vináttan og samheldnin ut-
an vallar sem innan eru gríðarlega dýrmætir
eiginleikar sem Heimir hefur náð að nýta af-
skaplega vel, um leið og KSÍ hefur skapað
honum enn betri umgjörð en áður hefur
þekkst í kringum íslenskt landslið í nokkurri
íþrótt.
Ísland mætir Argentínu, Nígeríu og Króat-
íu í Moskvu, Volgograd og Rostov í júnímán-
uði. Fæstir gera ráð fyrir því að Ísland komist
áfram úr þessum erfiða riðli en við bíðum og
sjáum hvað setur. Ísland er allavega með á
HM. Það eitt og sér er gríðarlega stór sigur.
Kynslóðaskipti í handboltanum
Þau landslið Íslands sem léku á stórmótum á
árinu 2017 náðu ekki sínum markmiðum.
Handboltalandslið karla lék að vanda á HM,
vann einn leik af sex og féll út fyrir gestgjöf-
unum, Frökkum, í sextán liða úrslitum. Liðið
er á leið í lokakeppni EM í Króatíu og er þar í
erfiðum riðli með Svíum, Króötum og Serbum.
Fáir búast við því að liðið nái langt, enda eru
kynslóðaskipti í gangi og margir ungir og efni-
legir leikmenn komnir inn í hópinn á meðan
„silfur- og bronskynslóðin“ er smám saman að
hverfa. Þetta er hinsvegar það lið sem lengst
og best hefur borið hróður íslensks íþrótta-
fólks á stórmótum og mjög áhugavert verður
að fylgjast með þróun þess á næstu misserum.
Kvennalandsliðið í fótbolta olli vonbrigðum í
lokakeppni EM í Hollandi. Það náði ekki að
fylgja eftir frábærum árangri 2013 þegar það
komst í átta liða úrslit og féll út í riðlakeppn-
inni þar sem það tapaði öllum þremur leikj-
unum. Landsliðskonurnar slógu hins vegar
eftirminnilega í gegn þegar þær sigruðu
Þýskaland 3:2 á útivelli í undankeppni HM.
Þau úrslit eru einhver þau óvæntustu og jafn-
framt bestu sem nokkurt íslenskt landslið hef-
ur náð í stökum leik og þýða að þær eiga raun-
hæfa möguleika á að komast á HM 2019.
Körfuboltalandslið karla lék í úrslitakeppni
EM í annað skiptið í röð en náði ekki að byggja
ofan á það og tapaði aftur öllum sínum leikjum.
Þar vantar áfram herslumun til að ná lengra.
Vann hug og hjörtu þjóðarinnar
Í einstaklingsgreinunum var það kylfingurinn
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sem vann hug og
hjörtu þjóðarinnar. Í frumraun sinni á LPGA,
sterkustu mótaröð heims, náði hún að festa sig
í sessi, komst ofarlega á nokkrum mótum,
tryggði sér keppnisréttinn áfram, og virðist
hafa hæfileikana og andlega styrkinn til þess
að ná lengra á stóra sviðinu. Það eru svo sann-
arlega tímamót fyrir golfíþróttina á Íslandi að
eignast í fyrsta skipti fulltrúa á þessum vett-
vangi.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fékk fyrst
Íslendinga keppnisrétt á sterkustu
mótaröð heims og tryggði sér hann
áfram fyrir 2018. Hún náði fjórða sæti á
einu mótanna í Indiana.
Ljósmynd/golf.is
Aron Einar Gunnarsson er
fyrirliði karlalandsliðs
Íslands í knattspyrnu og
mikill leiðtogi í hópnum,
innan vallar sem utan.
Fram undan er mikið
ævintýri í lokakeppni HM í
Rússlandi.
Morgunblaðið/Golli
Smáþjóðin slær um sig
Hvern hefði órað fyrir því að Ísland ætti eftir að komast í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu?
Liðsheild eins og þróast hefur hjá íslenska landsliðinu á undanförnum árum er fágætari en áður.
VÍÐIR SIGURÐSSON
er umsjónarmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins
og mbl.is, hefur starfað sem íþróttafréttamaður frá
árinu 1981 og skrifað bækur árlega um íslenska
knattspyrnu.
Liðsheildin og ekki síst vináttan og sam-
heldnin utan vallar sem innan eru gríðarlega
dýrmætir eiginleikar sem Heimir hefur náð
að nýta afskaplega vel, um leið og KSÍ hefur skapað
honum enn betri umgjörð en áður hefur þekkst.
VARLA VAR MÖGULEIKI Á AÐ NÁ LENGRA EN SAMT HEFUR ÞAÐ GERST
’’
TU
RN
ING POINTS | TÍM
A
M
Ó
T
|
2018
|TURNINGPOIN
TS
|T
ÍM
A
M
Ó
T
|
20
18
|