Morgunblaðið - 29.12.2017, Síða 70

Morgunblaðið - 29.12.2017, Síða 70
70 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 29.12. 2017 Eldsnemma morguns, áður en strákurinn Tumi og sjálf jörðin fóru á fætur, hóf Ragnar Axelsson ljósmyndari sig á loft, líkt og fuglinn Fönix forðum, og flaug sem leið lá yfir hálendi Íslands, landsins sem hefur fóstrað hann og hann þekkir eins og lófann á sér. Eins og svo oft áður var það besti vinur ljósmyndarans, birtan, sem dró hann af stað svo árla en auk rökkursins er náttúran óvenju mild og dauf á þessum tíma árs, ef ekki hreinlega drungaleg. Þvílík hughrif, þvílíkar ljósmyndir nást ekki á öðrum tíma árs. Það eru ekki síst þessir hörðu og löngu skuggar sem grípa augað. Ekki svo að skilja að íslenska birtan, það galdraverk, sé ljósmyndaranum ekki hagfelld á öðrum tímum árs, það er bara öðruvísi. „Það er mjög sjaldgæft að fá svona góða daga, svona miklar stillur, þegar dagurinn er svona stuttur og sólin svona skammt á lofti. Þetta er algjör töfrabirta sem líkja má við það að sitja heima í stofu við kertaljós og arineld frekar en að baða húsið rafmagnsljósi,“ segir Ragnar. Þar sem hann sveimaði yfir hálendinu nú á aðventunni leið honum allt í einu eins og hann væri ekki á heimaslóð. „Er þetta Ísland eða er þetta tunglið?“ hugsaði hann með sér. Ljós- myndir hans hér í blaðinu segja auðvitað meira en þúsund orð um það en líkindin eru vissulega sláandi. Landslagið, áferðin, gígarnir, meira að segja snjófölin minnti á tunglryk. „Houston, we have a problem! We think we are on the moon! Over.“ Er þetta tunglfar? Ef vel er að gáð má greina hylki af einhverju tagi á einni myndanna (bls. 72-73) sem sann- færði Ragnar og ferðafélaga hans, Sölva Ax- elsson bróður hans og flugstjóra, og Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlækni, enn frekar um það að þeir hefðu villst svona líka hressi- lega af leið. Gæti hylki þetta verið tunglfar? Ætlaði það að lenda á tunglinu en endaði óvart á Íslandi? Er það kannski „made in Mars“? Er þetta jafnvel tilraunaflaug á vegum Kim Jong- un? Hver veit? Alltént hefur ljósmyndarinn ekki hugmynd um hvað þarna er á ferðinni. Tilgátur sendist á netföngin hér að framan! Ekkert grín er án alvöru og Ragnar við- urkennir að hann hafi velt því fyrir sér á þessu augnabliki hvernig það væri í raun og veru að lenda í hinum myrku mánafjöllum. Væri það svo frábrugðið því að lenda við þessi birtu- og veðurskilyrði á hálendi Íslands. Er einhver með númerið hjá Buzz gamla Aldrin? Annars er það svo sem gömul saga og ný að fólk sem flýgur yfir Ísland verði fyrir viðlíka hughrifum. Fyrir fjölmörgum árum tók höf- undur þessara orða viðtal við erlendan hljóm- sveitarstjóra sem missti kjálkann niður í brjóst þegar komið var með hann inn til lend- ingar í Keflavík. „Hvar í ósköpunum er ég að lenda?“ hugsaði aumingja maðurinn með sér. „Á tunglinu?“ Hvort ætli ríki þar, dúr eða moll? Ugglaust vita líka margir að bandarísk geimfaraefni komu í tvígang til Íslands á sjö- unda áratugi síðustu aldar og voru við æfingar og rannsóknir við Öskju sumarið 1965 og í Þingeyjarsýslum tveimur árum síðar. Meðal þeirra sem æfðu í Þingeyjarsýslum voru Bill Anders, sem fór í fyrsta mannaða flugið um- hverfis tunglið árið 1968,og Neil Armstrong, sem varð fyrstur manna til að stíga fæti á tunglið 21. júlí 1969. Astro-Nautagil Markmið æfinganna var að auka skilning geimfaranna á jarðfræði, svo þeir gætu valið betur þau sýni sem þeir fluttu heim frá tungl- inu. Ísland varð fyrir valinu vegna þess að há- lendi landsins var talið líkjast því landslagi sem biði geimfaraefnanna á tunglinu. Meðal þeirra staða sem geimfaraefnin æfðu á var nafnlaust gil sunnan við Drekagil. Jarð- fræðingarnir Sigurður Þórarinsson og Guð- mundur E. Sigvaldason gáfu gilinu nafnið Nautagil, en þar hafa aldrei verið naut. Nafnið er dregið af enska orðinu „astronaut“ og er gil- ið því kennt við æfingar geimfaraefnanna. Í bókinni Öldin okkar, sem Gils Guðmunds- son og Björn Vignir Sigurpálsson tóku saman, segir að geimfaraefnin hafi verið mjög ánægð með ferðina til Íslands 1965. Haft er eftir Eu- gene A. Cernan geimfara að ferðin til Öskju hafi verið mjög árangursrík því að þau jarð- fræðilegu fyrirbrigði sem finna má við Öskju séu svo margbreytileg. Íslensku jarðfræðing- arnir sem ferðuðust með geimfaraefnunum luku einnig lofsorði á þau og sögðu að athug- anir þeirra hefðu verið óvenjuglöggar. Eins og fréttaþyrstum lesendum er kunnugt er Donald Trump Bandaríkjaforseti farinn að huga að tunglferðum á ný og hver veit nema nýjustu geimfaraefni hinnar frjálsu og hug- djörfu stórþjóðar verði send á ný hingað út í fásinnið til æfinga á komandi misserum. Til að vera með fingurinn á púlsinum, eins og hans er siður, ætti Trump auðvitað að koma sjálfur og meta aðstæður hér um slóðir og hver veit nema Ragnar Axelsson væri fáanlegur til að fljúga með hann. Ef Trump biður fallega! NASA HÁLENDI Er nema von að menn taki feil á hálendi Íslands og sjálfu tunglinu? NASA Gígarnir á tunglinu minna um margt á gígana á hálendi Íslands. Geimfarinn Eugene A. Cernan æfði sig á Íslandi. Hér er hann þó á tunglinu árið 1972.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.