Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.01.2018, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.01.2018, Blaðsíða 18
VIÐTAL 18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14.1. 2018 ég að vinna úti í Bandaríkjunum. Og ég get ekki lengur gert hjartaaðgerðir út af geislun- inni. Ég er búinn að fá mikla geislun í meðferð- inni, svipað og að fá geislun af 30-40 þúsund röntgenmyndum af lungum. Við hjartalæknar eru alltaf útsettir fyrir geislun og þetta safnast fyrir. Og þessi geislun sem ég fékk í meðferð- inni fer aldrei úr líkamanum, lyfin fara en geislunin ekki,“ segir hann. „En mér líður vel. Ég er að fara á spítalann í Keflavík og ætla að vera þar sjúkrahúslæknir, lyflæknir. Ég átti ekkert erindi á Landspít- alann að gera flóknar aðgerðir. Ég er alveg hættur því núna, eftir að hafa gert yfir 11.000 aðgerðir, vegna geislunarinnar sem þeim fylgja,“ útskýrir Skúli. „Þarna úti vann ég frá átta á morgnana til níu á kvöldin en ég kaus það, þetta var eins og ver- tíð. En það stóð alltaf til að koma heim, ég á hér sterkar rætur í íslenskum menningararfi og var farinn að hugsa mér til hreyfings. Ég var kom- inn með svo mikið listasafn, um sex hundruð verk. Ég réð ekkert við að halda utan um þetta lengur,“ segir hann. Í tilfinningasambandi við listina Skúli lifir og hrærist í íslenskri myndlist. Á döf- inni eru tvær yfirlitssýningar með verkum Skúla. „Það dugar ekki ein! Við ætlum að skipta þessu í gamla stöffið og nýja,“ segir hann. Auk þess stendur til að listfræðingur skrifi bók um safnið hans Skúla sem er algjörlega einstakt. „Að því leytinu til að mitt safn er eina safn í einkaeigu sem spannar öll tímabil íslenskrar myndlistarsögu.“ Skúli segist alltaf hafa haft áhuga á myndlist og teiknaði mikið sem barn. Hann íhugaði að verða listamaður en sá fljótt að hann hefði ekki hæfileika á því sviðinu. Þegar hann fór svo í læknadeildina og sat tíma í Odda í Háskóla Ís- lands bar það stundum við að ekki komust allir nemendur inn í tíma, sökum fjölda nemenda og plássleysis. Þá kom það fyrir að Skúli datt í það að skoða listaverkin sem þar héngu og varð heillaður af módernismanum sem hann sá þar. „Þá hugsaði ég að ef ég eignaðist einhvern tím- ann pening myndi ég vilja vera listaverkasafn- ari. Því ég vissi að ég myndi njóta þess. Ég þrífst á því að vera í kringum listaverk. Ég er í tilfinningasambandi við þau, þetta eru vinir mínir,“ segir Skúli og brosir. Lengi vel keypti Skúli ekkert, enda fátækur námsmaður. Þegar hann bjó í Bandaríkjunum jókst áhuginn enn frekar og Skúli eyddi frítím- anum á flottum listasöfnum. Það var svo eftir skilnað árið 2008 að hann hellti sér út í söfn- unina af fullum krafti. „Þá kom hrunið og eins dauði er annars brauð, krónan hrundi, dollarinn styrktist og ég er í rauninni sá eini hér sem er að kaupa myndlist af einhverju viti frá 2009 til 2015. Ég fékk svo mik- inn áhuga á þessu og hellti mér algjörlega út í þetta og það sér ekki fyrir endann á því. Ég fæ ekki leið á þessu,“ segir hann og bætir við: „Það tekur mörg ár að læra að horfa á listaverk. Þetta er í raun eins og heimspeki. Maður horfir og hugsar: Hvað er bak við strigann? Ég les um list hvern einasta dag og verð betri maður fyrir vik- ið, þetta hefur breytt mér. Ég hugsa allt öðruvísi. Ég nærist á listinni, það er þetta sem fleytir mér í gegnum daginn,“ segir hann og bætir við að listaverkin hafi komið honum í gegnum erfiðustu tíma í meðferðinni. Og lestur bóka, en hann seg- ist hafa lesið tvær bækur á dag. Auk þess var hann mikið á netinu að skoða, lesa um og kaupa listaverk og fékk mikið út úr því að sinna þessu áhugamáli á þessu erfiða tímabili í lífinu. Vill leyfa öðrum að njóta Skúli hefur brennandi áhuga á að sýna öðrum safnið sitt og vill að aðrir fái að njóta og læra. „Ég er ekkert mikið fyrir sviðsljósið sjálfur en ég hef mikla þörf fyrir að kynna safnið mitt,“ segir Skúli, sem er mikið í mun að segja frá því. „Þeg- ar þú hafðir samband og vildir taka viðtal vildi ég það líka til að segja frá ástríðunni, ekki bara hvít- blæðinu. Ég vildi ekki hafa þetta fórnarlambs- viðtal. Ég hef ekki áhuga á því, enda er ég ekki fórnarlamb, ég er sigurvegari. Ég lít þannig á það að ég sé heppinn og er geysilega þakklátur. Það þýðir ekkert að vorkenna sér. Ef ég fæ þetta aftur hef ég þó alltaf fengið þennan bónus. Auð- vitað var þetta rosalegt, þarna í mars þurfti ég allt í einu að fara að skrifa erfðaskrá og plana jarðarför. Ég skrifaði allt á miða og sagði vinum mínum frá því hvar þeir væru en sýndi engum þá,“ segir Skúli og snýr sér aftur að myndlistinni. „Ég vildi ekki loka mig af með þessi verk. Ég fékk mikinn áhuga á að kynna myndlist fyrir fólki sem hafði engan áhuga á myndlist þannig að ég fór að lána verk á alls kyns stof- ur, lögfræðistofur og verðbréfafyrirtæki. Fólk hefur sáralítið vit á myndlist þannig að ég lána þetta að kostnaðarlausu og sýni þetta til þess að kynna safnið mitt og íslenska myndlist. Ég vil auka myndlist í opinberu rými,“ segir hann. „Ég hef keypt mikið af samtímalist síðustu fimm ár en núna er ég að færa mig inn í gras- rótina. Það er svo mikið af flottum ungum listamönnum og auðvitað er maður að veðja á það, ungt listafólk innan við þrítugt,“ segir hann en Skúli er með ýmsar sýningar í bígerð og hefur hug á að setja upp eina sýningu með verkum þessara ungu listamanna. Það mætti halda að þetta listaverkabrask þitt væri fullt starf, eða hvað? „Já, það er það,“ segir hann og brosir. „En ég hef ennþá áhuga á læknisfræði líka. Ég var úti í tuttugu ár og hlakkaði alltaf til að fara í vinnuna á hverjum morgni. Ég get ekki sleppt því. En ég mun minnka það mikið. Ég er sátt- ur við það en ég sakna þess. Þetta var frábær staður og frábært fólk og þetta er topp- fyrirtæki sem ég var með. Auðvitað var erfitt að yfirgefa það, þá var grátur! Ég ætla að fara út í maí og þá verður kveðjupartí. En ég er Ís- lendingur og börnin mín eru hérna og maður verður stundum að breyta til.“ Spjallið fer um víðan völl og við sökkvum okkur ofan í einstaka myndlistarmenn og rýn- um í verkin á veggjunum heima hjá Skúla í Garðabænum. Þar hanga verk eftir Kjarval, Kristján Davíðsson, Eggert Pétursson, Sigurð Árna Sigurðsson, Hallgrím Helgason og marga aðra yngri og minna þekkta listamenn. Af nógu er að taka og við gleymum okkur um stund. En það er fleira en myndlist sem liggur hjartalækninum á hjarta. Vantar samkeppni og eftirlit Hann vill tala um heilbrigðiskerfið okkar. Og hef- ur sterkar skoðanir á því eftir áratugi erlendis. „Umræðan er komin út og suður. Það er engin skynsemi í henni, því miður, og það er vitlaust gefið. Ég kem úr bandarísku heil- brigðiskerfi, sem oft er talað um að sé hið ósanngjarnasta í heimi og talað um að þeir fá- tæku fái enga þjónustu, sem er alrangt. Ef þú ert fátækur í Bandaríkjunum hefurðu það miklu betra „heilbrigðislega“ séð en hér á landi. Ég veit það af því ég hef verið þar,“ seg- ir Skúli og útskýrir hvað hann meinar með að það sé „vitlaust gefið“. „Á Landspítalanum snýst allt um það í rauninni að gera sem minnst; spítalinn er á föstum fjárlögum þannig að hann má ekki fara yfir þau. En úti í bæ er þetta akkúrat öf- ugt; því meira sem þú gerir, því betra. Þessi kerfi eiga að vera í samkeppni og eru þannig víða um heim, en hér gerir annað kerfið sem minnst en hitt sem mest. Spítalinn þarf líka að fá meira fjármagn til að gera meira; núna er engin hvatning til að gera sem mest,“ út- skýrir hann. „Við erum með kerfi þar sem er einka- rekstur og það er mjög gott og þjónustan er bæði góð og ódýr og borgar sig ábyggilega. En hún er eftirlitslaus. Og það er vanda- málið. Það er ekkert eftirlit með því sem ver- ið er að gera; það er verið að gera aðgerðir og ríkið borgar. Þetta er ekki læknum að kenna, heldur ríkinu að vera ekki með eft- irlitskerfi og býður upp á misnotkun. Þetta er ekki hægt í Bandaríkjunum, ég gat ekki gert neina aðgerð eða rannsókn án þess að spyrja fyrst. Það er augljóst að verið er að gera aðgerðir úti í bæ sem á ekki að vera að gera. Landlæknir á að vera með eftirlit. Eins og þegar silikonpúðarnir voru farnir að leka voru ekki til neinar upplýsingar neins staðar. Þetta er meingallað kerfi. Við verðum að vita hvað við erum að gera. Og fyrir vikið er tor- tryggni,“ segir Skúli. „Vinstriflokkarnir hafa ýmislegt til síns máls þarna. Kerfið í dag býður upp á mis- notkun. En það er hægt að laga þetta. Það þarf að samstilla þessi kerfi þannig að þau vinni saman, á jafnréttisgrundvelli en í sam- keppni. Það þarf að koma á sátt á milli kerf- anna því á endanum borgar ríkið þetta allt saman. Og við eyðum tortryggni með því að hafa eftirlit. Stefnuleysið í heilbrigðismálum hér heima er mikið og einkennist oft af til- viljanakenndum ákvörðunum. Það þarf að fá þá bestu í faginu til að skipuleggja þetta frá grunni. Það tekur ekki langan tíma, kannski svona þrjár vikur. Það yrði mikil framför. Það þarf að ákveða hver gerir hvað og hvert skuli haldið svo nýta megi þessa miklu fjár- muni betur en gert er í dag.“ Aftur gleymum við tímanum og leysum nán- ast vandamál heilbrigðiskerfisins í stofunni hans Skúla, a.m.k. í orði. En það er kominn tími til að kveðja en fyrst þarf ég að heyra um framtíðarplön hjá þessum kraftmikla manni sem virðist eiga til fleiri klukkutíma í sólar- hringnum en við hin. Nýtir hvern dag til að læra meira Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina? „Ég ætla að halda áfram að byggja upp safn mitt og vera þátttakandi í að koma því á fram- færi í útlöndum. Draumur minn er að opna gallerí í Berlín fyrir íslenska myndlist. Ég er hálfur Þjóðverji, móðir mín er alin upp í Berlín og ég var þarna mikið sem krakki og þekki borgina út og inn,“ segir hann. „Ég ætla að hrærast meira í listinni og vinna að einhverju leyti við læknisfræði eins lengi og ég get og njóta þess að vera Íslendingur. Það er hvergi betra að búa en á Íslandi. Þetta er ekki hættu- laus heimur þarna úti,“ segir Skúli og segist vera kominn með 95% orku á ný. Nú er hann á fullu að koma sér fyrir aftur á Íslandi en til dæmis þurfti hann að stofna heimabanka, nokkuð sem ekki var til þegar hann fór út fyrir tuttugu árum. Hann er ekki sami maður og hann var þá og ekki sami maður og hann var fyrir einu ári. „Ef ég hefði ekki fengið meðhöndlun væri ég kominn í gröfina. Nú er ég fullur af orku. Mín lífsspeki er í raun að ég vil læra eitthvað nýtt hvern einasta dag. Og ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir að hafa lifað þetta af, sem var alls ekkert gefið. Ég er breyttur maður og vonandi betri. Ég lærði að meta lífið betur og ég nýti tímann betur. Hver dagur er í rauninni bónus.“ „Ég vildi ekki hafa þetta fórnarlambsviðtal. Ég hef ekki áhuga á því, enda er ég ekki fórnarlamb, ég er sigurvegari. Ég lít þannig á það að ég sé heppinn og er geysilega þakklátur. Það þýðir ekkert að vorkenna sér. Ef ég fæ þetta aftur hef ég þó alltaf fengið þennan bónus,“ segir Skúli.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.