Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.04.2018, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.04.2018, Blaðsíða 17
8.4. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17 Systir hans er Sunna Elvira Þorkelsdóttir sem lamaðist í kjölfar falls á Spáni en mál hennar hefur fengið mikla athygli í fjölmiðlum þar sem Sunna fékk í fyrstu ekki viðeigandi lækn- isaðstoð og var sett í farbann. „Ég held ég sé ekki alveg endilega búinn að meðtaka þetta því ég er ekki búinn að hitta hana. Mér finnst þetta svo ótrúlegt, hreinlega ótrúverðugt. Þetta er rosalega erfitt og þetta var líka svo erfitt því hún var við svo erfiðar aðstæður. Ég upplifði mín áföll upp á nýtt. Þetta var mjög erfitt fyrir mig,“ segir Rúnar og segir erfitt að einhver svona nákominn lendi í slysi og svona erfiðum aðstæðum eins og hún var í. „Það blossaði allt upp hjá mér. Allir mínir erfiðleikar. Síðastliðin fimmtán ár, öll sár og öll rúmlega.“ Sem réttindabaráttumanni blöskraði honum hvernig farið var með systur hans. „Það sem ég sá strax var að þetta voru óviðunandi að- stæður. Ég þekki svo vel hvað þarf til og það var þetta sem tók mest á mig og mér fannst erfiðast. Ætli það hafi ekki verið svona fjórir dagar sem ég var bara grátandi úti um allan bæ. En svo fór ég aðeins að róast þegar þær mæðgurnar voru farnar að læra inn á þetta,“ segir hann en Sunna og Rúnar eru hálfsystkini og eiga sama föður. Sérðu ekki fyrir þér að þú getir gefið henni góð ráð inn í framtíðina? „Ég held að þau hafi reynst ágætlega nú þegar,“ segir hann um ráð- leggingar sínar. „Þótt maður sé búinn að tala við hana og sjá myndir þá er þetta eitthvað svo ótrúverðugt finnst mér. Við vitum svo sem alveg mænu- skaddaðir hvað þetta leggst hart á fjölskyldur að horfa upp á svona,“ segir hann en mikið andlegt álag fylgir því að lamast í slysi eða horfa upp á náinn fjölskyldumeðlim slasast á þennan hátt. „Í raun og veru tók það mig átta, tíu ár að komast í jafnvægi aftur. Það kannski fylgdi þjónustunni; kannski hefði ég komist fyrr af stað hefði ég haft betri þjónustu fyrr,“ segir hann en það er ekki mikil andleg upplyfting sem fylgir því að liggja í sjónvarpi eða tölvu í einangrun heima eins og var hjá Rúnari í fyrstu. Sunna er bráðum á leiðinni til Íslands og er Rúnar feginn því. „Mér skilst að hún komi um 10. apríl ef allt stenst en það hefur hingað til ekki allt staðist.“ Hvernig líður henni núna? „Það er bara allt annað eftir að hún komst á viðeigandi stað og í viðeigandi hendur þar sem fólk veit hvað það er að gera. Þetta varð allt annað líf strax og það var komið í lag,“ segir hann og bætir við að nú þurfi að einbeita sér að því að halda áfram. Þú hefur veitt henni stuðning og ætlar að halda því áfram? „Jájá, það er ekkert annað í boði. Ég verð uppáþrengjandi. Það er bara þannig,“ segir hann. „Eftir svona áföll er ágætt fyrir fólk að gefa sér góðan tíma. Við höfum séð hjá mörgum að það tekur eitt til tvö ár eða jafnvel lengri tíma, fimm til tíu ár, til að koma sér í jafnvægi aftur. Maður er ekki endilega að fara að gera það sama aftur og maður var í áður. Þetta er viss endurfæðing. Maður þarf að læra að fúnkera upp á nýtt og finna hvað maður vill gera og hefur áhuga á og líka hvað maður hefur getuna í að gera, að þetta fari allt saman.“ Hvað gerðir þú áður en þú endurfæddist? „Ég fór strax eftir grunnskóla í Fjölbrauta- skóla Norðurlands vestra og kláraði grunn- deild rafiðna. Svo hafði ég ekki áhuga á að halda áfram með rafvirkjann af því að þá hefði ég þurft að flytja suður þannig að ég fór bara að vinna og endaði með því að vinna í skreiðarverkun. Ég var búinn að vinna þar í um þrjú ár þegar ég lenti í slysinu. Mér fannst gott að vinna þar og fannst það mjög skemmtilegt starf og sá svosem ekki neina ástæðu til að fara í eitthvert annað starf. Ég hafði það bara ágætt. Ég hafði hug á að verða verkstjóri, það var langtímaplanið mitt,“ seg- ir Rúnar. Móðir hans, fósturpabbi og systkini búa á Sauðárkróki en hann á líka fjölskyldu á Akureyri. Sunna systir hans ólst hins vegar upp í Reykjavík. „Hún bjó í Reykjavík og við hitt- umst mikið þegar við vorum krakkar og vorum frekar náin þá. Svo fórum við aðeins að fjar- lægjast þegar við urðum eldri,“ segir Rúnar, sem er fimm árum eldri en Sunna. „Pabbi flutti til Spánar og þá misstum við tengiliðinn.“ 200% vinna Eins og áður segir er Rúnar í miklu félags- starfi og starfar með ÖBÍ, Pírötum, SEM og NPA. Þetta hljómar eins og fullt starf. „Nei, ég myndi segja svona 200%,“ segir Rúnar og hlær en dagar hans eru jafnan þétt- bókaðir. Hann segir að dæmigerður dagur sé með fundahöldum sem standi stundum fram á kvöld þannig að það komi fyrir að hann sé að í ellefu klukkustundir eða svo, eins og t.d. dag- inn sem hann hitti blaðamann. „Svona eru flestir dagar búnir að vera hjá mér í vor, að minnsta kosti frá hádegi, ef ekki klukkan tíu, og fram á kvöld. Ég myndi segja að ég væri allavega í svona 150% vinnu í öllu þessu sem ég er að gera. Þar að auki segir læknirinn minn á Grensás að það sé 50% starf að vera mænuskaddaður þannig að við segjum 200%.“ Ertu í þjálfun núna? „Ég hef ekkert verið í sjúkraþjálfun í meira en tíu ár eða síðan ég út- skrifaðist af Grensás. Ég finn ekki hjá mér tíma og líka langar mig ekki að borga fyrir þetta. Ég fæ svosem aðstoðarmenn mína til að hreyfa á mér ökklana annað slagið og aðstoða mig við að teygja mig og hreyfa á mér hend- urnar þegar mér verður mjög illt. Ég var í nokkur ár í líkamsrækt fyrir mænuskaddaða en svo var prógrammið hjá mér orðið þannig að ég átti erfitt með að skipuleggja mig í kringum það með fundahöld svo ég hætti bara. En ég er mjög virkur og hreyfi mig mikið. Það er ekki eins og ég geri ekki neitt.“ Systir Rúnars er Sunna Elvira Þorkelsdóttir sem lamaðist í kjölfar falls á Spáni en mál hennar hefur fengið mikla athygli í fjölmiðlum. Rúnari brá að vonum mjög við fréttirnar og endurlifði eigið áfall. Rúnar er með vefsíðuna Plantan.is þar sem hann fræðir fólk um inni- ræktun en hann ræktar m.a. sítrónur á svölunum heima hjá sér. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.