Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.04.2018, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.04.2018, Blaðsíða 19
8.4. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19 ár á Kolbeinsá flutti ég til Reykjavíkur.“ – Hvað kom til? „Það kom ekki til af góðu. Ég fékk heila- himnubólgu og átti að drepast en gerði ekki. Ég var lengi að ná mér eftir þau veikindi og treysti mér ekki til að halda búskap áfram. Við komuna til Reykjavíkur 1956 byrjaði ég að vinna hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, sem sölumaður í Gefjun. Seldi karlmannsföt. Síðar ferðaðist ég vítt og breitt um landið og seldi. Það gekk ágætlega. Ég seldi líka allar iðnaðarvörurnar frá Akureyri sem nutu mik- illa vinsælda. Úrvalsvörur margt af því en núna er það allt útdautt.“ Mikil viðbrigði – Hvernig var að flytja til Reykjavíkur? Hafð- irðu yfir höfuð komið þangað áður? „Já, örsjaldan. Það voru ansi mikil viðbrigði að koma til Reykjavíkur en ég átti ekki annars kost; varð að finna ráð til að halda heimilinu. Börnin voru orðin sex á þessum tíma. Við eig- inkona mín heitin, Kristín Hannesdóttir, eign- uðumst ekki fleiri börn eftir það. Fjögur þeirra eru enn á lífi. Mér fannst Reykjavík í sjálfu sér ágæt; það var alltaf nóg að gera og ég man ekki eftir atvinnuleysi.“ – Finnst þér borgin hafa breyst mikið gegn- um tíðina? „Já, ansi mikið. Það þarf ekki annað en að líta í kringum sig á allar byggingarnar. Gömlu húsin eru smám saman að hverfa og stórar byggingar að rísa. Mér finnst þetta dapurleg þróun og sakna gömlu húsanna. Til allrar hamingju höfum við ennþá Grjótaþorpið. Við megum ekki láta allt þetta gamla fara; menn eru ansi frekir oft og tíð- um að rífa niður. Núna síðast þetta fína hús við Lækjargöt- una.“ – Mér skilst að þú hafir allt- af verið mikill bíladellukarl. „Það er alveg rétt. Ég hef eignast marga bíla um dagana; yfir hundrað skilst mér, lög- reglan lét mig vita af því. Samt var ég aldrei sektaður. Ég held að það sé þokkalega af sér vikið en ég hætti ekki að keyra fyrr en ég var orðinn hundrað ára. Ég var alltaf að kaupa bíla og gera þá upp, mér til ánægju og ynd- isauka. Ég seldi síðasta bílinn að verða hundr- að ára. Hann fór til kaupfélagsstjóra norður á Ströndum. Þess má líka geta að ég keyrði um tíma leigubíl, fyrst sem helgarmaður en fékk síðar atvinnuleyfi. Það var ágætt starf. Rétt fyrir 1970 byrjaði ég að keyra ráðherrana og gerði það býsna lengi, til dæmis Steingrím Her- mannsson og Þorstein Pálsson. Þorsteinn var sá seinasti.“ Náði sér eftir beinbrot – Ég sá rafskutluna þína hérna niðri. Þú notar hana ennþá. „Já, ég fer út þegar veður leyfir. Að vísu hamlar sjónin mér talsvert núorðið. Líka heyrnin. En þetta sleppur ef Kristín labbar á undan mér í hægðum sínum og vísar mér þannig veginn.“ – Er heilsan annars ágæt? „Já, sæmileg. Ég brotnaði reyndar tvisvar í fyrra og þurfti að liggja í dálítinn tíma á sjúkrahúsi en ég hef náð mér merkilega vel.“ Kristín, sem heyrir til okk- ar, bætir reyndar við að bat- inn sé nánast undraverður enda alls ekki sjálfgefið að beinbrot grói vel og örugglega þegar fólk er komið á þennan aldur. – Og þú hefur það ágætt? „Já, mér líður prýðilega. Maður á ekkert betra skilið.“ „Segðu honum líka að þú sért góður í botsía,“ gellur nú í Kristínu. „Já, botsía. Ég er nokkuð góður í því. Svo er bingó hérna í húsinu, bridds og fleira. Fyrir þá sem vilja.“ – Saknaðirðu aldrei sveitalífsins? „Jú, það gerði ég. Bætti mér það raunar upp seinna en þegar ég hætti að keyra ráð- herrana þá flutti ég inn í Fljótshlíð og setti upp bú með syni mínum. Fyrst á einni jörð og svo annarri. Ég var þar við búskap í tíu ár. Ég sá alltaf eftir búskapnum. Það var yndi mitt og eftirlæti að ég átti alltaf hesta í Reykjavík. Án þeirra gat ég helst ekki verið. Ég fór síðast á hestbak í hittifyrra.“ Fann lík af hermanni – Hvernig kom stríðið við þig og fjölskyldu þína? „Við vissum ekki mikið af stríðinu, miðað við marga aðra. Það voru að vísu nokkuð margir hermenn á Borðeyri og í Guðlaugsvík. Þeir sem voru í Guðlaugsvík voru sendir í lab- bitúra og komu stundum við í kaffi hjá mér á Kolbeinsá. Þetta voru kurteisir og indælir menn sem skildu byssurnar alltaf eftir í for- stofunni. Röðuðu þeim þar vandlega upp. Mér er minnisstætt slys rétt fyrir utan Borðeyri. Hermennirnir ætluðu þá á gúmmíbát að Reykjaskóla en hann sökk. Mig minnir að átján hafi farist en fimm hafi verið bjargað. Sjálfur fann ég síðar sjórekið lík af hermanni í fjörunni við Kolbeinsá. Hann var hálfur á kafi í þangi og hafði eflaust verið lengi í sjónum.“ – Ertu pólitískur? „Já, en ég er löngu hættur að skipta mér af pólitíkinni. Ég var settur inn í hana ellefu ára fyrir norðan. Það er saga að segja frá því. Kosningar stóðu fyrir dyrum og pabbi sálugi tók mig með sér á fund í Hrútafirði. Þegar fundarritari var að skrifa fundargerðina kom í ljós að 13 fullorðnir menn voru á fundinum. Það þótti afleitt enda 13 algjör óhappatala. Þá gall í fundarritaranum: Heyrðu, við höfum Lárus bara með. Og þar með vorum við orðnir fjórtán og ég skráður í flokkinn.“ – Hvaða flokkur var það? „Framsóknarflokkurinn og ég hef verið í honum síðan. Þeir eru samt löngu hættir að tala við mig sem flokksmann. Ég er orðinn úr- eltur.“ Stefnir illa með kirkjuna – Hvernig líst þér á ríkisstjórn Katrínar Jak- obsdóttur? „Ég vil sem minnst um stjórnina segja. Ég óska henni góðs en held hún komi til með að glíma við mörg erfið mál. Þá á stjórn margra flokka alltaf á hættu að missa fylgið.“ – Ertu trúaður? „Ég hef alltaf verið trúrækinn. Á mína trú. Mér finnst stefna illa með kirkjuna okkar og kristnina í landinu og það er grafalvarlegt mál að það skuli hafa fækkað svona í þjóðkirkj- unni. Annars kemur það svo sem ekkert á óvart, við höfum fengið hvern biskupinn eftir annan sem flækist inn í hneykslismál. Hvort sem það er verðskuldað eða óverðskuldað.“ – Hefurðu ferðast mikið til útlanda? „Nei, frekar lítið. Helst til Spánar og Dan- merkur. Ætli ég hafi ekki verið kominn ná- lægt fertugu þegar ég fór fyrst til útlanda. Það tíðkaðist bara ekki. Ég hef stundum hugs- að að gaman gæti verið að eiga íbúð í útlönd- um og vera þar hluta ársins, meðan kaldast er hér heima. En það verður varla úr þessu.“ – Hvernig líst þér á Ísland í dag? „Það er ansi ólíkt og það var þegar ég var að vaxa úr grasi. Unga fólkið í dag skilur þetta auðvitað ekki og trúir ekki að lífið hafi verið eins og það var. Það er eins og maður búi ekki lengur í sama heimi og maður ólst upp í. Mér finnst Reykjavík sérstaklega hafa breyst mik- ið. Það er eins og fólk sé á hættusvæði hérna, eins og í erlendri stórborg. Það er agaleg þró- un.“ Alla tíð verið eljusamur – Fylgistu eitthvað með unga fólkinu í dag? Íþróttum, tónlist eða slíku? „Ég fylgist með íþróttum, þó að ég sé ekki sjúkur í þær. Hef samt ekki hálf not af þessu eftir að ég missti sjónina. Ég veit að fótbolta- landsliðunum okkar gengur vel, ekki síður stelpunum en strákunum. Þær eru mjög dug- legar.“ – Jæja, við förum að segja þetta gott. Ég má þó til með að koma með eina klassíska spurningu í lokin: Hverju þakkarðu langlífið? „Þrotlausri vinnu. Ég hef alla tíð verið elju- samur og borðað hollt og gott fæði. Mikið af kjöti, fiski og grænmeti. Ég hef líka verið reglumaður. Ég smakkaði að vísu áfengi þeg- ar ég var ungur en ekki til að tala um. Og ég gat aldrei lært að reykja, sama hvað ég reyndi. Það var tómt vesen á þeim tíma enda þótti enginn maður með mönnum nema hann reykti. En ég sé ekki eftir því í dag að hafa ekki byrjað.“ ’Lífið í sveitinnivar ágætt í sjálfusér, enda miklu fjöl-breyttara í þá daga. Við hjálpuðumst að og tókum hvert við af öðru eftir því sem aldur og geta leyfðu. Lárus er með ólæknandi bíladellu. Hér er hann við einn af meira en hundrað bílum sem hann hefur átt um ævina. Þegar Lárus flutti úr sveitinni á mölina var gott að hafa hestana. Hann fór seinast á hestbak 101 árs.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.