Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.06.2018, Qupperneq 17
10.6. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17
Tómas tekur undir þetta. „Það er
svo mikils virði að upplifa þessa
ósnortnu náttúru og víðáttu,“ segir
hann en félagarnir viðurkenna að
þeir verji svo að segja öllum sínum
frítíma á fjöllum eða annars staðar
úti í náttúrunni.
Eftir að hafa snúið heim úr sér-
námi um miðjan síðasta áratug
kynntust Tómas og Ólafur á vett-
vangi selskapar sem kallast FÍFL,
það er Félag íslenskra fjallalækna.
„Við fundum strax strenginn á milli
okkar enda báðir háðir víðáttunni
og kyrrðinni,“ segir Tómas. „Þess
utan uppgötvaði ég strax að mættur
var á svæðið ofjarl minn þegar kom
að ljósmyndun en ég hef alltaf haft
gaman af því að taka myndir í ferð-
um mínum á fjöll. Myndin getur
nefnilega verið ennþá sterkara vopn
en orðið.“
Stundum kallaður Balti
Ólafi líkaði strax vel að ferðast með
Tómasi. „Hann þekkir landið miklu
betur en ég sem fylgi bara með og
tek myndir. Tommi er mjög góður
leiðsögumaður.“
„Og leikstjóri,“ skýtur Tómas
kankvís inn í. „Óli kallar mig stund-
um Balta.“
Þeir hlæja.
„Svo er yfirferðin á honum nátt-
úrulega mjög mikil; maður má hafa
sig allan við til að halda í við hann.
Ég hef aldrei verið í betra formi
heldur en eftir að ég fór að elta
Tomma,“ segir Ólafur sposkur.
Annars taka þeir iðulega tillit
hvor til annars. „Það er nauðsynlegt
ætli menn að ferðast saman á fjöll-
um,“ segir Ólafur. „Við erum orðnir
eins og tvíburar; hugsum oft eins og
einn maður. Það er kúnst að ganga
saman og þegja.“
Eiginkonur þeirra, Dagný Heið-
dal og Þóra Þórisdóttir, eru líka oft
með í för ásamt syni Ólafs, Tómasi
Andra, sem er á fimmtánda ári.
„Hann smitaðist ungur af þessari
fjallabakteríu og hefur komið í
Kverkfjöll, á Hvannadalshnúk og
fleiri góða staði sem er örugglega
sjaldgæft með krakka á hans aldri,“
segir faðirinn.
Kverkfjöll eru í sérstöku uppá-
haldi hjá Tómasi, sem segir það eins
sjálfsagðan hlut í sínu lífi að fara
þangað og að borða morgunmat.
Alls hefur hann komið þangað fjöru-
tíu sinnum.
„Til að byrja með skildi ég ekki
hvers vegna Tommi vildi alltaf fara
aftur og aftur á sömu staðina en átt-
aði mig fljótt á því. Íslensk náttúra
er svo margslungin að það er aldrei
nákvæmlega eins að koma aftur á
sama staðinn,“ segir Ólafur sem
sjálfur hefur komið tíu sinnum í
Kverkfjöll.
Því fleiri, þeim mun betra
Þeir vita fátt skemmtilegra en að
ferðast með hópi fólks um hálendið
og náttúruna. Því fleiri, þeim mun
betra. „Besta náttúruverndin er að
fara með fólk út í náttúruna. Það er
til dæmis mjög sterkt að koma með
fólk að fossunum í Árneshreppi; þá
má heyra saumnál detta,“ segir
Tómas og Ólafur bætir við að alltaf
sé jafnskemmtilegt að fylgjast með
viðbrögðum fólks þegar það upplifir
víðernið og náttúruperlurnar í
fyrsta sinn. „Drifkrafturinn er að
skynja hvað fólk er snortið og
ánægt.“
Þeir taka skýrt fram að þeir séu
engir „ofurmenn“ og flestir geti
ferðast með þeim, svo lengi sem
þeir eru í þokkalegu formi. „Við
setjum okkur sem markmið að
koma öllum heilum upp og höfum
bara einu sinni þurft að hætta við í
miðjum klíðum. Það var þegar mað-
ur í hópnum fékk hjartsláttar-
óreglu,“ segir Tómas en þá kom sér
að vonum vel að vera með hjarta-
lækni á staðnum.
Innlendum ferðamönnum á há-
lendinu fjölgar jafnt og þétt og
Tómas og Ólafur fagna þessum vax-
andi áhuga á náttúru landsins.
„Ekki er langt síðan fólk keyrði inn
í botn Hvalfjarðar og tjaldaði þar í
sumarfríinu. Núna fer það mun víð-
ar og nýtur þeirra lystisemda sem
landið hefur upp á að bjóða,“ segir
Tómas.
Verða í samfloti
Ólafur og Tómas ferðast mikið um
svæði utan alfaraleiðar, með tveggja
kílógramma þungt tjald. „Það er
ekkert mál að ferðast án þess að
vera með tengivagn,“ bendir Tómas
á. „Markmiðið er að vera í sem best-
um tengslum við náttúruna og í
sumar ætlum við að prófa nýja upp-
finningu, flothettur,“ bætir hann
við, en með þeim hætti geta þeir
notið dýrðarinnar liggjandi á bakinu
í ám og vötnum. „Við verðum í sam-
floti í orðsins fyllstu merkingu en
hermt er að maður finni þetabylgjur
þegar maður kemst í þetta ástand,“
segir Tómas.
Eins og gefur að skilja stjórnar
veðrið oftar en ekki för. „Við gerum
plön en náum ekki alltaf að fylgja
þeim eftir. Stundum þarf maður
bara að elta veðrið,“ segir Tómas
sem vanur er að fara á Öræfajökul í
maí. Að þessu sinni komst hann ekki
þangað vegna veðurs; í fyrsta skipti
í fjórtán ár. „Það er til marks um
það hversu leiðinlegt veðrið var í
maí. Vonandi verður sumarið
betra!“
Þeir ljúka máli sínu með því að
benda á að það séu mikil forréttindi
að geta ferðast um landið sitt og
notið perlanna sem það hefur upp á
að bjóða. „Maður og náttúra eru
eitt,“ segir Ólafur, „og við höfum
rétt á því að rækta það samband.“
Dæmigerð mynd fyrir félagana;
Tómas vísar veginn en Ólafur
fylgir á eftir með myndavélina.
Við Hvalá í Árneshreppi.
„Maður og náttúra eru eitt,“
segir Ólafur Már Björnsson.