Morgunblaðið - Sunnudagur - 15.07.2018, Qupperneq 19
15.7. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19
Fjóla Magnúsdóttir tekur hlýlega á móti sendinefndSunnudagsblaðsins í verslun sinni enda þótt viðhefðum getað sótt betur að henni. Hún er nefni-
lega að jafna sig eftir inflúensu.
„En þú lítur vel út,“ flýtir Árni Sæberg sér að segja.
„Já, elsku Árni minn, ég sparslaði í morgun. Vissi að þið
væruð að koma.“
Greinilega stutt í húmorinn á þessum bænum.
Fjóla er fædd árið 1934 en fer svo sannarlega fínt með
það. Ég þarf raunar að láta segja mér þetta tvisvar, eins
og maðurinn forðum. Hún er létt í spori og ennþá léttari í
lund. „Sjái maður ekki spaugilegu hliðarnar á tilverunni
getur maður alveg eins sleppt því að vera til,“ fullyrðir
hún kankvís. „Annars verðurðu að tala svolítið skýrt,
elskan; ég er nefnilega búin að týna heyrnartækjunum.“
Hún brosir.
Hver sagan rekur aðra og til að hnykkja á máli sínu
grípur Fjóla annað veifið í handlegginn á mér. Maður átt-
ar sig undir eins á því að hér er ósvikin týpa á ferðinni.
Rýmingarsala stendur yfir þessa dagana í Antikhúsinu
við Skólavörðustíg enda er Fjóla að flytja starfsemina
aftur í Þverholt 7, þar sem hún byrjaði fyrir réttum þrjá-
tíu árum. Af því tilefni vitnar hún í Stein Steinarr:
Ég geng í hring
í kringum allt sem er.
Og innan þessa hrings
er veröld þín.
Opnun Antikhússins átti sér langan aðdraganda. Fjóla
ferðaðist mikið til Danmerkur með eiginmanni sínum sál-
uga, Ólafi Steinari Valdimarssyni, ráðuneytisstjóra í
samgönguráðuneytinu, og vissi fátt skemmtilegra en að
skoða antík og kíkja á uppboð í þeim ferðum. „Ég lét mig
dreyma um að opna mína eigin verslun og var orðin
býsna heit 1974. Þá opnaði ég verslun með vinkonu minni
Þórunni Magneu Magnúsdóttur leikkonu, en það var
ekki grundvöllur fyrir því í lengri tíma, þar sem ég var í
fullri vinnu með fjögur börn, svo að ég ákvað að fresta
verslunarrekstri. Annars var svo sem ekki mikið fyrir
þessum börnum að hafa; þau hafa öll spjarað sig vel;
Magnús, Kristín, Steinunn og Ingi Þór, og barnabörnin
eru 9. Börn og barnabörn hafa sest að um allan heim. En
maður hleypur ekki frá góðri vinnu, ég vann í lögfræði-
deildinni í Búnaðarbankanum. Þess utan vorum við að
byggja á þessum tíma og ég hafði nóg að gera við að
skafa og naglhreinsa timbur og raða eftir lengdum.“
Það var svo árið 1988 að Fjóla lét slag standa; sagði
upp í bankanum og opnaði Antikhúsið. „Það var auðvitað
ekki í lagi; hlýtur að hafa verið ofvirkni eða eitthvað það-
an af verra. Bankinn var yndislegur vinnustaður, við vor-
um eins og ein stór fjölskylda.“
Antikhúsið er opið frá kl. 12 til 18 virka daga og frá kl.
12 til 16 á laugardögum og Fjóla stendur jafnan sjálf
vaktina. Ein og óstudd. Þurfi hún að bregða sér frá þá
hefur hún fengið aðstoð. „Meðan ég var og hét var ég
stundum fram á rauðanótt hérna í búðinni en það er liðin
tíð. Núna nægja mér þessir sex tímar og stundum stelst
ég meira að segja til að loka fyrr, til dæmis út af fótbolt-
anum í sumar. Annars er það svo sem ekkert að standa í
búðinni; hitt sem fylgir svona rekstri er meira mál. Að
kaupa inn, tæma og hreinsa gáma, koma hlutum í viðgerð
og svo framvegis. Það hefur verið yndislegt að vera hér á
Skólavörðustígnum. Samskiptin við nágranna og aðra
verslunareigendur hafa verið mikil og einstök, en við sem
höfum verið lengi erum smám saman að hverfa héðan af
stígnum. Það er allt opið, hvað tekur við af mér.“
Hún segir áhuga á antík almennt minni nú en áður en
engin ástæða sé þó til að örvænta. „Þetta kemur alltaf
aftur. Það jafnast nefnilega ekkert á við að hafa karakter
á heimilinu.“
Það leggst ljómandi vel í Fjólu að flytja aftur í Þver-
holtið. „Það hefur mikið breyst á þeim slóðum frá því ég
flutti, ekki síst á Hlemmi. Annars hafði ég aldrei ónot af
körlunum þar; gaukaði að þeim einum og einum þúsund-
kalli og þeir hjálpuðu mér að halda undir mublur í stað-
inn. Það verður rólegra hjá mér í Þverholtinu enda er
ekki eins mikil traffík þar og hérna á Skólavörðustígnum.
Það er ágætt, þá get ég frekar lokað ef þannig liggur á
mér. Hver veit svo nema ég breyti búðinni bara í kaffihús
og fari að spá í spil og strekkja dúka; eins og sagði í aug-
lýsingu sem ég sá á Njálsgötunni á stríðsárunum. Eða
var það á Grettisgötunni?“
Spurð hvað hún geri ráð fyrir að hafa búðina opna
lengi til viðbótar svarar Fjóla: „Ég læt það bara ráðast.
Maður þarf að klára þennan pakka. Ætli ég verði svo
ekki bara stoppuð upp á Hlemmi!“
Fjóla í dyragættinni í Antik-
húsinu á Skólavörðustíg.
Hendur Fjólu hafa unnið verk
eða tvö gegnum tíðina.
Fjóla hefur haft dálæti á gömlum og fallegum munum frá blautu barnsbeini.
Þau eru ófá handtökin í búðinni; hér fægir Fjóla silfrið, einu sinni sem oftar.
Verð svo bara stoppuð
upp á Hlemmi
Komin á níræðisaldur stendur Fjóla Magnúsdóttir vakt-
ina daglega í Antikhúsinu við Skólavörðustíg og býr sig
nú undir að flytja aftur í Þverholtið, þar sem hún opnaði
búðina fyrst árið 1988. Hún segir áhuga á antík minni en
áður var en engin ástæða sé þó til að örvænta, áhuginn
komi aftur enda jafnist ekkert á við heimili með karakter.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Ljósmyndir
ÁRNI SÆBERG