Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.07.2018, Síða 19
22.7. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19
myndi ekki segja að ég sé sérfræðingur á því
svæði, ekki frekar en í Laxamýri, þótt ég
kunni að bera mig að á þessum svæðum og
þekki suma veiðistaði betur en aðra. Ennþá
botna ég þó ekkert í sumum veiðistöðum eins
og hvernig eigi að veiða í Höfðahyl að austan.
Ég næ engu sambandi við hann, sama hversu
oft ég spyr sérfræðingana ráða. Enda hef ég
aldrei sett í fisk þar. Svo hef ég strax náð sam-
bandi við aðra, eins og Núpafossbrún. En ég
þekki þetta svæði hér vel. Þetta er heimasvæð-
ið mitt,“ segir hann og leggur fluguna út á
strenginn með löngu kasti.
– Fékkstu maríulaxinn hér heima?
„Eiginlega, við Suðurhólma, þarna hinu-
megin við ána,“ svarar hann, hlær og bendir
yfir að Hólmavaðsbænum handan ár. „Ég var
á stöng á móti Þorvaldi skipamiðlara frá
Syðra-Fjalli og Elvari Aðalsteinssyni og við
vorum með báða bakka, Hólmavað og Haga,
og veiddum í þrjá tíma á hvorum. Það var bara
tilviljun að ég setti í fyrsta laxinn hinumegin.“
– Var það stór lax?
„Mér fannst hann stórkostlegur. En það var
smálax og tók í helvítis rigningu og roki og
karlarnir sátu inni í bíl, horfðu á mig glíma við
hann og datt ekki í hug að koma út að hjálpa.
Ég var með flugu sem ég hafði hnýtt sjálfur
fyrir veiðina, byrjandi í því líka, þannig að
ánægjan var margföld.“
– Laxá er fræg fyrir stórlaxa. Hefurðu náð
einhverjum mjög stórum?
„Ekki mörgum. Ég hef fengið svona tíu sem
voru 90 cm og stærri en engan yfir 100 cm. Sá
stærsti var 98 cm. Ég er ekki kominn í meters-
klúbbinn í Laxá.“ Þorri brosir en hann er kom-
inn í þann klúbb annars staðar, veiddi 102 cm
hæng í Miðfjarðará.
„Þann 98 cm fékk ég á Fossbrúninni að
austan,“ segir hann og ég veit að það hefur
ekki verið auðvelt, þar er kastað utan í bergi
og örlítil pallur fyrir neðan til að taka laxinn –
ef hann nær ekki að steypa sér niður fossinn
en það er ávísun á meiriháttar vandræði.
„Ég var einn að veiða og sem betur fer fór
laxinn ekki niður fossinn. Bóndasonurinn í Ár-
bót kom blessunarlega að þar sem ég var að
velta fyrir mér hvernig ég ætti að fara að; ég
var búinn að þreyta laxinn vel og maðurinn
hélt stönginni meðan ég fór niður og náði fisk-
inum, sem var nýgenginn og flottur hængur.
Ég mældi laxinn og sem betur fer er til sönn-
unargagn því maðurinn var kominn með síma
með myndavél, tók mynd og sendi mér hana.
En ég hef sett í stærri lax hér – og sá var vel
yfir eins metra langur. Og tók þarna niður frá,
sjáðu, þar sem straumurinn beygir til vest-
urs,“ segir hann og bendir.
– Er það ekki rétt að sá lax hafi tekið flugu
sem Orri heitinn Vigfússon hafði gefið þér,
fluguna Popham, með þeim orðum að Karl
Bretaprins hefði gefið honum hana?
„Jú, og hann sagði að það væri uppáhalds-
fluga prinsins. Þetta kvöld setti ég hana undir
– og fiskurinn sem tók var eðalborinn! Hann
var rosalegur. Sem betur fer var ég lengi með
hann á og þótt ég hafi verið aleinn get ég full-
yrt að hann hafi verið talsvert stærri en 102
cm laxinn sem ég hef landað. Hann sýndi sig
margoft, stökk og hreinsaði sig alveg tvisvar.
En hann losaði sig og slapp – og Popham-
fluga prinsins var í henglum svo ég hef ekki
getað notað hana síðan.“
– Reyndirðu aftur við þennan stórlax?
„Ég gat veitt aftur hér tæpum þremur vik-
um seinna. Í gríni hugsaði ég með mér að nú
reyndi ég aftur við þann stóra – veiðimenn vita
að þeir setja ekki tvisvar í svona fisk – en þeg-
ar ég kastaði á nákvæmlega sama blettinn
kom þung og mikil taka og ég var um stund
viss um að ég hefði sett aftur í höfðingjann. En
ég náði þeim fiski og það var 88 cm hrygna,
konan hans – eða ein úr kvennabúrinu.“
Rennslinu niður með Hagabökkum er að
ljúka og ég hef á orði að við stöndum úti í á en
séum samt í myndheimi Þorra.
„Nákvæmlega. Héðan er lunginn af þeim
verkum sem ég hef gert síðan 1998, í tuttugu
ár. Ég hef oft sagt að ég hafi áhuga á real-
ískum náttúrumyndum en ekki endilega fræg-
um íslenskum stöðum. Þetta hér dugar mér –
Hagi hefur dugað tveimur kynslóðum mynd-
listarmanna og það er einhver fegurð í því.“
Rákumst víða á laxa
Á næstu vöktum áttum við Þorri eftir að
reyna fyrir okkur á fleiri góðum svæðum við
Laxá, eins og við Brúarhyljina þar sem laxar
af ýmsum stærðum voru sýnilega að koma sér
fyrir. Og svo áttum við aftur vakt neðan Æð-
arfossa og urðum enn meira varir en í fyrra
skiptið. Og það voru sprækir smálaxar, við
fengum tökur á nokkrum stöðum og glímdum
við eina þrjá; smálaxinn var að ganga og þau
tíðindi glöddu veiðimenn upp með ánni sem
höfðu samband að spyrja fregna af göngum
neðan fossa.
Og Þorri var ekki hættur í þessari veiðitörn.
Með lagni sinni og þekkingu á veiðistöðunum
að vopni – og flugurnar Nighthawk og Blue
Doctor – tókst honum ásamt mági sínum að
landa þremur löxum til á síðustu vöktunum;
90, 83 og 62 cm löngum. Myndlistarmaðurinn
þekkir ána sína.
Stór silfurbjört hrygna hefur tekið flugu Þorra í Sjávarholu, neðst í Laxá, steypir sér niður úr hylnum og veiðimaðurinn eltir.
Morgunblaðið/Einar Falur
Eftir glímuna við nýgengna, bjarta hrygnuna neðan Kistukvíslar hefur Þorri náð yfirhöndinni og náð með lagni að draga hana að sér.