Morgunblaðið - 02.08.2018, Blaðsíða 4
4 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. ÁGÚST 2018FRÉTTIR
SVEIGJANLEGOGLIPUR
INNHEIMTUÞJÓNUSTA
Hafðu samband, við leysum málin með þér!
Laugavegur 182, 105 Rvk. | Sími: 510 7700 | momentum@momentum.is
Bergþóra Guðnadóttir og Jóel Páls-
son voru framsýn þegar þau opnuðu
verslun og hönnunarfyrirtæki úti á
Granda fyrir röskum áratug. Síðan
þá hefur svæðið tekið stakkaskipt-
um, iðar núna af mannlífi og rekstur
þessa merkilega fyrirtækis blómstr-
ar.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í
rekstrinum þessi misserin?
Þegar við stofnuðum Farmers
Market árið 2005 lögðum við upp
með nokkuð fastmótaða stefnu sem
að stórum hluta snýst um sjálfbærni
og samfélagslega ábyrgð. Við
vinnum aðallega úr náttúrulegum
og endurvinnanlegum hráefnum og
ólíkt flestum fyrirtækjum í brans-
anum hugsum við ekki um heilar
„línur“ sem enda svo yfirleitt á út-
sölu eða er jafnvel fargað í lok tíma-
bilsins, heldur bætum rólega við og
tökum út eftir aðstæðum hverju
sinni. Við leggjum áherslu á að
vinna með bestu mögulegu fram-
leiðendum, bæði innlendum og er-
lendum, sem eru í fararbroddi hvað
varðar samfélagslega ábyrgð. Þetta
á bæði við um hráefnisframleiðsluna
og fataframleiðsluna sjálfa. Að
halda þessari stefnu til streitu getur
verið áskorun í umhverfi sem snýst
mikið um verð og samkeppni. En við
höfum alltaf sniðið okkur stakk eftir
vexti svo þetta gengur allt ljómandi
vel.
Hverjir hafa haft mest áhrif á
hvernig þú starfar?
Það eru ýmsar fyrirmyndir sem
hafa haft áhrif á mig. Til dæmis
finnst mér Björk Guðmundsdóttir
frábær listamaður og hugsuður.
Hún hefur haldið sínu striki allan
sinn langa feril og tekið slaginn fyrir
þau mál sem henni finnast aðkall-
andi hverju sinni og svo dregið sig í
hlé þegar hún þarf á því að halda
eða henni finnst hún hafa náð að
koma sínu á framfæri. Hún er ein af
þeim sem er stöðugt að þróa sig,
sem listamaður og aktivisti, og kem-
ur mér sífellt á óvart.
Hver myndi leika þig í kvikmynd
um líf þitt og afrek?
Brynhildur Guðjónsdóttir. Fyrst
hún gat leikið Njál hlýtur hún að
fara létt með Bergþóru!
Hvernig heldurðu þekkingu þinni
við?
Ég læri mest þegar ég er inni á
gólfi hjá sauma- og prjónastofum
sem við erum í samstarfi við. Mér
líður best í því umhverfi þar sem ég
get haft puttana í öllu ferlinu. Þar
er ég í nánu samstarfi við tæknifólk
sem er tilbúið að gera endalausar
tilraunir með mér. Svo fylgist ég
auðvitað vel með því sem er að ger-
ast í tísku- og hönnunarheiminum
og hef mikinn áhuga á því að velta
fyrir mér hvert heimurinn er að
stefna.
Hugsarðu vel um líkamann?
Ég mætti vera duglegri við það
en synir mínir hafa dregið mig með
í golf undanfarið og þó að það sé
vægast sagt mjög krefjandi sport
þá held ég að það gæti orðið eitt-
hvað sem ég gæti ánetjast. Þessi
útivera og einbeiting veitir mér
mikla slökun.
Hvað myndirðu læra ef þú fengir
að bæta við þig nýrri gráðu?
Ætli ég myndi ekki fara í kokk-
inn, mér þykir nefnilega mjög gam-
an að elda mat. Að vinna með brögð,
liti og áferðir í mat er að mínu mati
ekki ólíkt því að vinna við hönnun
og textíl þar sem ég er stanslaust að
para saman hráefni, liti og áferðir
til að búa til girnilega útkomu og
heild.
Hvaða kosti og galla sérðu
við rekstrarumhverfið?
Ég held að fólk almennt átti sig
ekki á því hvað gjaldmiðillinn okkar
er flókið fyrirbæri. Að vera með
fyrirtæki sem vinnur í alþjóðlegu
umhverfi og hafa gjaldmiðil sem er
svona mikið ólíkindatól getur verið
krefjandi. Einnig eru tollamál enda-
laus höfuðverkur fyrir hönnunar-
fyrirtæki.
Hvað gerirðu til að fá orku
og innblástur í starfi?
Ég reyni að ferðast með fjöl-
skyldu minni bæði hér heima og er-
lendis. Þar sem starf mitt er svo ná-
tengt áhugamálum mínum þá er
innblástur fyrir mig svolítið fólginn
í því að fá frið fyrir starfinu og ná að
kúpla mig út. Svo finnst mér
Reykjavík orðin svo skemmtileg
borg að stundum nægir mér bara að
fá mér göngutúr niður í miðbæ, setj-
ast inn á einn af fjölmörgum kaffi-
og veitingastöðum og fylgjast með
mannlífinu sem hefur aldrei verið
fjölbreyttara og skemmtilegra.
Hvaða lögum myndirðu breyta
ef þú værir einráður í einn dag?
Það væru sennilega lög sem
tengdust umhverfismálum, en með
nýja umhverfisráðherrann okkar
veit ég að náttúran er í góðum hönd-
um.
SVIPMYND Bergþóra Guðnadóttir hönnuður og annar eigenda Farmers Market – Iceland
Tollamál höfuð-
verkur fyrir hönn-
unarfyrirtæki
Morgunblaðið/Hari
„Að vera með fyrirtæki sem vinnur í alþjóðlegu umhverfi og hafa gjaldmiðil
sem er svona mikið ólíkindatól getur verið krefjandi,“ segir Bergþóra.
STOFUSTÁSSIÐ
Ef það er eitthvað sem blaðamenn
ViðskiptaMoggans eiga erfitt með
að standast, þá eru það svakalega
dýrar og fínar útfærslur á hvers-
dagslegum hlutum. Borðtennis-
spaðarnir frá bandaríska skart-
gripaframleiðandanum Tiffany &
Co falla svo sannarlega í þann
flokk.
Ekki þarf að kynna Tiffany‘s
fyrir lesendum enda rösklega 180
ára gamalt fyrirtæki sem er löngu
orðið eitt af þekktustu vörumerkj-
um heims. Margir geta ekki sleppt
því, þegar farið er til New York, að
heimsækja aðalverslun fyrirtæk-
isins á fimmta breiðstræti, og jafn-
vel narta í bakkelsi og drekka kaffi
úr pappamáli á meðan mænt er á
skartgripina í gluggunum, líkt og
Audrey Hepburn gerði í kvikmynd-
inni frægu.
Tiffany & Co gerir ekki bara
fallega skartgripi, heldur líka alls
kyns fína muni fyrir heimilið, eins
og þessa forláta borðtennisspaða.
Spaðinn er gerður úr amerískum
valhnotuvið og búið að vefja hand-
fangið inn í leðuról. Báðar hliðar
spaðans eru klæddar leðri; svörtu
öðrum megin og Tiffany-bláu hin-
um megin og rétt fyrir ofan hand-
fangið er lítil skífa úr silfri með
merki skartgripaframleiðandans.
Vestanhafs kosta borðtennisspað-
arnir, tveir í pakka, 650 dali og má
því segja að vegna verðsins hafi
þeir það fram yfir venjulega borð-
tennisspaða að geta látið hjarta
kaupandans slá örar án þess að
hann þurfi að hreyfa sig. Algengt
verð á venjulegum borðtennis-
spöðum er jú ekki nema 20 dalir.
ai@mbl.is
Borðtennis-
spaði fyrir
fagurkera
FARARTÆKIÐ
Árið 2014 svipti Harley Davidson hul-
unni af nýju rafdrifnu mótorhjóli,
Project LiveWire, og sagði það vænt-
anlegt á markað ári síðar. En svo leið
og beið, og ekkert bólaði á hjólinu
fyrr en í þessari viku að upplýst var
að rafmagnshjól, sem ber einfaldlega
nafnið LiveWire, yrði fáanlegt um
mitt næsta ár.
Útlit hjólsins er nær alveg óbreytt
frá því sem mátti sjá á myndum fyrir
fjórum árum, og lítið er vitað um eig-
inleika hjólsins að því undanskildu að
það verður ekki með kúplingu og því
nóg að stýra hraðanum með því einu
að snúa upp á handfangið.
Reikna má með að íslenskir mótor-
hjólaáhugamenn muni gefa þessu bif-
hjóli gaum enda bera rafdrifin öku-
tæki engin vörugjöld hér á landi og
hugsanlegt að ekki þurfi heldur að
greiða af hjólinu virðisaukaskatt, þó
svo að sú undanþága nái strangt til
tekið aðeins yfir bíla og mótorhjól.
Eitt er þó víst; að LiveWire ætti að
vera leiftursnöggt bifhjól, enda eðli
rafdrifinna farartækja að beina kraft-
inum hratt og vel út í hjólin.
ai@mbl.is
Rafmagnaður Harley á leiðinni
NÁM: Ég er menntaður textílhönnuður frá MHÍ sem er forveri
LHÍ og útskrifaðist þaðan árið 1999.
STÖRF: Ég vann sem sjálfstætt starfandi hönnuður í um 2 ár en
í kjölfarið var ég ráðin sem annar af tveimur hönnuðum
66°Norður þar sem má segja að ég hafi tekið mína meistara-
gráðu. Þar vann ég að mjög fjölbreyttum verkefnum allt frá því
að hanna fatnað fyrir lögreglu og björgunarsveitir, börn og svo
útivistarfatnaðinn sem þeir eru kannski þekktastir fyrir. Þar var
ég í fullu starfi frá 2001- 2005 en sinnti þó áfram hönnunarverk-
efnum til 2007. Árið 2005 stofnaði ég mitt eigið hönnunarfyrir-
tæki Farmers Market - Iceland í samstarfi við eiginmann minn.
FJÖLSKYLDUHAGIR: Ég er gift Jóel Pálssyni tónlistarmanni
sem í raun leikur tveimur skjöldum, því auk starfa hans í tónlist-
inni er hann einnig framkvæmdastjóri Farmers Market. Við eig-
um tvo syni sem eru 15 og 20 ára.
HIN HLIÐIN