Morgunblaðið - 02.08.2018, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. ÁGÚST 2018 7VERSLUN
Þegar blaðamaður hafði samband
við Kormák Geirharðsson, stórkaup-
mann og annan af stofnendum
Herrafataverzlunar Kormáks og
Skjaldar, stóð hann í miðri á að
renna fyrir lax.
„Ég er að veiða í Fáskrúð í Dölum
með vinum og konum,“ segir Kor-
mákur þegar blaðamaður spyr hvar
hann sé að veiða. „Ég er nú svo ný-
kominn og ekkert búið að bíta á agn-
ið enn, en það eru einhverjir laxar
hér í kring. Ég er nú meiri golfari en
veiðimaður, þessi ferð er meiri
„wine and dine“ en veiðiferð í sjálfu
sér.“
22 ára gömul fataverslun
Spurður hvort rekstur hinnar 22
ára gömlu herrafataverslunar hafi
alltaf gengið vel segir Kormákur að
þetta sé nú meira „hobbí“ hjá þeim
félögum sem hafi enst lengi.
„Það má segja að þetta sé í raun-
inni lengsta hobbí sem við höfum
haft saman. Þetta hefur nú ekki gef-
ið af sér mikið meira en föt og annað
í þeim dúr. Við höfum verið að
byggja þetta upp og stækkað versl-
unina í Kjörgarði nokkrum sinnum.
Við höfum einnig ráðist í alls kyns
framleiðslu, og gert það án þess að
taka mikið af lánum. Við höfum leyft
þessu að sigla svolítið án utanað-
komandi fjármögnunar.“
Það dró til tíðinda á síðasta ári
þegar Herrafataverzlun Kormáks
og Skjaldar færði út kvíarnar og
opnaði verslun á Skólavörðustíg sem
sérhæfði sig í kvenfatnaði.
Þegar það er borið undir hann
hvernig reksturinn hefur gengið í
þeim enda bæjarins segir Kormákur
þetta svipað módel og þeir félagar
hafi byrjað með í hinni versluninni í
Kjörgarði.
„Þetta spyrst hægt og rólega út.
Við erum ekkert stressaðir yfir
þessu. Við eigum húsnæðið og erum
því ekki með neinn leigusala á bak-
inu á okkur. Við höfum átt þetta hús-
næði lengi og ákváðum að nota þetta
undir búð, frekar en skrifstofu undir
okkur. Upphaflega var ætlunin að
hafa þetta búð undir bæði herra- og
kvenfatnað. Síðan kom á daginn að
það þarf að þjónusta stelpurnar að-
eins betur. Þetta fór því alfarið út í
það að vera fyrir konur.“
Framkvæmdir settu
strik í reikninginn
Kormákur segir nóg að gera í
versluninni, þó svo að þeir hafi lent í
smá kreppu fyrir stuttu.
„Við lentum í kreppu á meðan á
breytingum stóð í Kjörgarði, sem
tók eitt og hálft ár. Það var allt í rúst
hér í kringum okkur á meðan fram-
kvæmdir stóðu yfir. Aðgangur fyrir
viðskiptavini okkar var fyrir neðan
allar hellur. Gipsplötur og steinull á
víð og dreif. Einnig var byrgt fyrir
gluggann og við vorum því ekki með
neina útsetningarglugga í marga
mánuði, meðal annars yfir jólatím-
ann. Það var illa staðið að mörgum
hlutum á meðan á þessum fram-
kvæmdum stóð.“
Kormákur segir að þó svo að þetta
hafi reynst erfiður tími fyrir rekstur
verslunarinnar sé hægt að horfa á
jákvæðu hliðina. „Ef maður tekur
einhverja Pollýönnu á þetta, þá er
það að við héldum sjó á meðan þetta
tímabil gekk yfir. Það kom í ljós að
við áttum dyggan stuðningshóp, sem
var kærkomið. En það bættist ekk-
ert við þennan hóp á þessu tímabili.“
Hann segir Herrafataverzlun
Kormáks og Skjaldar eiga marga
fastakúnna. „Menn vita að hverju
þeir ganga. Við framleiðum fínar
skyrtu- og jakkafatalínur sem end-
ast og eru úr góðum efnum. Það
skiptir ekki máli hvort þetta eru
skyrtur fyrir skrifstofumann eða
fyrir vinnumann í sveit. Gönguhópar
hafa til dæmis komið og keypt skyrt-
ur fyrir alls kyns útivist. Eftir að
framkvæmdum lauk í Kjörgarði
sjáum við mikinn mun á sölutölum.“
Ferðamenn ekki markhópurinn
Þegar Kormákur var spurður út í
það hvernig gengi að selja vörur til
túrista svaraði hann því að þeir
væru ekki hryggjastykkið í sölu
verlunarinnar.
„Þeir detta inn reglulega, en þeir
komu til dæmis ekki á meðan á
framkvæmdum stóð. Sumir koma út
af orðspori okkar, aðrir af því að
hótelstarfsmenn mæla með okkur
og svo eru sumir sem hafa gúgglað
okkur.“
Kormákur segir að í nýrri verslun
þeirra á Skólavörðustíg eigi ferða-
menn til að ramba inn. „Þar detta oft
inn einhverjar norskar hefðar-
dömur,“ segir Kormákur og hlær.
Samfélagsmiðlar mikilvægir
Blaðamaður hefur tekið eftir því
undanfarið að Herrafataverzlun
Kormáks og Skjaldar er orðin virk-
ari á samfélagsmiðlum á borð við
Instagram. Spurður hvort það sé
nýr veruleiki verslunarmannsins að
auglýsa sig á þessum vettvangi til að
dragast ekki aftur úr segir Kormák-
ur að það sé að miklu leyti rétt.
„Maður verður að vera svolítið
virkur á þessum miðlum. Við erum
svolítið gamaldags og það var ákveð-
ið spark að þurfa að nýta þessar leið-
ir. En þetta er síðan mjög gaman, að
prófa eitthvað nýtt og gera það vel.
Það hefði enginn trúað því að við
myndum vilja vera með tölvur og
aðra tækni í þeim dúr. Við erum svo
miklir „fornaldardúddar“. Við vild-
um helst handsnúinn peningakassa,
en síðan er svo mikil hjálp að vera
með gott tölvukerfi. Til þess að sjá
hvað er að seljast og þess háttar.“
Tvíd uppistaðan í rekstrinum
Kormákur segir að verslunin hafi
byrjað sem verslun með notaðar
vörur. Þeir hættu því fljótlega vegna
þess hve erfitt var að finna vörur
sem þeir sjálfir vildu klæðast.
„Það kom bara inn eitthvað „eit-
ís“-drasl sem var svo ljótt að við
vildum ekki selja það. Það var ekk-
ert tvíd eða neitt í þeim dúr, þannig
að við fórum markvisst að leita að
því. Við ákváðum að fara meira út í
þetta sjálfir og það sem við fundum
ekki, það létum við framleiða.“
Kormákur segir verslunina þekkt-
asta fyrir tvíd, sem þeir hafa haldið
tryggð við í öll þessi ár.
„Við erum þekktastir fyrir tvídið,
þó svo að við séum með jakkaföt úr
öllum efnum. Þau geta verið fyrir
brúðkaup eða fyrir skrifstofumenn.
Sá sem ekki þekkir búðina vel og
ætti að nefna eitthvað myndi eflaust
segja tvíd engu að síður.“
Menn vilja vera fínir
Þegar blaðamaður spurði Kormák
að þeirri klassísku spurningu hvern-
ig tískuvitund karlmanna hefði
breyst í gegnum árin stóð ekki á
svari.
„Mér finnst fleiri karlmenn vilja
vera fínir, án þess að þurfa þess sök-
um vinnu. Af okkar kúnnahópi að
dæma er það augljóst að þeir vilja
vera fínir. Síðan er það þessi
„streetwear“-menning sem ég skil
ekki alveg. Af hverju fólk vill standa
í röð til þess að kaupa nýjustu Nike-
skóna um leið og þeir koma út, á
sama tíma og hægt er að kaupa
handgerða Loake-leðurskó frá Eng-
landi á sama verði. Ég skil það
ekki.“
Mörg járn í eldinum
Kormákur segir að mörg járn séu
í eldinum hjá þeim félögum á næst-
unni. „Það er hellingur að gerast,
margt í bígerð, en ekki alveg tíma-
bært að segja frá því núna, það er
svo stutt komið. Með haustinu ætti
að draga til tíðinda. Þetta er verk-
efni sem er lagt af stað og komið í
ákveðið ferli.“
Spurður hvort verkefnið tengist
tísku segir Kormákur svo ekki vera.
„Ætli það tengist ekki frekar ís-
lenskum landbúnaði. Þetta er
skemmtilegt verkefni. Við höldum
áfram að gera hluti sem eru
skemmtilegir, hitt er svo leiðinlegt.
Af hverju ekki að eiga bar, ef þér
finnst gaman að fá þér drykk með
félögum þínum til dæmis? Þetta
liggur svo í augum uppi,“ segir Kor-
mákur að lokum og heldur áfram
veiði.
Langlíft hobbí tveggja vina
Steingrímur Eyjólfsson
steingrimur@mbl.is
Hin rótgróna Herrafata-
verzlun Kormáks og
Skjaldar hefur staðið á
neðri hæð Kjörgarðs
síðastliðin 22 ár. Þeir fé-
lagar segjast vera með
mörg járn í eldinum en ný-
lega opnuðu þeir fataversl-
un fyrir konur á Skóla-
vörðustíg.
Morgunblaðið/Ómar
Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar í Kjörgarði hefur lengi verið einn af hornsteinum verslunar í miðbænum.
Morgunblaðið/Ómar
Kormákur Geirharðsson segir þá
félaga hafa mörg járn í eldinum.