Gerðir kirkjuþings - 01.01.2016, Qupperneq 10
10 11
og fyrirbæn. „Hinn almenni prestsdómur er ótvíræður vegna skírnarinnar og krefst þess
að almennir safnaðarmeðlimir séu virkir í helgihaldi og stjórnun kirkjunnar.“ „Kirkjan er
fyrst og fremst kirkja orðsins og náðarmeðalanna og hins almenna prestsdóms. Hún er
sýnileg hér í heimi vegna þess að orðið er boðað og náðarmeðul veitt. Til þess að svo megi
verða þarf hún skipulegt helgihald, hún þarf á embættismönnum að halda og stofnun sem
tryggir starfsskilyrðin. Hin ósýnilega kirkja er aftur á móti samsett úr þeim sem meðtaka
orð og náðarmeðul í trú sér til hjálpræðis.“ (Sigurjón Árni Eyjólfsson: Ríki og kirkja, bls.
81).
Kirkjuþing hefur það hlutverk að tryggja starfsskilyrðin. Það er gert með því að huga að
ytra skipulagi, tryggja löggjöf um kirkjuna og leggja til atriði sem bæta innra starf hennar.
Á þessu kirkjuþingi eru mál sem taka til alls þessa. Það er alveg ljóst að séu verkaskipti
ekki skýr, boðvald ekki skýrt, víglínur ekki ljósar eða virtar, getur fólki í kirkjunni ekki
liðið vel og gengur ekki í takt. Þá verður kirkjan ómstríð og rödd hennar veik, því í okkar
lútersku kirkju er ekki einn talsmaður, eins og t.d. í rómversk kaþólsku kirkjunni, þar sem
páfinn talar og kirkjan hlýðir. En þó kirkjan sé margróma þýðir það ekki það að allir hafi
umboð til að gera hvað sem er, segja hvað sem er, hvar sem er. Fólkið í kirkjunni verður að
vita hvað til síns friðar heyrir og virða þau mörk sem sett eru með reglum og siðum. Lúter
var það ljóst að kirkja Krists þyrfti á stjórnun og skipulagi að halda. Hann setti þó ekki
fram skipurit fyrir kirkjuna heldur greindi hann eðli hennar og forsendur.
Fyrir kirkjuþingi liggur frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga. Það er engin nýlunda, svo
hefur verið á kirkjuþingum undanfarinna ára. Í mínum huga er ljóst að vinna við slíkt
frumvarp verður að byggja á grunnvinnu sem felst í því að gæta hins lúterska trúararfs,
efna til samtals meðal þjóðkirkjufólks um kirkjuna og koma sér saman um framtíðarsýn.
Slík vinna getur tekið mörg ár eins og nú þegar hefur sýnt sig, en minna má á að þau 5
leiðarstef sem Frans páfi og Munib Younan undirrituðu fyrir hönd rómversku kaþólsku
kirkjunnar og lúterska heimssambandsins síðastliðinn mánudag í dómkirkjunni í Lundi
voru afrakstur 50 ára samtals milli þessara tveggja kirkjudeilda. Meginstefið er að
kirkjudeildirnar eiga alltaf að hafa einingu að leiðarljósi en ekki einblína á það sem skilur
að. Textinn er ekki langur, aðeins fimm setningar.
Lúter lagði m.a. áherslu á almenna þekkingu á boðskap Biblíunnar og það verður að
segjast að okkar lúterska kirkja, þjóðkirkjan hefur ekki lagt nóga áherslu á þennan þátt.
Áður en skólar tóku að nokkru leyti yfir fræðsluna hvað þetta varðar sáu kirkjunnar þjónar
um uppfræðsluna og eldri kynslóð fræddi hina yngri. Eftir að skólaskylda komst á sofnaði
kirkjan á verðinum og gerði ráð fyrir að skólinn sæi um uppfræðsluna. Nú hefur sú þróun
orðið að lítil áhersla er lögð á kristinfræðikennslu í grunnskólum og kirkjan verður að
sinna fræðsluhlutverki sínu sem skyldi. Það er ekki ásættanlegt að sjá lægri félagatölur
kirkjunnar, ár frá ári og líta ekki í eigin barn hvað það varðar. Við verðum að uppfræða
fólkið í landinu með öllum þeim tækjum sem í boði eru annars er hætta á því að færri og
færri geri sér grein fyrir mikilvægi þess að varðveita menningararfinn hvað kristin áhrif
áhrærir. Það hefur færst í vöxt að börn eru ekki skírð. Þar með fer barnið á mis við fræðslu
um kristna trú og kristin lífsgildi sem mótað hafa þjóðfélag okkar um aldir.
Þórir Kr. Þórðarson, sá góði kennari og fræðimaður, sem hafði mjög svo mótandi áhrif