Gerðir kirkjuþings - 01.01.2016, Qupperneq 12
12 13
brautargengi með öllum tiltækum ráðum þannig að það myndist sterk samstaða milli alls
starfsfólks, allra sókna og prófastsdæma um þessi vinnubrögð.
Fullyrt er að ef lífsstíll allra jarðarbúa væri eins og Íslendinga þyrftum við um 20 jarðir.
Þjóðkirkjan vill vera í fararbroddi og til fyrirmyndar í umhverfismálum. Eftir málþing sem
haldið var um efnið í Skálholti fyrir ári var menntamálaráðherra hvattur til að beita sér fyrir
stóraukinni fræðslu í menntakerfinu um vistkerfi jarðar. Á Skálholtshátíð í sumar var hafist
handa við endurheimt votlendis á Skálholtsjörðinni. Markmið með endurheimt votlendis
er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samningur um aðgerðir í loftslagsmálum
sem samþykktur var í París í fyrra hefur tekið gildi á Íslandi en í honum er kveðið á um
aðgerðir allra ríkja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Kirkjan vill taka þátt í því
að varðveita jörðina okkar og lífið á henni. Það er eitt af þeim stóru verkefnum sem fylgja
þarf eftir innan kirkjunnar. Ég mun beita mér fyrir því að svo megi verða.
Minna má á að kirkjuþing samþykkti umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar árið 2009.
Ástæða er til þess að hvetja til þeirra framkvæmda sem þar er getið, eins og t.d. að vinna
gegn sóun og ofneyslu. Pappírsleysi á kirkjuþingi er liður í því.
Kirkjuþing kom fyrst saman árið 1958. Það hefur því starfað í hartnær 60 ár. Hlutverk
þess hefur breyst eftir lagabreytinguna árið 1997. Hlutverk þess er ærið. Í nýju frumvarpi,
sem hér er lagt fram er verkefnum þess fjölgað og hlutverk þess eflt. Það er liður í þeirri
lýðræðisvæðingu sem á sér stað um allan hinn vestræna heim. Ég vara við því að ætla
þinginu svo ærin verkefni að hinn almenni kirkjumaður eigi þess ekki kost að taka þátt í
þingstörfunum. Það er ekki hægt að ætla vinnandi fólki að koma saman í höfuðborginni
og afgreiða enn fleiri verkefni en nú þegar liggja fyrir þinginu ár hvert, án þess að gera
ráð fyrir annars konar vinnubrögðum. Þau þurfa að vera markvissari, tæknilegri og studd
meira utanumhaldi. Það er ekki hægt að ætla fólki að vinna flókna og faglega vinnu í
margra manna hópi sem býr víðs vegar á landinu. Málefni kirkjunnar snúast um verkefni
sem vinna þarf í skýru umboði en ekki um vald. Við erum saman á þeirri vegferð að
byggja upp og viðhalda sterkri kirkju, Guði til dýrðar og náunganum til blessunar. Það
gerum við með faglegum vinnubrögðum, aukinni fræðslu, fjölbreyttu helgihaldi, þjónustu
í nærsamfélaginu, sérþjónustu og samtali. Með því að hafa skýrt skipulag og boðvald, virða
mörk og ákveða og setja víglínur.
Ég vil nota tækifærið og þakka þeim er undirbúið hafa kirkjuþingið, starfsfólki
biskupsstofu og kirkjuráðs, forsætisnefnd og þingfulltrúum. Einnig tónlistarfólki og
heimafólki hér í Grensáskirkju fyrir afnot af kirkju og safnaðarheimili.