Breiðfirðingur - 01.04.1988, Page 28
26
BREIÐFIRÐINGUR
er eflaust fyrirhuguð útgáfa á héraðssögu, ef undan eru
skilin sjálf húsmál þess.
Hin fyrsta héraðssögunefnd var kosin á fundi 12. nóv.
1942. Nefndin réði fljótlega til ritunarstarfa hina færustu
menn og hóf fjársöfnun með margvíslegum hætti. Má
óhikað fullyrða samkvæmt heimildum gjörðabóka að fyrst í
stað reri nefnd þessi knálega á bæði borð, enda forgöngu-
mennirnir meðal áhugasömustu manna í félaginu. Þegar
nefndin hafði starfað í 22 ár, að vísu með nokkuð breyttu
liði og breyttum viðhorfum til verkefnis - þá var á fundi 26.
febrúar 1964 ákveðið að nefndin skyldi hætta störfum, enda
hafði þá ekkert efni til útgáfu komið. í þessu sambandi
mætti spyrja margra spurninga, en verður ekki gert hér,
enda mun Jón Sigtryggsson, einn af forgöngumönnum
nefndarinnar skýra þetta mál í sérstakri grein í þessu hefti.
- Eitt virðist þó liggja nokkuð í augum uppi sem orsök þess,
að ekki kom til útgáfu, en það er fjárskortur. Hins vegar er
skylt að geta þess að örnefnasöfnun og skráning, er hófst í
breiðfirskum byggðum á fimmta áratug aldarinnar var upp-
haflega unnin á vegum héraðssögunefndar og verður sú
framtakssemi seint fullþökkuð.
Hátíðanefnd aldraðra tók til starfa samkvæmt ákvörðun
félagsfundar 10. maí 1942. Er því nú í vor búið að halda
samkomu fyrir eldri Breiðfirðinga í 46 ár. Þessar samkomur
hafa orðið vinsælar og hefur kvennadeildin átt þar drjúgan
hlut að máli.
í mörg ár voru starfandi svonefndar kvöldvökunefndir.
Hafa ber þó í huga að um tvenns konar kvöldvökur gat verið
að ræða. Annars vegar kvöldvökur þær, er félagið efndi til
lengi í Breiðfirðingabúð og hins vegar útvarpskvöldvökurn-
ar. Þær voru afar vinsælar, enda átti félagið um skeið þjóð-
kunnum útvarpsmönnum á að skipa, svo sem Helga Hjörvar,
Ragnari Jóhannessyni að ógleymdu Jóhannesi skáldi úr
Kötlum. Oft var mjög vandað til útvarpskvöldvakanna og er
ekki að efa að þær hafa betur en flest annað yljað mörgum
í heimahögum fyrir brjósti og aukið stórlega á kynningu og
vinsældir Breiðfirðingafélagsins.