Breiðfirðingur - 01.04.1988, Page 153
BREIÐFIRÐINGUR
151
Við blácm Breiðafjörð
Hver er svo maðurinn á bak við smíði þessara plastbáta, er
hlotið hafa nafnið Sómabátar? Það er Breiðfirðingurinn
Guðmundur Lárusson úr Akureyjum við Skarðsströnd.
Hann er fæddur 9. mars 1930. Um ætt og uppruna er það að
segja að foreldrar hans voru þau Guðný N. Einarsdóttir frá
Krossi í Landeyjum og Lárus Daníelsson, er síðast bjuggu á
Fremribrekku í Saurbæ. Lárus var Dalamaður að uppruna.
Hann stundaði sjómennsku frá unga aldri, m.a. dvaldi hann
um fermingaraldur á Bakka í Arnarfirði, nokkur ár á vertíð
í Vestmannaeyjum og víðar. Lárus og Guðný bjuggu um 13
ára skeið í Akureyjum. Hann var orðlagt hraustmenni og
allan fyrri helming ævinnar var hann við sjómennsku.
Til 15 ára aldurs dvaldi Guðmundur Lárusson í Akur-
eyjum og þar voru fyrstu áratogin tekin á opnum, litlum
fleytum. - Breiðifjörður milli Skorarhlíða og Öndverðarness
var löngum leiksvið hraustra drengja, er kunnu á segl og
árar. Svo var enn á Akureyjaárum Guðmundar. A þeim
árum gengu líka manna í milli ferskar og nýlegar sögur af
ýmsum nafnkenndum sjóhetjum Breiðafjarðar. Menn eins
og Snæbjörn í Hergilsey, bræðurnir Sigvaldi og Oddur Val-
entínussynir í Stykkishólmi voru öllum kunnir sökum hreysti
og djarfrar sjómennsku. Einfarar eins og Pétur sterki Ein-
arsson frá Bíldsey sveipuðust líka ævintýraljóma í ýmsum
frásögnum.
En það ráða órjúfanleg lögmál strauma og grunnsævis á
Breiðafirði. Pau lögmál verður að virða, annars getur illa
farið. Úrslitum geta að vísu ráðið þekking og hæfni sjófar-
enda annars vegar og ásigkomulag skips og búnaðar hins
vegar. Fari hvorutveggja saman, er von farsællar ferðar en
annars ræður auðna ein heimkomu. Ungur gekk Guð-
mundur Lárusson í þennan breiðfirska siglingaskóla þar sem
hann lærði trúverðuglega á vind og strauma. Lífsstarf hans
hefur orðið að smíða lítil skip, sem óhætt er að treysta, þótt
bára ýfist og ekki sé óskaleiði til hverrar hafnar.