Ljósmæðrablaðið - 01.12.2010, Side 25
25Ljósmæðrablaðið - desember 2010
hana vantar þann stuðning sem ljósmóðirin
annars veitir. Það var mjög áhrifaríkt þegar
hún spilaði upphafsstef lagsins „Bridge over
troubled water“ til að leggja áherslu á mikil-
vægi yfirsetunnar, við leyfum þessum línum
að fylgja hér með:
When you´re weary, feeling small.
When tears are in your eyes,
I will dry them all
I´m on your side, when time get rough
Ekki var laust við að tár féllu í salnum þegar
þetta var spilað. Þetta er eitthvað sem vert
er að hafa í huga nú á tímum niðurskurðar
og með auknu álagi á fæðingardeildum. Þó
ástandið sé kannski ekki orðið svona slæmt
hjá okkur þá getur það orðið það ef við
stöndum ekki vörð um yfirsetu ljósmóður í
fæðingu.
Á föstudeginum var ekki síður áhugavert
upphafserindi en þá talaði Cathty Warwick
ljósmóðir í Bretlandi um mikilvægi þess að
konur í barneignaferlinu hefðu val á þjónustu
því það stuðlar að jákvæðri upplifun,
eflir konur og er mikilvægt fyrir vöxt og
þroska ljósmóðurstéttarinnar. Hún nefndi
sérstaklega mikilvægi þess að konur hefðu
aðgang að ljósmæðrastýrðum einingum,
það væri einn stærsti þátturinn í að stuðla að
eðlilegum fæðingum. Hún talaði um að þrátt
fyrir fjölda ljósmæðrastýrðra eininga í Bret-
landi byggju 40% kvenna þar við það að hafa
ekki aðgang að slíkum einingum. Einnig
talaði hún um að ljósmæður þyrftu að vera
duglegar við að kynna fyrir skjólstæðingum
sínum þá valkosti sem standa þeim til boða
því ef konur vita ekki af valkostunum sem í
boði eru þá hafa þær ekki raunverulegt val.
Það kom vel fram á ráðstefnunni að á
öllum Norðurlöndunum eru ljósmæður að
heyja sömu baráttuna, þ.e.a.s. að standa vörð
um skjólstæðinga okkar og þá þjónustu sem
við viljum veita þeim. Baráttan er hörð og
mjög víða er verið að fækka fæðingarstöðum
og öllum fæðingum beint á stærri sjúkrahúsin
þar sem álag og tímaskortur ræður ríkjum
og tíðni inngripa í eðlilegar fæðingar eykst
í takt við það. Ljósmæðrastýrðar einingar
sem reknar hafa verið með góðum árangri
á hagkvæman hátt berjast í bökkum við að
halda starfsemi sinni gangandi. Fjöldi erinda
fjallaði um ljósmæðrahópa eða fæðingar-
heimili sem sýndu gríðarlega góða útkomu
en biðu þess þó að verða lokað og þá helst
af því að þau „framleiddu“ ekki eins mikið
af börnum og stóru sjúkrahúsin. Alls staðar
standa því ljósmæður frammi fyrir því að
valkostum verðandi foreldra er að fækka eða
það sem enn verra er að aukinn fjöldi fólks
þarf að sækja þjónustu í barneignaferlinu um
langan veg með tilheyrandi óþægindum og
kostnaði. Einnig er öryggi mæðra og barna
þeirra ógnað með aukinni miðstýringu þegar
þessi grunnþjónusta er lögð niður í smærri
samfélögum.
Nú sjáum við hér á Íslandi fram á enn
meiri niðurskurð í barneignaþjónustunni
en nokkru sinni fyrr sem bitnar á skjól-
stæðingum okkar. Við verðum að taka
höndum saman og standa vörð um þjónustu
við fjölskyldur í barneignferlinu, eðlilegar
fæðingar og ljósmæðrastéttina. Það eru
skilaboðin sem við tókum með okkur heim
eftir þessa vel heppnuðu ráðstefnu.
Slappað af í sólinni milli fyrirlestra.
Hildur Kristjánsdóttir flytur erindi.
Formenn ljósmæðrafélaga á Norðurlöndum.