Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.09.2018, Blaðsíða 18
U
pp og niður blautar götur New
York-borgar streyma regn-
hlífar í stríðum straumum og
mannfólkið með. Það er rigning
og hráslagalegt eftir viku hita-
bylgju og fólk er að flýta sér. Regnhlífarlaus
blaðamaður berst með mannfjöldanum niður í
Soho, á Broadway, til fundar við Íslendinginn
og iðnhönnuðinn Hlyn Vagn Atlason. Þar rek-
ur hann fyrirtæki sitt Atlason og hefur í nógu
að snúast. Á stílhreinni og fallegri skrifstofu
þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja situr
fólkið hans önnum kafið og vinnur undir ljúfri
tónlist. Hlynur birtist óðara og við ákveðum að
færa okkur á lítinn og sjarmerandi ítalskan
veitingastað í grenndinni, enda komið hádegi.
Tvær norskar konur setjast þétt upp við
okkur og tala svo hátt að blaðamaður óttast að
þurfa að skrifa viðtalið á norsku, og þá um eitt-
hvað allt annað en iðnhönnuð í New York. En
yfir ítölsku pasta reynum við að útiloka hina
syngjandi glöðu sessunauta okkar og hefjum
spjallið.
Á vespu með vídeóspólur
Aðspurður um listræna hæfileika segist
Hlynur ekki hafa verið listrænn í æsku og
hafði satt að segja aldrei heyrt talað um iðn-
hönnun fyrr en hann fyrir tilviljun datt inn í
það fag. Hann gekk hinn hefðbundna
menntaveg, fór í Tjarnarskóla og þaðan í
Kvennó. Eftir menntaskóla lét hann ævin-
týraþrána ráða för og flutti til Svíþjóðar þar
sem hann bjó í nokkra mánuði og þaðan lá
leiðin til Kaupmannahafnar í ár, „bara að
slæpast“, eins og hann orðar það. Svona eins
og ungt fólk gerir gjarnan áður en það finnur
sína hillu.
„Ég fór svo heim til Íslands og byrjaði í
stjórnmálafræði en fannst það alveg ómögu-
legt. Þá flutti ég til Parísar, en ég var reyndar
að elta þangað stelpu. Það gekk svo ekkert upp
en ég fór að vinna sem sendill á vídeóleigu,“
segir hann og hlær.
„Allar myndir í Frakklandi eru döbbaðar
þannig að fólk frá öðrum þjóðum vildi fá mynd-
irnar á frummálinu. Ég vann fyrir Skota sem
átti vídeóleigu sem hét Reels on Wheels og ég
vann við það að keyra á vespu um alla París
með vídeóspólur. Það voru tveir Íslendingar
sem voru kúnnar á þessari vídeóleigu og ég fór
á opið hús í Parsons-hönnunarskólanum í
gegnum þær. Mér leist svo vel á að ég ákvað að
sækja um. Ég komst inn og byrjaði svo í skól-
anum um haustið og var þar í eitt ár. Þá flutti
ég til New York og hélt áfram náminu hér til
að komast í iðnhönnun, en í skólanum í París
var meiri áhersla á myndlist og arkitektúr,“
segir Hlynur.
Hæstur í Parsons
Áhuginn var kviknaður og Hlynur var þarna
búinn að finna það sem átti hug hans allan.
„Þetta var mjög tilviljanakennt, og ég hafði
fram að þessu verið miðlungsnemandi,“ segir
Hlynur og bætir við að eftir menntaskóla hafi
hann verið greindur með lesblindu, nokkuð
sem engan hafði grunað áður.
„En þegar ég byrjaði í listaháskóla þá gekk
mér mjög vel og ég útskrifaðist hæstur úr mín-
um árgangi í Parsons,“ segir Hlynur, sem hef-
ur búið í New York allar götur síðan, bráðum í
tvo áratugi.
„Það var ekkert á planinu að búa hér en
þessi gráða nýtist kannski ekkert sérlega vel á
Íslandi og hér var ég búinn að eignast vini og
koma mér upp tengslaneti. Það var þá ekkert
annað að gera en vera hér áfram,“ segir Hlyn-
ur, sem vann fyrst eftir nám hjá auglýsinga-
fyrirtæki. Eftir tvö ár hjá því fyrirtæki stofn-
aði hann sitt eigið fyrirtæki, Atlason, árið
2004.
Hann segir fyrirtækið hafa gengið vel, fyrir
utan tímabil í kringum fjármálahrunið árið
2008. „Það var dálítið streð þar á eftir,“ segir
Hlynur en í dag er fyrirtækið á uppleið og
hann er með níu manns í vinnu.
Línulegur stóll vekur athygli
Hjá Atlason er unnið að ýmsum verkefnum;
allt frá því að hanna umbúðir til húsgagna, en
þessa dagana eru það húsgögnin sem Hlynur
hefur mestan áhuga á.
„Ég hanna aðallega stóla einhverra hluta
vegna. Á hinn bóginn erum við í nýsköp-
unarvinnu með stórum fyrirtækjum. Þá erum
við að vinna t.d. með pakkningar fyrir stór fyr-
irtæki,“ segir Hlynur og nefnir að nýlega hafi
þau unnið að stóru verkefni fyrir bjórfyrirtæki
að endurhanna allar umbúðir.
„Mér finnst best að vera með fjölbreytni í
þessu og maður lærir alltaf eitthvað í einu
verkefni sem nýtist í næsta. En upp á síðkastið
hefur verið mjög spennandi að vinna í hús-
gögnunum,“ segir Hlynur.
„Við vinnum töluvert með þekkri verslun
sem heitir Design within reach,“ segir Hlynur.
„Þetta er Epal Bandaríkjanna að vissu leyti.
Þeir eru bæði að selja þekkt skandinavísk
vörumerki en framleiða einnig sjálfir. Þeir eru
með búðir um öll Bandaríkin og mjög stórir
hér,“ segir hann.
Blaðamaður gúglar búðina Design within
reach og fyrsta sem blasir við á forsíðu er stóll
eftir Hlyn sem ber nafnið Lína. Sá stóll hefur
verið afar vinsæll síðan hann fór í sölu.
„Nafnið var í raun ekki mín hugmynd en
virkar vel,“ segir Hlynur, enda stóllinn ansi
línulegur.
„Búðin dreifir nú bæklingi sem fær mjög
góða dreifingu og fer inn á mörg heimili og fyr-
irtæki. Stóllinn er farinn að seljast töluvert
vel, bæði í búðinni og eins á netinu.“
Mest pantað af kúnnum
Er eitthvað sem þú hefur hannað sem þú ert
sérstaklega stoltur af?
„Nei.“ Hlynur hlær.
„Nei, þegar verkefni er búið þá er það búið
og ég er voða lítið að líta til baka, ég horfi fram
á veginn. Ég lít frekar á það þannig að mark-
miðið sé að leysa verkefni frekar en vera að
búa eitthvað til úr engu,“ segir Hlynur og út-
skýrir að hann vinni helst verkefni sérstaklega
fyrir viðskiptavini.
„Níutíu prósent af því sem við gerum er
pantað af kúnnum.“
Hann viðurkennir að hann vinni mikið og oft
langa daga og tíð ferðalög tengist vinnunni.
Hann þeysist á milli landshluta og landa að
hitta viðskiptavini og ræða um verkefnin.
Einnig hefur hann kennt bæði í School of Vis-
ual Arts og í Pratt Institute hjá nemum í
meistaranámi.
„Það er fínt að kenna, ég get þá líka látið
gott af mér leiða.“
Kallaður „Kleinurd“
Hlynur kynntist konu sinni Paolu í Parsons, en
hún er frá Dóminíska lýðveldinu. Þau voru þá
bæði nýkomin til stórborgarinnar.
„Hvort frá sinni eyjunni!“
Hjónin eiga dreng og stúlku, fjögurra og sex
ára; Jens Frederik og Stellu Von. Nöfnin
ganga vel í Bandaríkjunum sem og á Íslandi.
Ekki er hægt að segja það sama um nafn
Hlyns.
„Ég heiti Hlynur, sem er ómögulegt nafn
hér í Bandaríkjunum, þeir segja „Kleina“, eða
„Kleinurd“, eða Leonardo,“ segir hann og
hlær.
„Hjá Starbucks segist ég heita Peter!“
Aðspurður hvernig það sé að ala upp börn í
stórborginni segist hann í raun ekki hafa neinn
samanburð.
„Það er alveg ágætt. Við höfum alltaf búið
við garðinn, Central Park, og það er alveg hell-
ingur að gera hér með börnum. Það munar öllu
að hafa garðinn og hér er fullt af róluvöllum,“
segir hann.
Hlynur segir þau dugleg að nota fríin til að
heimsækja heimalöndin, Ísland og Dóminíska
lýðveldið.
„Það er alveg tilvalið að fara til Íslands á
sumrin og Dóminíska lýðveldisins á veturna.
Það er oft mjög gott að vera heima í tíu gráð-
um og úða,“ segir hann og hlær. Enda er víst
oft ólíft á sumrin í hitanum í stórborginni.
Sækir í orkuna
Hlynur segir lífið í stórborginni gott; mikið
menningarlíf og ákveðin orka fylgi borginni.
Hann er ekkert á leiðinni að flytja heim í bráð,
þótt hann útiloki ekkert. Í dag nýtur hann lífs-
ins í þessari ólgandi heimsborg.
„New York er í raun ekki falleg borg og
sums staðar rusl á götunum en það er þessi
orka sem fólk sækir í og er eiginlega ávana-
bindandi. Maður finnur það best þegar maður
fer eitthvað annað,“ segir Hlynur og bendir á
að fólkið sé síður en svo einsleitt eins og á Ís-
landi.
„Það eru ekki allir að horfa á áramóta-
skaupið klukkan ellefu á gamlárskvöld,“ segir
hann og hlær.
Það er langt liðið á hádegið og á meðan þær
norsku mala enn yfirgefum við staðinn og
höldum út á götu. Það hefur stytt upp og við
finnum rólega hliðargötu hentuga fyrir
myndatöku. Við kveðjumst og á meðan Hlynur
fer aftur í vinnuna hendir blaðamaður sér und-
ir borgina og brunar burt í lest fullri af fólki
frá öllum heimshornum.
Orkan er ávanabindandi
Í ólgandi stórborginni New York hefur Íslendingurinn Hlynur V. Atlason
komið ár sinni vel fyrir borð. Hann rekur þar iðnhönnunarfyrirtækið
Atlason sem hannar húsgögn jafnt sem umbúðir og allt þar á milli.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Fjölskyldan, Hlynur, Paola og
börnin Jens Frederik og Stella
Von, sjást hér í fríi á Íslandi.
VIÐTAL
18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 23.9. 2018