Morgunblaðið - 03.12.2018, Qupperneq 19

Morgunblaðið - 03.12.2018, Qupperneq 19
MINNINGAR 19 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 3. DESEMBER 2018 brjóta ýmis þjóðfélagsmál til mergjar, án nokkurs æsings, þótt ekki værum við ávallt sammála. Þannig liðu árin eða þangað til fyrir um ári síðan þegar Pétur greindist með illvígt krabbamein. Þrátt fyrir það lét hann ekki bugast, sýndi mikið æðruleysi og stóð keikur á meðan hann gekk í gegnum erfið veikindi, ávallt með Önnu Margréti sér við hlið sem hans klettur. Tel ég að sá stuðn- ingur hafi hjálpað honum mjög við að halda sem fastast í þann þunna þráð sem lífið er og var Pétur ekki tilbúinn í að sleppa honum fyrr en undir það síðasta. Ég veit að Péturs verður sárt saknað af okkur öllum sem nutum þess heiðurs að þekkja hann og þá mannkosti sem hann var búinn. Sjálfur er ég þakklátur að hafa átt þessa góðu en allt of stuttu sam- leið með Pétri. Baldvin Einarsson. Mig langar með nokkrum orð- um að minnast æskuvinar míns, Péturs Gunnarssonar, sem fallinn er frá langt fyrir aldur fram. Hans er sárt saknað. Pétur var einstak- ur maður. Hann var frábær vinur og félagi, skarpgreindur og víð- lesinn. Við Pétur vorum skólafélagar alla leið þar til við brautskráð- umst úr MR 1980. Ég kynntist honum sérstaklega vel í Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraskóla Ís- lands, en þar vorum við samferða í fjögur ár frá níu ára til tólf ára aldurs. Það var snemma ljóst að Pétur var óvenju góðum gáfum gæddur og stálminnugur. Hann rúllaði upp prófum í Æfingaskól- anum og vildi helst ekki fara í próf í lesfögum og tungumálum nema vera öruggur með að fá tíu. Við fórum síðan í Hlíðaskóla, Vörðu- skóla og loks í MR. Ég minnist yndislegra stunda þar sem við Pétur hlustuðum á tónlist, lékum okkur í fótbolta, spiluðum á spil og ræddum inn- lend og erlend samfélagsmál. Við vorum miklir Deep Purple-aðdá- endur um tíma, en áhugi okkar var þó miklu víðtækari. Á þessum árum reyndum við að kaupa hljómplötur eins og við gátum og keyptum helst ekki það sem hinn átti til þess að komast yfir sem mest efni. Mér er minnisstætt þegar platan Burn með Deep Purple kom út. Ég rauk strax til og keypti plötuna og var í mun að Pétur heyrði hana líka sem fyrst. Því spilaði ég plötuna fyrir hann í gegnum síma þegar heim var komið. Svo mikill var áhuginn. Við félagarnir hlustuðum aðallega á rokk en Pétur kynnti mér líka djass, Miles Davis, Charles Mingus og Weather Report, svo eitthvað sé nefnt. Sú kynning opn- aði augu mín til framtíðar. Pétur var einn helsti töffarinn í skólanum í barna- og gagnfræða- skóla. Stór og myndarlegur strák- ur með mikið hár. Hann var mjög góður íþróttamaður. Í fótboltan- um var hann í framlínunni hjá Fram í sterku liði í yngri flokk- unum og spilaði meðal annars við hlið Guðmundar Steinssonar. Pétur starfaði um skeið hjá lög- reglunni og síðan lungann af starfsævinni í blaðamennsku, fréttastjórn, ritstjórn og við ým- iss konar ráðgjöf. Í störfum sínum sýndi hann hversu mikils hann var megnugur. Mér þótti alla tíð afar vænt um vin minn Pétur og hann hafði mik- il og djúp áhrif á mig. Það er erfitt að hugsa til þess að hann sé nú fallinn frá, ekki orðinn sextugur. Við Stefanía vottum Önnu Margréti, móður hans Ragnheiði Ástu, systkinum Péturs, börnum og barnabörnum innilega samúð. Minningin lifir. Jón Atli Benediktsson. „Næs“, sagði Pétur og brosti veiku brosi þegar Eyþór bróðir hans kom að sjúkrabeði hans þar sem hann lá, farinn að kröftum á líkama og sál, á líknardeild Land- spítalans í Kópavogi, en Eyþór bróðir hafði verið fjarri heima- högum. Á milli þeirra bræðra ríktu miklir kærleikar. Vel mátti skynja að Pétur hafði beðið þess- arar stundar, en augnablikum síð- ar sofnaði hann og komst ekki aftur til meðvitundar. Pétur var einstakur maður að ýmsu leyti, góður námsmaður, vel lesinn, víðfróður og eftirsóttur blaðamaður sem hafði lag á að skrifa knappan texta án þess að það bitnaði á gildi fréttarinnar. Nú í byrjun sumars fékk Pétur fregnir um að hann ætti ekki langt eftir ólifað, sem auðvitað var þungt högg og sársaukafullt fyrir hann, fjölskyldu og vini, en það gladdi hann samt í samræðum okkar að sólin var að byrja að rísa og hann myndi nú alla vega ná að fylgjast með HM í knattspyrnu. Sumarið kom og fór og HM klár- aðist. Pétur var fjarri því að leggja árar í bát baráttulaust, hann var staðráðinn í að gera allt það sem í hans valdi stóð til að sigrast á veikindunum. Satt best að segja leit út fyrir að það baráttuþrek ætlaði að skila árangri. En lífið er lífið og meðan við lifum er ekkert gefið og það vissi Pétur; allt er ofurselt þeim tak- mörkum sem það kostar okkur að lifa, gleði, hamingju, sælu, ótta, skelfingu, veikindum og dauða. Tollurinn er hár og úttektin undir þessum formerkjum sælu og áhættu seldur. Pétur og Anna voru samhent hjón og góðar fyrirmyndir barna sinna og héldu fallega utan um fjölskyldu sína og vini. Pétur sinnti ávallt verkum sín- um af kostgæfni og alúð. Hann eignaðist góða vini hvar sem hann kom eða starfaði. Það er heiður að hafa fengið að vera í þeim hópi. Vinátta okkar hjóna við þau hjón, Pétur og Önnu, hefur varað um áratuga skeið og bar þar aldr- ei skugga á. Það var einstaklega gaman að eiga stund saman með þeim, margt skrafað og skeggrætt og slegið á létta strengi. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með Önnu styðja og styrkja mann sinn í erfiðum veik- indum hans, hughreysta börnin og aðra fjölskyldumeðlimi allt til þeirrar stundar að hann dró síð- asta andardráttinn og sálinni sleppt út um gluggann. Við Jóhanna biðjum algóðan Guð að styðja og styrkja Önnu, börn, barnabörn, systkini og aldr- aða móður. Guð blessi minningu Péturs meðal okkar allra. Gísli Gíslason og Jóhanna Björnsdóttir. Pétur Gunnarsson, blaða- maður, eiginmaður, faðir, afi, vin- ur og gamall skólabróðir, er látinn langt um aldur fram. Pétur greindist með illvígan sjúkdóm í fyrra og þrátt fyrir einbeittan vilja, baráttuþrek og einstakt æðruleysi þá varð að lokum ekki við neitt ráðið. Leiðir okkar Péturs lágu fyrst saman í Hlíðaskóla og síðar í MR þaðan sem við útskrifuðumst vor- ið 1980. Pétur var frábær náms- maður og við útskrift var hann leystur út með verðlaunum eins og þeim hlotnast sem gera betur en meðalmennirnir. Pétur var víð- lesinn, skarpgreindur og glöggur samfélagsrýnir. Oftast hæglátur og ljúfur. Það var í rauninni ein- staklega auðvelt að eiga gott skap saman með Pétri. Hann gat hins vegar látið í sér heyra þegar á þurfti að halda og þá var eftir því tekið. Við Pétur vorum oftast hvor á sínum endanum í pólitíkinni en að sama skapi vorum við oftast sam- mála. Það olli okkur reyndar oft heilabrotum. Blaðamennskan var Pétri í blóð borin í bókstaflegri merkingu. Móðir, faðir, afi og stjúpi – allt þekkt fjölmiðlafólk á sínum tíma. Það kom því engum á óvart að hann skyldi láta til sín taka á því sviði. Þar kom víðtæk þekking hans og samskipta- hæfileikar að góðum notum. Vinnufélagar í Skógrækt Reykjavíkur, kaffi og ristað brauð á Kaffi Tröð í Austurstræti í stað þess að sitja í dönskutíma, sumarfrí á sólarströnd með börn- in okkar ung og sigling út í Hrís- ey. Minningar okkar eru á marg- an hátt samofnar og núna ljúfsárar. Pétur var eldheitur áhugamað- ur um tónlist og á stundum eins og gangandi alfræðiorðabók þeg- ar rætt var um stefnur og strauma í heimi dægurtónlistar. Margar stundirnar áttum við saman fyrr á árum þar sem rætt var um heimsins gagn og nauð- synjar og hlustað á Deep Purple og bassalínurnar hjá Roger Glo- ver. Síðar var hlustað á Frank Zappa, Gentle Giant, Chicago, Weather Report, David Bowie, Neil Young, Thelonious Monk, Chick Corea, Keith Jarrett, John Coltrane og alla hina sem rötuðu á fóninn. Pétur hafði oft orð á því að með Deep Purple hefðum við lært að meta góða tónlist og auð- vitað hafði hann rétt fyrir sér! Pétur kynntist eiginkonu sinni Önnu Margréti á unglingsárun- um og var eftir því tekið hversu dyggilega og af hve mikilli hug- prýði og yfirvegun hún studdi við bakið á honum undir það síðasta þegar öllum var ljóst hvert stefndi. Nú þegar Pétur er allur þá er við hæfi að við félagar hans og vinir drögum fram gamla vínyl- spilarann og skellum Harvest Moon undir nálina honum til heið- urs í þeirri vissu að hann er örugglega að hlusta. Minning um góðan dreng mun lifa með okkur. Önnu, börnum þeirra Péturs og ástvinum öllum sendi ég mínar dýpstu samúðar- kveðjur. Gunnar Jóhann Birgisson. Vináttan er fjársjóður sem ávaxtast með tímanum og mölur og ryð fær ekki grandað. Nú sitj- um við hnípin, vinahópurinn, og söknum Péturs Gunnarssonar sem kvaddi alltof snemma. Krónuklíkan, eins og við kölluð- um okkur, eftir sjoppunni í Lönguhlíðinni sem við hittumst gjarnan í á unglingsárum, hefur lemstrast og verður aldrei söm. Sum okkar eiga minningar allt til barnaskóla þar sem Pétur skar sig strax úr fjöldanum. Lærði heilu drápurnar um Eggert Ólafsson og Skúlaskeið úr Skóla- ljóðum og stakk okkur hin af sem létum duga Urð og grjót og Heiðlóarkvæði. Gáfur hans og gjörvileiki skinu strax í gegn á þessum fyrstu skólaárum, enda duldist það engum sem kynntist Pétri á lífsleiðinni. Hópurinn þéttist eftir því sem árin liðu. Eftir fertugt hófum við að hittast reglulega og njóta lífs- ins og vináttunnar saman. Það var mikið hlegið, mikið rökrætt, dansað, rökrætt meira og deilt áhyggjum og sorgum. Krónuklíkan, ásamt okkar ágætu mökum – „aurunum“ sem féllu svo vel inn í gamla hópinn, varð þeirrar gæfu aðnjótandi að ferðast saman til útlanda. Þær minningar skína nú sem aldrei fyrr á perlubandi minninganna. Það er gaman að rifja upp að Anna og Pétur voru einu „krón- urnar“ sem urðu par. Ljóslifandi er myndin af þeim hjónum, límd- um við skjáinn að fylgjast með EM í fótbolta í steikjandi hita í villunni á Ítalíu sem við leigðum um sumarmál 2012. Þau voru kröftug fagnaðarhrópin þegar rétta liðið skoraði mark. Anna og Pétur geisluðu í þessari ferð, nutu matar og samveru og Pétur brá jafnvel útaf vananum og þeytti Önnu sinni um dansgólfið. En þrátt fyrir glaum og gleði duldist okkur þó ekki hversu sterk tengsl þeirra við börn og barnabörn voru, enda leið ekki sá dagur að þau heyrðu ekki í sínu fólki á Íslandi. Elsku Anna Magga, Ragn- heiður Ásta, Pétur Axel, Anna Lísa, Ragnheiður og fjölskyldur, missir ykkar er mestur. Við vott- um ykkur okkar dýpstu samúð og þökkum dýrmæta vináttu. Brynjar og Arnfríður, Egill og Elín, Fríða og Axel, Margrét og Benedikt, Ragnheiður og Arnór, Sigurður og Anna Kristín, Svavar og Aðalbjörg. Ég kynntist Pétri þegar við vorum settir í sama bekk í gagn- fræðaskóla. Hann kom þá í Hlíða- skóla úr Æfingadeild Kennara- háskólans eins og skólinn hét þá. Við urðum fljótt félagar. Pétur var mjög lifandi, skarpgreindur, augun leiftruðu og fylgdi hann gjarnan orðum sínum eftir með brosi. Fljótlega urðum við hluti af hópi sem fór að hanga saman við sjoppu eina í Lönguhlíð þar sem ýmislegt var brallað. Ekki ber að skilja þetta sem svo að við höfum verið samfélaginu erfið heldur vorum við dæmigerðir unglingar og þurftum samastað til að ræða saman á okkar forsendum og kannski stundum að prófa að vera eldri en við vorum. Þessi ár reyndust okkur öllum, að ég held, mjög þroskandi, ekki síst öll um- ræðan um samfélagsmál og það sem bar hæst í þjóðfélaginu hverju sinni. Að loknum gagn- fræðaskóla fórum síðan hvert í sinn framhaldsskólann en héldum þó áfram að hittast, gjarnan um helgar, en þá höfðum við flutt okkur úr sjoppunni, heim til Önnu Möggu í Skaftahlíð. Þessi tengsl okkar fjöruðu þó smám saman út þar sem við héldum áfram hvor í sína áttina út í lífið. Löngu síðar, þegar fór að hægjast á lífskapphlaupinu, þak komið yfir höfuðið og börnin orðin sjálfala, tók þessi hópur síðan upp á því að fara að hittast aftur. Höfum við síðan átt mjög ánægju- legar stundir saman. Málefni líð- andi stundar eru gjarnan rædd og hefur aldrei neinn staðist Pétri snúninginn í rökræðunum, nú sem endranær. Ég hitti Pétur núna á líknar- deildinni nokkrum sinnum og ræddum við málin nú sem fyrr. Meðal annars ræddum við um líf- ið og tilveruna. Mér var alveg ljóst að þó að allt stefndi í eina átt var Pétur mjög sáttur við líf sitt og sagði hann mér að þó að hann ætti kost á því að snúa klukkunni til baka myndi hann ekki vilja breyta neinu. Af og frá. Þegar ég kvaddi Pétur í síðasta skiptið sagði ég við hann að nú væri ég á förum til Svíþjóðar og við mynd- um ekki hittast fyrr en að lokinni þeirri ferð. Pétur svaraði að bragði „gerum það“ og augun leiftruðu og brosið lét ekki á sér standa. Alveg eins og í gamla daga. Ég enda þessi fátæklegu minn- ingarbrot á því að við hjónin vott- um Önnu Möggu, börnum og barnabörnunum sem og öllum að- standendum þeirra okkar dýpstu samúð. Sigurður Erlingsson og Anna Kristín Stefánsdóttir. Pétur Gunnarsson er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Við vorum samstarfsfélagar á Morgun- blaðinu í hálfan annan áratug eða þar um bil. Við byrjuðum að vinna saman á innlendri ritstjórn Morgunblaðsins þegar rit- stjórnarskrifstofurnar voru enn í Aðalstræti og fluttum okkur svo saman upp í Kringlu þegar rit- stjórnarskrifstofurnar fluttust þangað nokkrum árum síðar. Þar sátum við saman á bás ásamt tveimur öðrum og samskiptin því mikil og náin, þar til Pétur ákvað að flytja sig um set skömmu eftir aldamótin. Við Pétur ræddum alla tíð mikið saman um landsins gagn og nauðsynjar og pólitík í víðasta skilningi, enda náinn og lifandi áhugi á þjóðmálum nauðsynlegur fylgifiskur þess að gera blaða- mennsku að ævistarfi. Sjaldnast er þó hægt að segja að við höfum deilt um þjóðmál, heldur ræddum við þau frá ólíkum hliðum og með ólíkum áherslum sem tóku breyt- ingum í tímans rás, eins og geng- ur, enda Pétur víðsýnn og for- dómalaus og lagði sig fram um að brjóta viðfangsefnin til mergjar, eiginleikar sem einkenna góðan blaðamann. Pétur hafði enda alla tíð mikinn áhuga á góðri blaðamennsku og mikinn metnað fyrir faginu og hafði ríkan skilning á því hversu mikilvægt það er hverju sam- félagi að hafa öflugt og sjálfstætt fjórða vald sem sinnir hlutverki sínu af trúmennsku. Frá þessum tíma var alla tíð afskaplega sterk- ur strengur milli okkar Péturs, sem aldrei slitnaði, þó við hitt- umst og heyrðumst sjaldnar hin síðari árin. Við vorum þó alltaf reglulega í sambandi, en höfðum sjaldnast tíma til að kryfja málin með sama hætti og við gerðum þegar við vorum sessunautar á Morgunblaðinu. Það mun því mið- ur ekki gefast tækifæri til þess úr þessu, enda hljóta vegir að skilja að sinni. Ég sakna vinar í stað. Fjölskyldu Péturs bið ég Guðs blessunar. Blessuð sé minning Péturs Gunnarssonar. Hjálmar Jónsson. Pétur minn, þú varst hress og kátur. Ég hitti þig oft hjá ömmu og afa. Það var gaman að kynnast þér. Far þú í friði, guð geymi þig. Stefán sendill. Þegar litið er um öxl ríkir viss ljómi yfir námsárunum í Mennta- skólanum. Þau voru mótunartími, ár eftirvæntinga, gerjunar, sterkra vináttubanda, litríkra stemninga og töluverðrar bjart- sýni. 6 bekkur A skipaði stóran sess í sögu Menntaskólans í Reykjavík eða svo fannst okkur skólafélögunum í árgangi 1980 í fornmáladeild II. Við vorum í kennslustofunni næst hátíðar- salnum og námum þar forn fræði, tungumál og listasögu heimsins. Lífið sjálft var yfir og allt um kring og allar spennandi áskoran- irnar biðu okkar iðandi og ólgandi inni í framtíðinni. Hvert okkar blómstrar á sinn einstaka hátt og glatt var alltaf yf- ir endurfundum þegar við náðum að hittast á förnum vegi eða fagna stúdentsafmælum. En nú er sann- arlega tómlegra um að litast og skarð fyrir skildi þegar kær bekkjarbróðir okkar Pétur Gunn- arsson hefur kvatt okkur aðeins 58 ára að aldri eftir hetjulega bar- áttu í miklu æðruleysi. Það dimm- ir yfir tilverunni við slíka sorgar- fregn. Dum spiro spero segir latneska máltækið, ég vona með- an ég anda, það átti heldur betur við okkar forna vin. Við minnumst Péturs fyrst og fremst sem þrosk- aðs og bráðgáfaðs manns. Það ríkti alltaf visst tímaleysi yfir hon- um, hann hafði einhvern veginn verið hérna miklu lengur en við hin. Hann var víða heima og niður sögunnar ómaði í gegnum hann þegar hann miðlaði okkur af fróð- leik um allt milli himins og jarðar á sinn hógværa og íbyggna hátt. Pétur var orðinn ábyrgur fjöl- skyldumaður þegar á mennta- skólaárunum og engu síðri náms- maður, enskan, franskan og latínan voru honum þegar í stað sem opin bók. Sagnfræði var hon- um sömuleiðis hugleikin og fljótt komu hæfileikar hans og innsæi í ljós í framsetningu texta og sögu- skýringa. Þekking hans á innri gerð samfélaga og margslungn- um tengslum var umfangsmikil enda sjálfur alinn upp við djúpan sagnabrunn trausts og mikils ætt- boga. Persóna hans var mótuð af nærandi nálægð og stöðugri hlýju sem hann deildi með okkur hin- um. Gáfur eru til að gefa og þá list kunni Pétur öðrum betur. Fyrir það verðum við honum alltaf óendanlega þakklát. Við kveðjum Pétur Gunnars- son með djúpri virðingu og þakk- læti fyrir ljúfar samverustundir í MR sem og síðar á lífsleiðinni og vottum ástvinum og fjölskyldu innilega samúð okkar. Blessuð sé minning Péturs Gunnarssonar. Fyrir hönd bekkjarfélaga 6A í Menntaskólanum í Reykjavík 1980, Haraldur Jónsson. Pétur Gunnarsson er látinn langt fyrir aldur fram. Það var gæfa okkar að fá að kynnast Pétri, bæði sem samstarfsmanni á Varnarmálastofnun og í gegnum náin vinatengsl sonar annars okk- ar og eiginkonu hins við tvö barna hans. Þakklæti og góðar minning- ar flæða um hugann er við minn- umst Péturs. Þegar ljóst var að Pétur myndi verða hluti af starfs- mannahópnum á Varnarmála- stofnun sem upplýsingafulltrúi var gleðin mikil. Pétur varð strax mikilvægur hlekkur í starfsem- inni enda sótt fast að stofnuninni strax á fyrsta degi. Mætti hann öllum áskorununum með miklu jafnaðargeði. Ráðleggingar hans og hvatningarorð í daglegu starfi voru okkur ómetanleg. Það sem okkur fannst dæmigerðast við Pétur var hve ríku andlegu lífi hann lifði hið innra. Sífrjó leitandi afstaða var honum eðlislæg og eiginleg. Pétur var skarpgreind- ur, hlýr og hafði einstaklega góða návist, var hógvær en þó fastur fyrir. Við kveðjum Pétur Gunnars- son með virðingu og söknuði og vottum Önnu Margréti, Pétri Ax- el, Önnu Lísu, Ragnheiði Ástu og öðrum ástvinum dýpstu samúð. Dýpsta sæla og sorgin þunga, svífa hljóðlaust yfir storð. Þeirra mál ei talar tunga, tárin eru beggja orð. (Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum) Ellisif Tinna Víðisdóttir, Guðmundur Ingólfsson. Pétur Gunnarsson er fallinn frá langt um aldur fram. Ég hafði þekkt til Péturs síðan í mennta- skóla en kynntist honum fyrst fyrir alvöru þegar leiðir okkar lágu saman á ritstjórn Morgun- blaðins um miðjan níunda ára- tuginn. Ég sneri þá aftur á blaðið eftir nám í útlöndum og hafði hann verið blaðamaður um nokk- urra ára skeið. Mér varð strax ljóst að Pétur var afburðablaðamaður. Hann var vel lesinn, fjölhæfur og fróður og einkar vandvirkur og ritfær. Honum var líka treyst til allra verka í fréttaskrifum og leysti þau einkar vel af hendi. Pétur fór til Eystrasaltsríkjanna á vegum blaðsins þegar þau voru að brjót- ast undan oki Sovétríkjanna og fór á vettvang þegar snjóflóðin féllu í Súðavík. Pétur var góður vinnufélagi og traustur. Hann var ráðagóður og hafði gott innsæi í gangverk sam- félagsins og næma tilfinningu fyr- ir góðum og faglegum vinnu- brögðum í blaðamennsku. Það var alltaf gaman að ræða við hann og iðulega sá hann skrefi lengra en aðrir. Hann var líka einstakt ljúf- menni og átti auðvelt með að sjá spaugilegar hliðar tilverunnar og þegar honum var skemmt fékk hann kátínuglampa í augu þannig að það var eins og birti í kringum hann. Það var mikill missir fyrir rit- stjórn Morgunblaðsins þegar Pét- ur færði sig um set og að sama skapi fengur fyrir keppinautinn sem fékk hann til sín. Síðar varð ég þeirrar gæfu að- njótandi að kynnast syni Péturs og nafna, Pétri Axel, þegar hann var skólafélagi Þorgeirs, sonar míns. Pétur Axel hefur erft mann- kosti föður síns, hlýju og ljúf- mennsku og ekki síst frásagnar- gleðina. Starfsfélagar Péturs á Morgunblaðinu minnast góðs fé- laga með söknuði og senda Önnu Margréti konu hans og fjölskyldu þeirra samúðarkveðju. Karl Blöndal.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.