Morgunblaðið - 18.12.2018, Síða 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 18. DESEMBER 2018
Mér er sérstak-
lega ljúft að minn-
ast mágkonu minn-
ar Kristrúnar
Eymundsdóttur, eða Rúnu, eins
og hún var ávallt kölluð. Það er
komið hátt á sjötta áratuginn
síðan ég kynntist Rúnu í hópi
skólafélaga. Hún var ein af
„þessum stelpum“ sem drógu að
sér athyglina vegna persónu-
töfra sinna. Hún var geislandi.
En ég átti fljótlega eftir að
kynnast Rúnu nánar þar sem
aðra geislandi stelpu rak á
fjörur mínar, Kötu systur Rúnu.
Og í ársbyrjun 1963 giftumst við
Kata. Rúna giftist skólabróður
mínum Matthíasi Kjeld. Sam-
búðin var stutt, þau skildu árið
1965. Rúna var allt í einu orðin
einstæð móðir með tvo syni og
annan fjölfatlaðan. En hún lét
það ekki buga sig. Hún var
heldur ekki einstæð í víðari
skilningi, því foreldrar hennar
og aðrir nákomnir reyndust
henni vinir í raun og veittu
ómetanlegan stuðning. Nú sýndi
Rúna hvað í henni bjó. Hún var
ekki aðeins glæsileg heldur líka
góðum gáfum gædd og hafði
mikinn viljastyrk, fór í háskóla-
nám og lauk því.
Það var síðsumars 1968 að
Rúna kom í heimsókn norður til
okkar. Þær systur höfðu um
margt að spjalla og ég dró mig í
hlé. Morguninn eftir sagði Kata
mér að nú væri systir sín ást-
fangin. Hún og Halldór Blöndal
höfðu byrjað að vera saman fyr-
ir nokkru og nú varð ekki aftur
snúið. Þau giftust árið eftir í
stofunni í Söðulsholti á Snæfells-
nesi hjá vinum sínum Árna Páls-
syni og Rósu Björk Þorbjarn-
ardóttur. Og forlögin höguðu því
svo að þegar Rósa kom í heim-
sókn til Rúnu á dánarbeði lést
hún svo að segja í faðmi hennar.
Rúna var framhaldsskóla-
kennari mestallan starfsferil
sinn. Hún var mikil tungumála-
kona enda kenndi hún dönsku,
ensku og frönsku. Franskan var
uppáhaldið. En lífið var ekki
alltaf dans á rósum. Það var líka
darraðardans í pólitík þegar
Halldór hellti sér í þann hild-
arleik af ástríðu. En þannig var
það með Halldór, ástríðan bar
hann áfram – og bar ávöxt. Og
Rúna hreifst með. Hennar
frjálslega fas og glæsileiki hreif
flesta enda hafði Rúna hlotið
marga hæfileika í vöggugjöf. Til
dæmis var hún mjög fær píanó-
leikari og elskaði að spila undir
fjöldasöng í samkvæmum. Það
var því engin lognmolla hjá
þeim hjónum á góðri stund og
þær stundir eru orðnar margar
á langri samferð.
Halldór gat þess líka oft hvað
Rúna ætti ríkan þátt í frama
hans í pólitík. Það var því sárara
en tárum taki þegar við í fjöl-
skyldunni tókum eftir því fyrir
um áratug að Rúnu var eitthvað
farið að förlast. Ég held að ég
ýki ekki þótt ég segi að Kata
systir hennar hafi orðið skelf-
ingu lostin. Og fljótlega blasti sú
grimma staðreynd við að Rúna
var komin með alzheimersjúk-
dóminn. Í örvæntingu horfðum
við á hana hverfa inn í óminnið.
En það var huggun harmi gegn
hvað Halldór sinnti Rúnu af tak-
markalausri ást og umhyggju í
gegnum allt sjúkdómsferlið. Það
var einfaldlega fallegt og gleym-
ist ekki.
Með sárum söknuði kveðjum
við Kata Rúnu og þökkum af al-
Kristrún
Eymundsdóttir
✝ Kristrún Ey-mundsdóttir
fæddist 4. janúar
1936. Hún lést 8.
desember 2018.
Útför Kristrúnar
fór fram 17. desem-
ber 2018.
hug allar góðu
stundirnar í áranna
rás. Við sendum
Halldóri, börnum
þeirra og barna-
börnum innilegar
samúðarkveðjur.
Gísli G.
Auðunsson.
Kristrún Ey-
mundsdóttir er fall-
in frá eftir erfið veikindi sem
ágerðust síðustu misserin.
Ljómi leikur um minningu henn-
ar í mínum huga. Ég minnist
hinnar glæsilega konu og frá-
bæra kennara sem tróð í mig
dönsku í Menntaskólanum á Ak-
ureyri þannig að nokkuð vel hef-
ur dugað.
Fáeinum árum eftir að
menntaskólanáminu lauk tók í
mínu tilviki að reyna á í vestnor-
rænu og norrænu samstarfi og
reyndist því danskan hagnýtari
en mig hafði órað fyrir.
Eitt kvöldið mættum við tveir
menntskælingar og félagar
Kristrúnu á Eyrarlandsveginum
og þótti mér þá fyndið að ávarpa
hana á dönsku. Kristrún brást
vel við en svaraði að bragði að ef
við ætluðum að nota dönsku á
almannafæri skyldum við gjöra
svo vel og gera það rétt. Með
það gengum við sneypulegir á
braut. Þannig var Kristrún, al-
þýðleg í viðmóti, hress og kát og
ávallt reisn yfir henni.
Við Halldór Blöndal, maður
Kristrúnar, áttum samleið sem
þingmenn Norðurlands eystra
og seinna Norðausturkjördæmis
í tæpan aldarfjórðung og öttum
kappi saman í þingkosningum
sem frambjóðendur allt frá
kosningunum 1978. Margar
snerrur höfum við tekið innan
þings sem utan. Ég hugsa nú til
þess sem forseti Alþingis, en því
embætti gegndi Halldór um ára-
bil eins og kunnugt er, að sjálf-
sagt hefði ég stundum mátt láta
betur að stjórn. Ekkert af þessu
breytir þó því að milli okkar
myndaðist sterkur þráður og
óslitinn enn.
Kristrún var sjaldan langt
undan og aldrei mætti ég öðru
en vinsemd og hlýju af hennar
hálfu þó svo að við bóndi hennar
hefðum verðið eitthvað að glíma.
Henni kann að hafa þótt vænna
um gamla nemandann en stjórn-
málamanninn og gekk jafnvel
betur að átta sig á honum undir
hið síðasta þegar ský fóru að
byrgja sýn hennar á heiminn.
Veikindi Kristrúnar síðustu
árin hafa eðli málsins sam-
kvæmt markað mjög líf Hall-
dórs og fjölskyldunnar. Ég trúi
að ég geti talað fyrir munn allra
sem til þekktu að Halldór hafi
lagt sitt ýtrasta af mörkum til
að búa vel að og vera konu sinni
stoð og stytta þessi síðustu ár.
Ég kveð Kristrúnu Eymunds-
dóttur með virðingu og þökk og
votta Halldóri, Pétri og fjöl-
skyldunni allri samúð mína og
fjölskyldu minnar.
Steingrímur J. Sigfússon.
Kristrún Eymundsdóttir var
um ævina mikill gleðigjafi skóla-
systkinum sínum og vinum;
glaðvær og hláturmild, vingjarn-
leg og hress í viðmóti. Þessir
eiginleikar, sem hún bjó svo
ríkulega yfir, höfðu svo oft áhrif
til góðs og léttu lund þeirra sem
áttu með henni leið.
Að sama skapi varð þess
hvorki vart á skólaárum né síðar
þegar á bjátaði að henni, dug-
legri og kjarkaðri, hætti til „að
sýta sárt og kvíða“, eins og segir
í sálminum víðþekkta. Þetta var
einn af sálmunum sem Kristrún
og við hin börnin vorum svo lán-
söm að læra í Miðbæjarbarna-
skólanum. En hann heldur
áfram: „Nei, þú skalt biðja og
bíða, þá blessun Guðs er vís.“
Kristrún var gædd hugar-
styrk sem kom sér stundum á
ævinni einkar vel. Árin sem
ófriður síðari heimsstyrjaldar-
innar geisaði á höfunum var Ey-
mundur, faðir hennar, einn
þeirra djörfu manna sem héldu
óhikað áfram að færa þjóðinni
varninginn heim. Komst Ey-
mundur í hann krappann en
bjargaðist þegar kafbátur sökkti
m/s Goðafossi á Faxaflóa. Var
um tíma óvíst um afdrif áhafnar
og farþega. Þá var Kristrún 8
ára.
Um glaðværðina og hlýtt við-
mót var Kristrún lík móður
sinni, Þóru, dóttur hins merka
prests séra Árna Þórarinssonar.
Eymundur var fámáll en fram-
úrskarandi traustur og grand-
var. Var verðmæt reynsla fyrir
þann sem hér heldur á penna að
kynnast honum sem messa-
drengur á skipi hans m/s
Reykjafossi sumarlangt. Í nið-
dimmri þoku við austurströnd
Bretlands bar óöruggur stýri-
maður í brúnni upp við Eymund
skipstjóra hvort ekki væri rétt
að þeyta þokulúðurinn. Ey-
mundur kvað rétt að fara spart í
það. Minnti á, að þegar ljónið
öskraði í skóginum ókyrrðust öll
dýrin og tækju á rás; hlypu þá
sum beint í gin ljónsins.
Kristrúnu gekk vel í námi og
heilluðu tungumál hana öðru
fremur. Þegar við stúdentar VÍ
1956 fórum að prófi loknu í reisu
um meginlandið urðu þrjú úr
hópnum, þ.á m. Rúna, eftir í
París til að leggja frekari rækt
við frönskuna. Kynntust þær
þar, Rúna, Ragna kona mín og
Ragnheiður Aradóttir – og áttu
saman margar gleðistundir bæði
í París og hér heima. Að námi
loknu stundaði Kristrún löngum
tungumálakennslu og var þar í
essinu sínu.
Margs er nú ljúft að minnast.
Og víst er að þegar skólasystk-
ini Kristrúnar sem enn fylla
hópinn munu koma saman og
rifja upp sínar glöðustu sam-
verustundir mun nafn Kristrún-
ar oft bera á góma.
Það lýsir Kristrúnu vel, að
jafnvel þegar tók að blása á
móti fyrir alvöru og heilsu henn-
ar að hraka fyrir nokkrum árum
skein glaðværð hennar enn í
gegn. Fór hún gjarna með lín-
una frægu úr ljóði Steins Stein-
arr: „Vort líf, vort líf, Jón Páls-
son, er líkt og nóta fölsk“ – og
brosti sínu fallega brosi. Þegar
skólasystur hennar heimsóttu
hana undir lokin var sem Rúna
vildi uppörva þær og hug-
hreysta.
Aðdáun hefur vakið hjá okkur
vinum þeirra hjóna hvernig
Halldór stóð eins og klettur með
konu sinni, vafði hana umhyggju
og studdi á allan hátt. Fannst
líka vel hvílíkt hald og öryggi
það veitti Kristrúnu.
Guð blessi minningu Krist-
rúnar – mildi sorgina og kalli
fram gleðina yfir lífi sem vel var
lifað.
Ólafur Egilsson.
Nú eru um þrjátíu ár liðin
síðan ég og æskuvinur minn,
Pétur Blöndal, eyddum löngum
stundum úti á Seltjarnarnesi á
heimili þeirra hjóna Halldórs og
Kristrúnar.
Það fór ekki fram hjá neinum
sem var svo heppinn að kynnast
þeim hjónum að þau voru afar
samrýmd og sambandið sterkt.
Halldór dáðist að konu sinni og
Kristrún að manni sínum og svo
var alla tíð. Saman sáu þau til
þess að Pétur, vinur minn, varð
að þeim yndislega fjölskylduföð-
ur og eiginmanni sem hann er í
dag. Kristrún var stór persónu-
leiki, tíguleg kona sem gaf mikið
af sér, bæði af visku og hlýju.
Þótt erfiður sjúkdómur hafi haft
sín áhrif undanfarin ár stóðst
hún atlöguna með reisn, ávallt
var stutt í fallega brosið og þá
hlýju sem ég upplifði sem
gáskafullur unglingur fyrir
margt löngu. Kristrún lifði lífi
sínu til fulls. Hún sá um sitt fólk
og það sá um hana. Ég votta
Halldóri, Pétri og allri fjölskyld-
unni mína dýpstu samúð.
Róbert R. Spanó.
Fyrsta íslenska vinkonan mín,
Kristrún Eymundsdóttir, hefur
nú kvatt þennan heim. Leiðir
okkar lágu fyrst saman árið
1974 í Opatíu í Króatíu og þar
voru um leið fyrstu kynni mín af
Íslendingum. Kristrún var
frönskukennari við Menntaskól-
ann á Akureyri og ein þriggja
fararstjóra með nemendum 5.
bekkjar.
Atvikin höguðu því svo, að ég
fluttist til Íslands 1. desember
sama ár. Eftir það þróuðust
kynni okkar smám saman í al-
vöru vináttu. Ég man vel, þegar
við hittumst á Bautanum í jan-
úar 1975, að hún spurði mig af
hverju ég hefði komið á dimm-
asta tíma ársins. „Það var svo
mikil sól í hjarta mínu“, sagði
ég, „að ég varð ekki vör við
myrkrið.“
Ég var menntaður Hatha
Yoga-kennari og vildi Kristrún
endilega setja saman hóp
kvenna til að læra jóga og það
varð úr. Við hittumst tvisvar í
viku í kennslustofu í MA. Meðal
góðra kvenna í fyrsta hópnum
var Margrét Eggertsdóttir, eig-
inkona Tryggva Gíslasonar, þ.v.
skólameistara. Þetta voru æv-
intýratímar. Allt var svo fram-
andi, en Kristrún opnaði mér
dyrnar að samfélaginu. Heimili
hennar og Halldórs Blöndal á
Akureyri og síðar á Seltjarn-
arnesi, stóð mér alltaf opið.
Gleymi ekki, að hún skildi hús-
lykilinn eftir undir blómapotti á
tröppunum á Seltjarnarnesi, svo
ég kæmist inn, þegar þau Hall-
dór voru að heiman.
Við fórum oftar en einu sinni
saman til Grænlands, bæði til
byggðra staða á vestur og aust-
ur Grænlandi og einnig til
óbyggða þessa stóra lands.
Lengst inni í Scoresbysundi var
okkur báðum svo mikið mál, að
við létum okkur nægja að hverfa
ofan fyrir barð, efst í brattri
brekku – til mikillar furðu sauð-
nautum, sem þar voru á beit.
Við sáum báðar það spaugilega
við þessar aðstæður og gátum
ekki varist hlátri. Það var alltaf
stutt í hláturinn hjá Kristrúnu
og við hlógum oft og mikið sam-
an.
Hún stóð alla tíð með mér í
gegnum þykkt og þunnt. Það
var hún, sem hvatti mig til þess
að stofna Ferðaskrifstofuna
Nonna á sínum tíma, þegar ég
hikaði.
Við áttum saman góðar
stundir á tónleikum og í leik-
húsi. Kristrún var sannur læri-
meistari, yndisleg móðir og
sagði alltaf, að fólk ætti rétt á
tækifæri til þess að vera ham-
ingjusamt.
Ég vissi af því, að Kristrún
óttaðist að fá sama sjúkdóm og
mamma hennar hafði átt við að
stríða.
Það var svo fyrir nokkrum ár-
um að ég tók eftir að Kristrún
var komin með þau sjúkdóms-
einkenni, sem hún hræddist
mest. Ég heimsótti hana af og
til á nýja heimili þeirra hjóna
við Efstaleiti. Við föðmuðumst
alltaf og þó þar að kæmi að hún
þekkti mig kannski ekki lengur,
var ég svo þakklát fyrir að sá
hana og að henni liði þrátt fyrir
allt vel í faðmi síns trausta eig-
inmanns.
Margir munu verða til að
sakna Kristrúnar. Ég mun
minnast hennar sem ómetan-
legrar hjálparhellu fyrst eftir
komu mína til landsins og
traustrar vinkonu alla tíð. Ég
votta eftirlifandi eiginmanni
hennar, Halldóri Blöndal, af-
komendum og ættingjum öllum
mína dýpstu samúð.
Helena Dejak.
Okkar ástkæra
GUÐLAUG INGIBJÖRG SVEINSDÓTTIR
ljósmóðir frá Egilsstöðum,
lést á Hrafnistu í Reykjavík 7. desember.
Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag,
þriðjudaginn 18. desember, klukkan 15.
Bergþóra Helgadóttir Ómar Örn Jósepsson
Sveinn Helgason Þóra Karlsdóttir
Steinunn Björg Helgadóttir Þór Vigfússon
Jóhann Þorsteinsson Þórunn Bergsdóttir
Bergljót Þorsteinsdóttir
barnabörn og barnabarnabörn
Ástkær móðir mín,
INGIBJÖRG EINARSDÓTTIR,
áður til heimilis að Hraunhólum 6,
Garðabæ,
lést laugardaginn 8. desember á
Dvalarheimilinu Ási.
Útför hennar fer fram frá Garðakirkju miðvikudaginn
19. desember klukkan 15.
Sigurlinni Sigurlinnason
Ástkæra, yndislega móðir okkar,
tengdamóðir, amma, langamma og
langalangamma,
SUNNEVA JÓNSDÓTTIR,
Melalind 12,
lést á heimili sínu í Kópavogi laugardaginn
15. desember.
Sigþór Guðmundsson Lilja Hafsteinsdóttir
Hannes Freyr Guðmundsson Hanna Sigr. Jósafatsdóttir
Sigurborg Guðmundsdóttir
Lárus Þór Guðmundsson Ásgerður Baldursdóttur
Elín B. Björgvinsdóttir
barnabörn og barnabarnabörn
Okkar elskulegi
EYÞÓR ÞORLÁKSSON
gítarleikari,
Fögruhlíð1,
Hafnarfirði,
lést á öldrunarlækningadeild K1
á Landakotsspítala, föstudaginn 14. desember.
María Teresa Belles
Sveinn Eyþórsson Kristín Björg Ólafsdóttir
Atli Eyþórsson Ragnhildur Ragnarsdóttir
barnabörn og barnabarnabörn
Elsku mamma okkar,
HULDA ÓLAFSDÓTTIR,
lést á Landspítalanum Fossvogi
þriðjudaginn 11. desember. Útförin fer fram
frá Dómkirkjunni föstudaginn 21. desember
klukkan 13.
Þeim sem vilja minnast hennar er bent á Klúbbinn Geysi.
Reiknnr.: 0101-26-010009, kt. 501097-2259.
Ragnheiður Hall
Steinunn Hall
Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi, langafi
og langalangafi,
GUÐNI INGIMUNDARSON,
Guðni á trukknum
heiðursborgari Garðs,
frá Garðstöðum í Garði,
lést í faðmi fjölskyldunnar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
sunnudaginn 16. desember.
Jarðarförin auglýst síðar.
Sigurjóna Guðnadóttir Ásgeir M. Hjálmarsson
Ingimundur Þ. Guðnason Drífa Björnsdóttir
Árni Guðnason Hólmfríður I. Magnúsdóttir
barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn