Morgunblaðið - 16.01.2019, Qupperneq 33
MENNING 33
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 16. JANÚAR 2019
ICQC 2018-20
VIÐTAL
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Nýliðið ár var tónlistarkonunni Guð-
rúnu Ýr Eyfjörð, eða GDRN eins og
hún kallar sig, afar gjöfult. Hún átti
eftirminnilega innkomu í lokalagi
Áramótaskaupsins með rapptvíeyk-
inu JóaPé og Króla og rapparanum
SZK, hlaut Kraumsverðlaunin fyrir
fyrstu breiðskífu sína, Hvað ef, og
var skífan einnig valin plata ársins af
götublaðinu Grapevine. Voru enda
margir á því að platan væri ein sú
allra besta sem kom út á nýliðnu ári
og var hún víða ausin lofi, m.a. af
poppdoktornum Arnari Eggerti
Thoroddsen.
Guðrún er nýorðin 23 ára og hóf
að koma fram undir nafninu GDRN
árið 2017 en
platan kom út
17. ágúst í
fyrra. Þá hafði
Guðrún gefið
út þrjár smá-
skífur, m.a.
með rappar-
anum Flóna og
eru lögin þrjú á meðal þeirra 11 sem
finna má á plötunni. Af öðrum sam-
starfsmönnum Guðrúnar á plötunni
má nefna hryntvíeykið Ra:tio, Matt-
hías Eyfjörð og Auði. Og Guðrún
hefur komið að lögum fleiri tónlist-
armanna, m.a. sungið með Auði
(Auður er listamannsnafn Auðuns
Lútherssonar), Loga Pedro og
JóaPé og Króla.
Svar við ákveðnum skorti
Guðrún er spurð að því hvort byrj-
unin á tónlistarferli hennar hafi ekki
verið algjör draumabyrjun. „Jú, al-
gjörlega,“ svarar hún. „Meðbyrinn
sem ég fann fyrir var mikill en ég
held að ég hafi líka verið að hoppa
inn um einhvern glugga sem var dá-
lítil vöntun á, bæði tónlistarlega séð
og líka af því að ég er ung kona að
koma mér á framfæri. Ungir rapp-
strákar hafa verið áberandi þannig
að þetta er kannski ferskur blær inn
í tónlistarlífið, að fá eitthvað sem er
dálítið öðruvísi. Um leið og ég var að
hoppa inn í þetta komu svolítið
margar, annað hvort á sama tíma
eða aðeins á eftir mér, tónlistar-
konur eins og Bríet og Matthildur.
Það hafa margar flottar, ungar kon-
ur verið að hoppa inn um þennan
sama glugga,“ segir Guðrún.
Vissulega hefur rapp verið mjög
áberandi undanfarin ár í íslensku
tónlistarlífi og karlar þar fjölmenn-
ari en konur, eins og Guðrún bendir
á, þótt ungar rappkonur hafi vitan-
lega látið að sér kveða líka, Reykja-
víkurdætur og fleiri. Tónlist Guð-
rúnar er af öðrum toga, djassmiðað
R&B-popp eins og Guðrún lýsir
henni sjálf. „Það er svolítið nýtt og
ég held að fólk hafi ef til vill verið að
leita að því. Það er glugginn sem ég
er að tala um, fólk hefur verið að
leita að þessari tónlist, hún hefur
verið að komast meira í tísku.“
Áhrifin koma víða að
– Arnar Eggert var að fjalla um
plötuna þína og segir nokkurn veg-
inn það sama og þú varst að segja, að
þarna hafi verið ákveðinn skortur og
því hafi fólk tekið þér svo fagnandi.
Hann tengir þig líka við norrænar
söngkonur á borð við MØ, Sigrid,
Lykke Li og fleiri. Hefurðu hlustað
mikið á þessar tónlistarkonur?
„Já og nei, ég hlusta svona af og til
á þær en á mér ekki neina sérstaka
fyrirmynd og það er kannski líka að
vinna með mér. Mér finnst gaman að
hlusta á alls konar tónlist, ég er öll í
rokkinu og rappinu og svo fíla ég
klassíkina líka,“ svarar Guðrún.
Áhrifin komi því víða að og úr ólíkum
áttum.
Guðrún hóf nám í klassískum
fiðluleik á barnsaldri og lærði á fiðlu
í tíu ár. Síðar sneri hún sér að djass-
söng og -píanóleik. „Þannig að ég er
með svolítið góðan grunn í tónlist-
inni, bæði úr djassinum og klass-
íkinni,“ segir hún. Söngnámið hóf
hún í Mosfellsbæ og fór síðar í Tón-
listarskóla FÍH og og áhrifanna úr
djassinum gætir greinilega á plöt-
unni hennar.
Var hikandi við að syngja
Guðrún er stúdent frá Mennta-
skólanum í Reykjavík og blaðamanni
leikur forvitni á því hvort hún hafi
byrjað að syngja á menntaskóla-
árunum. „Já, ég tók þátt í einhverj-
um söngkeppnum og var bakrödd
hjá stelpu sem heitir Karólína og
vann Söngkeppni framhaldsskól-
anna árið 2015,“ svarar Guðrún.
– Ég las einhvers staðar að þú
hefðir verið hikandi við að syngja,
ekki þorað það sem er dálítið skond-
ið núna þegar þú ert orðin eftirsótt
og vinsæl söngkona.
„Já, það er rétt, ég söng aldrei og
fannst það ekki vera mitt, alla vega
ekki fyrir framan aðra,“ segir Guð-
rún kímin. Hún hafi hins vegar haft
mikinn áhuga á því að læra að
syngja og mamma hennar svaraði
kallinu og skráði stelpuna í söng-
nám. „Þá ákvað ég að fara í prufur
þannig að ég verð eiginlega að þakka
mömmu fyrir þennan feril,“ segir
Guðrún kímin.
Gaman að enda árið í Skaupinu
Guðrún er spurð að því hver hafi
verið hápunktur ársins 2018 og segir
hún að sér hafi þótt sérstaklega
skemmtilegt að ljúka því með laginu
í Áramótaskaupinu, „Næsta“, sem
hún flutti með JóaPé og Króla og
SZK. Það hafi líka verið ótrúlega
skemmtilegt og óvænt að hljóta
Kraumsverðlaunin og verðlaun
Grapevine fyrir plötu ársins. „Þetta
hefur verið dálítil uppskeruhátíð,“
segir hún um verðlaunatvennuna.
– Og nú er bara að halda sér á
jörðinni?
„Jú, það er mikilvægt, þetta getur
verið svolítið yfirþyrmandi,“ svarar
Guðrún, „ég var að gera þetta fyrir
sjálfa mig og fá góð viðbrögð og svo
allt í einu fer maður að fá einhver
verðlaun. Þá fer þetta að verða raun-
verulegt.“
Og ekki er allt búið enn því brátt
verður tilkynnt um tilnefningar til
Íslensku tónlistarverðlaunanna og
líklegt þykir blaðamanni að GDRN
verði þar á listum.
Sífellt mikilvægari hluti
Sjónræni hlutinn er ekki síður
mikilvægur en tónlistin hjá ungum
tónlistarmönnum í dag, þ.e. tónlist-
armyndbönd og annað myndefni
sem fylgir tónlistinni. „Hann verður
sífellt mikilvægari,“ segir Guðrún
um þennan hluta tónlistarinnar og
er í framhaldi spurð að því hvort hún
sé ein við stjórnvölinn þar eða með
einhverja ráðgjafa sér við hlið.
„Bæði og,“ svarar hún, „mér finnst
mjög skemmtilegt að fá fólk með
ákveðna sýn til að vinna með mér,
fólk sem mér líst vel á. Svo finnst
mér líka mjög mikilvægt þegar mað-
ur er að vinna með einhverjum að
leyfa honum að hafa sitt listræna
frelsi þannig að það tóni við mínar
hugmyndir.“
Guðrún segir að sér hafi t.d. þótt
mjög gaman að vinna með Önnu
Maggý sem gerði myndlistarverkin
sem prýða plötuna. „Við höfðum
ákveðna hugmynd um hvernig þetta
ætti að vera og svo bara flæddi þetta
þegar við byrjuðum að vinna saman.
Hún kom með hugmyndina að þessu
kóveri í byrjun.“
Skilaboðaskjóða
Textar Guðrúnar við lögin á Hvað
ef eru allir mjög persónulegir og til-
finningaþrungnir og hún segir þá
fjalla um tilfinningalíf hennar. En
getur hún gefið dæmi um það sem
fjallað er um? Jú, Guðrún nefnir lag
sem þau Auður sömdu og flytja sam-
an, titillag plötunnar. „Það snýst
bara um það þegar maður er að pæla
í einhverjum og veit ekki neitt, er að
ofhugsa hlutina og þess háttar,“ seg-
ir Guðrún og bætir við að hún sé
ekki beinlínis að segja eitthvað
ákveðið í textum sínum heldur gefi
fólki svigrúm til túlkunar. „Ég gef
mikið til kynna um hvað ég er að tala
og finnst mikilvægt sem tónlistar-
maður að vera ekki að predika, að
vera frekar skilaboðaskjóða.“
Smella vel saman
Gott samstarf Guðrúnar og Auð-
uns sem kallar sig Auði hefur vakið
athygli og sungu þau á plötum hvort
annars, Hvað ef og Afsakanir, sem
komu báðar út í fyrra. Guðrún segist
hafa kynnst Auðuni á tónlistarhátíð-
inni Sónar í fyrra og fyrsta lagið sem
þau unnu að saman var fyrrnefnt
„Hvað ef“. Guðrún söng líka og að-
stoðaði Auðun við gerð Afsakana og
lék m.a. á fiðlu í einu laganna. Hún
segir þau Auðun hafa dáðst að verk-
um hvort annars og samstarfið
gengið eftir því vel.
Ákveðinn sameiginlegan þráð má
greina á plötum þeirra, m.a. djass-
aðan gítarleik en Auðunn er lærður
djassgítarleikari. „Við smellum því
eflaust líka svona vel saman af því
við erum með þennan djass-
bakgrunn, skiljum hvað hitt er að
meina með tónlistarflutningi og
öðru,“ segir Guðrún.
„Við ætlum að halda áfram að
vinna saman, það er bókað.“
Byrjuð á þeirri næstu
– Ertu byrjuð á næstu plötu?
„Já, ég er búin að gera nokkur lög.
Mér finnst mikilvægt að gera það
sama og ég gerði með fyrstu plöt-
una, ég samdi fullt af lögum, miklu
fleiri en voru á plötunni og í lokin var
ég búin að gera það mörg að ég gat
valið þau sem mér fannst passa og
vera rjóminn af þeim. Ég held ég
geri það líka núna og verði trú sjálfri
mér. Ef mér finnst eitthvað flott
finnst öðrum það oftast líka,“ segir
Guðrún.
– Að lokum, hvernig tónlist hlust-
ar þú á heima hjá þér á sunnudög-
um?
„Þá hlusta ég örugglega bara á
Fleetwood Mac, Jimi Hendrix eða
eitthvað svoleiðis á vínilspilaranum.“
– Þú ert bara í gamla liðinu?!
„Já, ég er alveg þar,“ segir Guð-
rún að lokum og hlær.
Inn um gluggann
Guðrún Ýr Eyfjörð, GDRN, átti eina af bestu plötum ársins 2018, Hvað ef GDRN naut mikilla
vinsælda í fyrra og kom m.a. fram í lokaatriði Áramótaskaupsins Djassmiðað R&B-popp
Morgunblaðið/Eggert
Samhljómur GDRN og Auður samstillt á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í nóvember í fyrra.