Morgunblaðið - 18.01.2019, Page 34
34 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. JANÚAR 2019
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Það eru lágmyndir á veggjum og
óvenjulegir gluggarammar að auki,
skúlptúrar á upplýstu borði og á
gólfi meginrýmisins tveir léttir en
margræðir tréskúlptúrar; annar
teygist upp undir loft en hinn liggur.
Medium of Matter kallar skúlptúr-
istinn Rósa Gísladóttir athyglis-
verða sýninguna sem verður opnuð
með verkum hennar í galleríinu
BERG Contemporary á Klapparstíg
16 á morgun, laugardag, klukkan 17.
Þegar Rósa gerir hlé á uppsetn-
ingu verkanna og gengur um salina
með blaðamanni segir hún háa tré-
skúlptúrinn gerðan með frægan
turn rússneska framúrstefnu-
listamannins og konstrúktívistans
Vladimirs Tatlins (1885-1951) í
huga. Tatlin gerði módel að turn-
inum fyrir sléttri öld. Hann er einn
frægasti skúlptúr liðinnar aldar og
var í raun módel að risavaxinni
skrifstofubyggingu úr stáli og gleri
sem aldrei reis.
„Ég gerði módel fyrst að þessu
verki árið 2011,“ segir Rósa. „Þetta
var eftir hrun og í kringum mig
stóðu margir kranar sem biðu bara
eftir því að eitthvað færi að gerast
að nýju. Þetta verk spratt einhvern
veginn út frá því. Sjáðu, hér er ein-
hvers konar krani,“ segir hún og
bendir inn í kjarna verksins. „Ég
var þá líka að skoða verk konstrúk-
tívistanna og heillaðist af turninum
sem Tatlin gerði fyrir hundrað ár-
um. Þetta verk er eins konar óður til
hans. Frá honum kemur hugmyndin
um spíralinn utan um kranann en
auðvitað er þetta hér gert úr viði en
Tatlin vann með stál og gler.“
Rósa segist hafa unnið að þessum
verkum með góðum trésmið enda
séu þessi tréverk mikil völundar-
smíð sem hafi tekið langan tíma að
setja saman.
„Í hinu verkinu miðju er líka
svona „krani“ en ég hef snúið hon-
um við og nú liggur verkið bara. Það
passar líka við hugsunina um turn-
inn hans Tatlins sem var aldrei
byggður. Og það hefur ýmislegt
breyst á þessari öld síðan hann setti
saman þetta áhrifamikla verk sem
margir hafa unnið út frá. Turninn
átti að verða miklu hærri en Eiffel-
turninn og í honum átti opinber
stjórnsýsla Sovétríkjanna að vera.
En mínir turnar hér hafa ekki síkt
notagildi,“ segir Rósa, brosir en
segir sýninguna hverfast um þá.
Frá Tatlin beindust sjónir hennar
síðan að öðrum konstrúktívista,
arkitektinum og málaranum Konst-
antin Melnikov (1890-1974), og
kveðst Rósa hafa heillast af íbúðar-
húsinu sem hann teiknaði og reisti
fyrir sjálfan sig í Moskvu árið 1929.
Það er eins og tveir sívalningar með
sexhyrndum gluggum. „Þessi tré-
verk sem eru að fara hér á vegginn
eru í raun byggð á gluggum Melni-
kovs. Ég kalla verkin „Afbyggt út-
sýni“. Og ég fékk hjálp við að gera
þetta allt rétt, þótt ég fari síðan
mína leið að því,“ segir hún og sýnir
blaðamanni upprunalegar teikn-
ingar arkitektsins að gluggunum.
„Þetta var gríðarlega heillandi tíma-
bil í Rússlandi,“ bætir hún við.
Á tveimur veggjum eru nýjar lág-
myndir úr gifsi sem Rósa gerði eftir
teikningum sínum og módelum sem
hún gerði fyrir mörgum árum, ein-
um 30 árum, mjúk og hvöss form
kallast þar á, með tilvísun í vélar og
til að mynda tannhjól. Henni þóttu
þessi verk passa með þeim arkitekt-
úrísku pælingum sem birtast í nýju
viðarverkunum.
„Þetta eru síðan alls kyns hlutir,
allt verk sem ég hef ekki sýnt áður
hér á landi og kalla „Fragments of
Memory“,“ segir Rósa að lokum um
skúlptúrana sem standa á borði í
innri salnum. „Þau eru úr gifsi, leir
og öðrum efnum sem ég móta og
vísa í alls kyns form úr söguni, til að
mynda frá Pompeii eða endurreisn-
inni. Ég hef svo mikinn áhuga á
formfræði og gömlum munum og
það mætist hér í hlutum sem ég nýt
þess að móta með höndunum.“
Óður til turnsins hans Tatlins
Sýning Rósu Gísladóttur, Medium of Matter, opnuð í BERG Contemporary
á morgun Segist hafa mikinn áhuga á formfræði og gömlum munum
Morgunblaðið/Einar Falur
Tréturnar „Þetta var gríðarlega heillandi tímabil í Rússlandi,“ segir Rósa Gísladóttir um myndsköpun svokallaðra
konstrúktívista sem voru áhrifamiklir í listalífi Sovétríkjanna fyrir um einni öld og hún vísar til í verkum sínum.
Engin þriggja íslenskra nýbygg-
inga sem höfðu verið tilnefndar til
hinna virtu evrópsku arkitektúr-
verðlauna sem kennd eru við Mies
van der Rohe, komust á lista 40
bygginga sem keppa til úrslita.
Harpa hreppti verðlaunin 2013.
Íslensku byggingarnar þrjár sem
tilnefndar voru eru hótelið The
Retreat við Bláa lónið, Veröld –
Hús Vigdísar við Háskóla Íslands
og Marshall-húsið við Reykjavíkur-
höfn.
Vel lukkað Marshall-húsið var tilnefnt.
Íslenskar bygg-
ingar ekki áfram
Iceland Noir hef-
ur sagt sig frá
frekara sam-
starfi um Ísnál-
ina, verðlaun
sem veitt eru fyr-
ir bestu íslensku
þýðingu á er-
lendum glæpa-
sögum hvers árs,
og munu Hið ís-
lenska glæpa-
félag og Bandalag þýðenda og
túlka framvegis standa að verð-
laununum, eins og Hið íslenska
glæpafélag greindi frá í gær á
Facebook. Rithöfundarnir Yrsa
Sigurðardóttir, Ragnar Jónasson,
Lilja Sigurðardóttir og Óskar Guð-
mundsson standa að alþjóðlegu
glæpasagnahátíðinni Iceland Noir
sem síðast var haldin í nóvember í
fyrra. „Við ætlum að setja upp okk-
ar eigin verðlaun hjá Iceland Noir,“
segir Ragnar, spurður hvernig á
þessu standi, en hátíðin verður
haldin næst á næsta ári. Verðlaun
Iceland Noir verða einnig veitt fyr-
ir bestu íslensku þýðingu á erlendri
glæpasögu og munu tengjast hátíð-
inni beint, að sögn Ragnars.
Iceland Noir segir
sig frá Ísnálinni
Ragnar
Jónasson
Fyrsta sýning Þjóðminjasafns Bras-
ilíu í Ríó de Janeiro, eftir stórbrun-
ann sem varð í safninu 2. september
í fyrra, var opnuð í fyrradag í syst-
ursafni þess sem helgað er hvers
konar mynt. Á sýningunni má sjá
steingervinga sem fundust á Suður-
skautslandinu og þá m.a. bein úr
flugeðlu sem safnið segir fyrstu
sönnun þess að hið stóra og fljúg-
andi hryggdýr hafi dvalið í álfunni.
Þjóðminjasafnið fór illa í brun-
anum, brann nánast til kaldra kola.
Átta steingervingum á sýningunni
tókst að bjarga frá eldinum en hina
munina af þeim 160 sem eru á sýn-
ingunni varð safnið að fá að láni.
Forstöðumaður safnsins, Alex-
ander Kellner, sagði fjölmiðlamönn-
um við opnun sýningarinnar að hún
sýndi að safnið væri enn starfandi og
á lífi, eins og hann orðaði það. Safnið
er 200 ára gamalt og var talið eitt
mikilvægasta safn sinnar tegundar í
Rómönsku Ameríku. Það var eink-
um þekkt fyrir sitt mikla safn stein-
gervinga, um 26 þúsund talsins. Í
safninu voru yfir 20 milljónir muna
frá Egyptalandi til forna, Rómaveldi
og frumbyggjamenningu Brasilíu.
Um 90% af safninu eyðilögðust í eld-
inum.
Fyrsta sýning Þjóðminja-
safns Brasilíu eftir bruna
AFP
Athyglisverðir Steingervingarnir myndaðir við opnun sýningarinnar.