Morgunblaðið - 06.03.2019, Page 22
22 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 6. MARS 2019
Frímann & hálfdán
Útfararþjónusta
Frímann
897 2468
Hálfdán
898 5765
Ólöf
898 3075
Sími: 565 9775
www.uth.is
uth@uth.is
Cadillac 2017
Ástkær frændi okkar og vinur,
MARGEIR SIGURÐUR
VERNHARÐSSON,
Grundarstíg 10, Hvammstanga,
lést á heimili sínu fimmtudaginn 28. febrúar.
Útför hans verður frá Hofsóskirkju
laugardaginn 9. mars klukkan 15.
Fyrir hönd aðstandenda,
Birna Dýrfjörð
Þeir Þorkell og Árni Bergur voru
fádæma húmoristar hvor með
sínu móti. Ég heyri í huga mér
hvellu hlátrasköllin í systrunum,
Rúnu og Rannveigu, og henni
ömmu þegar þeir fóru á kostun-
um. Einar stóð þeim vel á sporði;
leiftrandi og lágstemmd kímni-
gáfan, næmi á tilsvör og takta
fólks, og eftirhermurnar, maður
lifandi! Björn, sem var tveimur
árum yngri en ég, varð líka
sagnameistari af Guðs náð svo
allt varð að sögum og ævintýrum
hjá honum. Við Gunnar, yngsti
bróðirinn, vorum einatt í hlut-
verki hlustandans og áhorfand-
ans, þakklátir aðdáendur. Nú er-
um við tveir eftir af þessum stóra
bræðrahópi. Það er svo margs að
minnast og margt að þakka. Því
fá engin orð lýst.
Öðrum fremur var það hann
Einar sem kveikti í mér áhugann
á guðfræði og hefðum og iðkun
kirkjunnar og einhvern veginn
varð sjálfsagt að feta í fótspor
hans. Köllun hans var svo ein-
læg, áhuginn svo smitandi og
þekking hans snemma svo maka-
laust yfirgripsmikil og djúp. Allt
fram undir hið síðasta var hægt
að fletta upp í honum um hvað-
eina og fá greið svör og traust.
Ég sakna samtala okkar. Það var
alltaf gott að leita til hans um
hvaðeina, fræðin og sögu, pólitík,
skáldskap, tónlist, sálma og
trúarkveðskap og bænamál
kristninnar, allt vissi Einar og
mundi manna best, og um
móðurmálið og latínu og grísku,
já og flugvélar – nú eða bara til
að hlæja, rifja upp gamlar minn-
ingar eða skiptast á sögum og at-
hugasemdum um líðandi stund.
Einari var hvíldin kærkomin
og hann átti góða heimvon. En
hjá okkur er tómarúmið mikið,
missirinn sár. Við Kristín biðjum
Guð að leggja líkn sína og bless-
un yfir það allt og umvefja ykk-
ur, Guðrún Edda og börn og
barnabörn, náð sinni og friði.
Ég kveð kæran bróður og bið
með orðum Einars afa Sigur-
finnssonar:
Nú er bráðum lokið leið
til landsins dýrðar bjarta.
Ljómar bak við dapran deyð
Drottins náðarsólin heið.
Lofi Drottin hugur, tunga og hjarta.
Karl Sigurbjörnsson.
Senn við sólarlag hnígur
síðasti geisli við haf,
birtist sem afturelding
allt það er lífið gaf.
Líttu litbrigðin fögur,
ljósberans handaverk góð,
vefari lífsins vefur
vonar- og ástaróð.
Minningar mínar um föður-
bróður minn eru baðaðar sólskini.
Segir allt um hvernig hann var og
reyndist mér alla tíð.
Minning sem leitar oft á hugann
er lýsandi fyrir glettni hans, hvern-
ig hann setti hlutina í samhengi á
sinn skemmtilega hátt. Hann heim-
sótti mig í glaða sólskini á Bæ í
Skagafirði í júní fyrir níu árum, þar
sem ég átti vinnustofudvöl í mánuð.
Hann var á leiðinni í Svarfaðardal á
kært sveitasetur þeirra Guðrúnar
Eddu. Bústörfin biðu, sláttur í
nánd og tilhlökkun geislaði af hon-
um sólbrúnum og sællegum. Er
hann spurði hvernig mér liði í
Skagafirði, sem ég hafði aldrei aug-
um litið áður, lyftist hann upp, er ég
svaraði að mér liði eins og ég hefði
verið þar áður og fyndist ég svíkja
lit að segja hann fegurstan á Ís-
landi, verandi Arnfirðingur. Það er
ekki nema von – þú ert ættuð
héðan! Svo hló hann sínum milda
hlátri og skemmti sér yfir undrun
minni. – Eldpresturinn fæddist hér
og þú ert afkomandi hans! Eins
undrandi og ég var á Drangey allan
þennan tíma, var þessi heimsókn
Einars mér önnur opinberun.
Nokkru síðar heimsótti ég þau
Guðrúnu Eddu í Svarfaðarsæluna.
Iðandi hvolpakös í kassa og yndis-
kúturinn Rökkvi í faðmi Magneu.
Sól í sál og sinni.
Hugurinn leitar langar leiðir.
Komið við hjá þeim í Kjós í bernsku
á leið vestur til Ólafsvíkur. Kaffi
drukkið, ótal gamansögur flugu.
Þeir voru óborganlegir húmoristar
bræðurnir. Í einni heimsókninni
laumaði ég sígarettusprengju í
vindil Einars með fullu samþykki
foreldra minna, er sjálf höfðu lent í
tilræði dóttur sinnar á viðkvæmum
augnablikum, með ókunnuga
áhorfendur úti í bæ. Einar tók flug-
eldasýningunni úr vindlingnum
með hláturskasti eins og hans var
von og vísa. Mér óx því ásmegin.
Næsta fórnarlamb varð sr. Rögn-
valdur á Staðastað. Húmor, glettni,
gæska. Þannig minnist ég Einars
alla tíð. Þeir voru perluvinir þeir
pabbi, áttu skap saman. Einar
leysti pabba iðulega af í prestsverk-
um í Áskirkju. Í veikindum hans
einnig í kennslu í guðfræðideildinni
og í þýðingarnefnd biblíunnar.
Ómetanlegur stuðningur við föður
minn og ófá sporin átti hann heim
til foreldra minna vegna þess alls
og alls hins sem hann var bróður
sínum.
Eftir lát föður míns 2005 leitaði
ég oft til Einars með skrifin mín.
Hann var hafsjór af fróðleik, upp-
örvandi og bóngóður. Mikið var
gott að eiga hann að.
Eitt sinn var sagt við mig í Sví-
þjóð að ég hefði fæðst inn í sam-
hengi. Áttaði mig þá á því að hafa
tekið því sem sjálfsögðu að vera rík
að frændgarði. Samhengið, þessi
skemmtilegi, stóri hópur föður- og
móðursystkina. Þessi umfaðmandi
áhugi og hlýja um mig og okkur öll.
Gæfa að hafa fæðst inn í þetta góða,
sterka, samheldna samhengi. Það
kvarnast úr, ég finn tilfinnanlega
fyrir því.
Ég kveð frænda minn með trega
og djúpu þakklæti fyrir allt. Guð
blessi fjölskyldu hans og gefi þeim
styrk.
Blessuð sé minning elsku Einars
föðurbróður míns.
Harpa Árnadóttir.
Þau verða þung sporin til kirkj-
unnar í dag, þegar ég kveð minn
ágæta lærimeistara, vin og frænda,
Einar Sigurbjörnsson.
Feður okkar voru fjórmenning-
ar, og ég þakka mínu sæla fyrir að
hafa ekki uppgötvað það fyrr en
eftir að ég var löngu útskrifuð, þar
sem spurning hefði verið, hvort þau
Guðrún Edda svo og Árni Bergur
hefðu fengið að prófa mig í sínum
greinum vegna ættartengsla.
Einar var skemmtilegur kennari
og kenndi okkur raunar miklu
meira en bara trúfræðina. Hann
gat verið afar gamansamur og
kryddaði oft fyrirlestra sína með
gamansögum. Ég fékk líka að
kynnast því betur síðar, hversu
spaugsamur hann gat verið. Hann
var líka ævinlega uppörvandi og
hvetjandi, ekki síst þegar við vor-
um að skrifa ritgerðir. Líkt og aðrir
kennarar guðfræðideildar, þá lét
hann okkur yfirleitt lesa íslenskt
efni, oftast efni frá sjálfum sér,
enda kenndi hann okkur líka játn-
ingafræðina og trúfræðina eftir þá
nýútkomnum bókum sínum. Þetta
átti að auðvelda okkur skilninginn á
námsefninu. Guðfræði hans var
skýr og hann hafði sínar ákveðnu
skoðanir á mönnum og málefnum,
og lét þær oft í ljós.
Þegar ég fór í það að búa til bók
upp úr BA-ritgerð minni um Brynj-
ólf biskup þá bað ég Einar um að
lesa handritið yfir og treysti honum
best til þess. Hann gerði það með
ánægju og benti mér á margt, sem
mátti betur fara og miðlaði af
kirkjusöguþekkingu sinni, en hann
var heill fræðasjór líkt og faðir
hans, enda kom maður aldrei að
tómum kofunum hjá honum, ef
maður leitaði til hans með einhver
álitamál eða var í vafa um eitthvað í
játninga- eða trúfræðinni. Allt varð
það skýrara eftir útskýringarnar
hjá honum. Það vantaði ekki. Og
alltaf var hann jafn uppörvandi
sem forðum.
Eftir að ég komst að því hversu
náskyld við vorum þá kynntist ég
frændrækninni í honum. Við höfð-
um oft samband í gegnum tölvu-
póstinn. Ég sendi honum stundum
athyglisverðar greinar úr norræn-
um blöðum, helst dönskum, sem
mér fannst umræðuverðar, og við
skiptumst á skoðunum um þær, og
spaugsemin var sjaldnast langt
undan.
Hvenær sem greinar eftir mig
birtust í Morgunblaðinu leið ekki
langur tími þangað til ég fékk póst
frá honum, þar sem hann þakkaði
fyrir þær og lét álit sitt í ljós á efn-
inu um leið og hann hvatti mig til
frekari skrifa. Við vorum líka oftast
sammála um ýmis málefni.
Eftir að hann veiktist og minna
varð um tölvupósta okkar í milli og
kveðjur af ýmsum tilefnum, þá
saknaði ég þess. Sá söknuður verð-
ur ekki minni nú þegar ég kveð
hann hinstu kveðju. Á þeim tíma-
mótum er efst í huga mér ómælt og
innilegt þakklæti fyrir góða,
skemmtilega og stórfróðlega upp-
fræðslu og leiðbeiningar í deildinni
og æ síðan, þegar ég hef þurft á því
að halda, svo og góða og trygga við-
kynningu og vináttu gegnum árin
og frændræknina sömuleiðis, um
leið og ég bið honum allrar bless-
unar Guðs í ríki ljóss og friðar. Guð-
rúnu Eddu og öðrum aðstandend-
um votta ég mína innilegustu
samúð.
Blessuð sé minning míns kæra
frænda og lærimeistara.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir.
Margt lífslánið hefur mér hlotn-
ast sem ég má vera og er þakklátur
fyrir. Eitt slíkt er að hafa fengið að
kynnast Einari Sigurbjörnssyni og
mega eignast hann að vini.
Kynnin hófust í Guðfræðideild
HÍ. Minnist ég hans frá þeim dög-
um, eins og allar götur síðan, fyrir
hlýtt viðmót hans, hógværð en
einnig glaðværð hans og spaug-
semi. Þar fór heldur ekki framhjá
neinum hvílíkur afburðanámsmað-
ur hann var. Nánir vinir urðum við
hins vegar ekki fyrr en við urðum
nágrannaprestar á Hálsi og Stað-
arfelli í Þingeyjarprófastsdæmi,
eins og það hét þá. Þó að samvist-
irnar þar væru stuttar mynduðust
engu að síður með okkur vináttu-
tengsl sem aldrei rofnuðu né nokk-
urn skugga bar á. Á Lundúnaárum
mínum urðu samskiptin eðlilega
ekki mikil en eftir að heim til Hóla
kom hófust þau að nýju. Þá var gott
að eiga þau hjónin Einar og Guð-
rúnu Eddu að. Um árabil voru þau
ómissandi á Hólahátíð, en þá leiddu
þau pílagríma úr Svarfaðardal yfir
Heljardalsheiði heim að Hólum við
miklar vinsældir. Eftir að þau tóku
að þreytast á göngunni lögðu þau
göngufólki engu að síður lið með
leiðbeiningum og fararblessun
heima á Atlastöðum, sem var sælu-
reitur þeirra hjóna í sveitinni, en
frá þeim bæ er lagt á heiðina.
Á þessum árum var Einar
fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn
Guðbrandsstofnunar á Hólum.
Gott var að geta leitað til hans við
stofnun þeirrar merku mennta- og
menningarstofnunar, sem er sam-
starfsverkefni Hóladómkirkju, Há-
skólans á Hólum og Háskóla Ís-
lands. Lagði Einar margt gott og
gagnlegt til stofnunarinnar, eins og
raunar til alls þess sem hann lagði
huga og hönd að. Ætíð var hann
boðinn og búinn að leggja ráð-
stefnuhaldi á Hólum lið með fyrir-
lestrum og ýmiss konar aðstoð sem
að gagni mátti koma. Ógleyman-
legt er einnig þegar hann á síðustu
stundu steig inn í hlutverk föður
síns, Sigurbjörns heitins biskups,
sem tekið hafði að sér að prédika á
Hólahátíð en veiktist skyndilega.
Hafði Sigurbjörn lagt grunn að
prédikun sinni sem Einar spann
síðan við og flutti við mikinn orðs-
tír.
Fyrir hið mikla framlag Einars
og Guðrúnar Eddu til Hólastaðar á
mínum árum þar er ég óendanlega
þakklátur.
Við hjónin minnumst Einars
með virðingu og mikilli þökk og
biðjum honum og ástvinum hans
öllum blessunar Guðs.
Blessuð sé minning Einars
Sigurbjörnssonar.
Jón Aðalsteinn Baldvinsson.
Við hjónin áttum því láni að
fagna að þekkja og eiga samskipti
við Einar Sigurbjörnsson og fjöl-
skyldu hans bæði í einkalífi og
starfi. Kynni okkar hófust fyrir al-
vöru þegar við Guðrún Edda vor-
um á tímabili í stjórn Sumarbúða
KFUK í Vindáshlíð. Það hlutverk
reyndi ekki síður á eiginmenn okk-
ar og hæfileika þeirra. Einar og
Guðbjörn fengu það verkefni að
setja saman dúkkuhús sem voru
vinsæl þegar stelpurnar sem
dvöldu í sumarbúðunum fóru í
búðarleik. Þeir náðu vel saman og
alltaf var Einar með gamanyrði á
vör og sagði sögur. Stundum
gleymdu dúkkuhúsasmiðir stund
og stað og mikið hló Einar dátt einu
sinni þegar í ljós kom að þeir höfðu
skrúfað stærra húsið vitlaust sam-
an og þurftu að byrja upp á nýtt.
Við tengdumst nýjum böndum
þegar við eignuðumst dætur sama
árið, 1986. Þær urðu vinkonur og
bekkjarsystur, bæði í grunnskóla
og í Tónlistarskólanum í Reykja-
vík. Einar tók að sér að keyra þær í
Tónlistarskólann og stundum
þurfti hann að bíða fyrir utan húsið
hjá okkur vegna þess að Hildur
dóttir okkar var ekki tilbúin. Einu
sinni sem oftar komu þær Magnea
of seint og fengu skömm í hattinn.
Dóttur okkar varð þá að orði:
„Þetta er allt pabba hennar Magn-
eu að kenna.“ Þetta var auðvitað
fjarri sanni en tilraun til þess að
bjarga sér fyrir horn. Enginn hafði
meira gaman af þessari sögu en
Einar sjálfur. Hann var skemmti-
legur pabbi sem leyfði þeim fúslega
að klæðast gömlum fötum af hon-
um þegar þær ákváðu að setja upp
leikrit. Þegar þær urðu eldri nutu
þær oft góðs af greiðvikni Einars.
Enda sagði Hildur dóttir okkar
þegar hún frétti andlát hans: „Ein-
ar var yndislegur og góður maður
og hjálpaði til við að ala mig upp, ég
er þakklát fyrir að hafa þekkt
hann.“ Hún er núna erlendis en
sendir hlýjar kveðjur.
Sem samstarfsmenn við Há-
skóla Íslands áttum við Einar mörg
sameiginleg áhugamál. Við tókum
bæði þátt í Nordhymn, norrænu
samstarfi um rannsóknir á sálmum
og sálmalögum, og fórum stundum
saman á fundi og ráðstefnur. Þar
sást greinilega hve vel Einar var
metinn og hve mikil virðing var
borin fyrir þekkingu hans og rann-
sóknum. Stundum urðu fundirnir
langir og þreytandi eins og gerist.
Þá var ekki slæmt að sitja við hlið-
ina á Einari, sem lumaði oft á fynd-
inni athugasemd sem hann hvíslaði
að mér, eða hann kastaði fram
fyrriparti enda var hann mjög hag-
mæltur. Loks áttum við Einar sam-
starf í sálmabókarnefnd íslensku
þjóðkirkjunnar, þar sem hann var
formaður. Í stuttu máli féll aldrei
neinn skuggi á samstarf okkar. Það
var alltaf gott að leita til hans,
þægilegt að vera nálægt honum,
öruggt að treysta á framlag hans.
Einar Sigurbjörnsson var
greindur maður, góðviljaður og
greiðvikinn. Hann var vissulega
ljúfur en gat staðið fast á skoðun-
um sínum og var alltaf trúr sann-
færingu sinni. Að leiðarlokum er
okkur efst í huga þakklæti fyrir að
hafa fengið að eiga samleið svo
lengi með Einari. Við vottum fjöl-
skyldu hans innilega samúð og biðj-
um Guð að blessa minningu Einars
Sigurbjörnssonar.
Margrét Eggertsdóttir
Guðbjörn Sigurmundsson.
Hún er ógleymanleg stundin
sem við áttum með Einari og
Guðrúnu Eddu ásamt nokkrum
ferðafélögum á fjallinu Tabor í
Ísrael haustið 1984 þegar guð-
fræðinemar sóttu Landið helga
heim. Sú stund með vinum okkar
var sveipuð gleði og birtu sem
tengdi við fornar kristnar heim-
ildir sem greina frá því að þar
hafi Jesús íklæðst himneskri
dýrð sem vinir hans urðu vitni að.
Það var mikið hlegið þegar við,
þá unga parið, sem vorum klædd
í stuttbuxur þurftum að hjúpa
okkur handklæðum til þess að
geta skoðað kirkjuna á tindi
fjallsins og stundin var fest í
minningunni.
Þegar við giftum okkur tæpu
ári síðar var það Einar sem ann-
aðist athöfnina. Í ræðu sinni fór
hann með okkur að stundinni á
Tabor sem við áttum sameigin-
lega í minningunni. Fjallsins þar
sem vinir Jesú höfðu fengið að
reyna einstakan atburð sem þeir
vildu varðveita og stöðva tímans
rás til að njóta að eilífu. Einar
minnti okkur á að brúðkaups-
dagurinn væri slík stund sem við
vildum gera eilífa en hann myndi
renna sitt skeið líkt og aðrar
stundir. Minningin um daginn og
inntak hans væri sá auður sem
við gætum ætíð sótt í og horft í
gleði til. Þessi minning hefur sótt
á hugann í aðdraganda andláts
okkar góða vinar sem var um leið
presturinn okkar, kennari og
leiðbeinandi í doktorsnámi.
Fyrstu kynni okkar af Einari
voru þegar hann var deildarforseti
guðfræðideildar og Guðlaug Helga
lagði leið sína í aðalbyggingu Há-
skóla Íslands til að kanna með nám
í guðfræði. Sú alúð, hlýja og virðing
sem mætti henni hjá Einari hafði
þau úrslitaáhrif að hún hóf nám við
guðfræðideildina. Þessi ákvörðun
átti eftir að leiða til margs góðs,
m.a. þess að eignast vináttu þeirra
hjóna Einars og Guðrúnar Eddu.
Vináttu sem hefur verið óslitin og
einkennst af gagnkvæmri um-
hyggju. Hann skírði elsta son okk-
ar og þau hjón fylgdust með börn-
um okkar og nú síðast barna-
börnum. Við minnumst þess þegar
bókakassarnir hans Einars voru
fluttir af Ásvallagötunni í Bauga-
nes, þeir þyngstu sem Lárus man
eftir að hafa borið. Einnig vegferð-
arinnar í doktorsnámi Guðlaugar
Helgu þar sem við stóðum öll sam-
an sem eitt og glöddumst þegar
settum áfanga var náð. Þá hefðum
við einnig viljað stöðva tímans rás
um stundarsakir.
Einar var einstakur leiðbein-
andi, auðmjúkur, mildur en ákveð-
inn. Hann lagði sig fram um að
miðla og læra með doktorsnem-
anda sínum um líknandi meðferð
og reynslu fólks sem haldið er lífs-
ógnandi sjúkdómum. Hann hvatti
til dáða og uppörvaði nemanda sinn
sem sveiflaðist fram og til baka eins
og tilheyrir í slíku námi. Blessuð
mín, voru jafnan orðin hans sem
virtust hafa þann töframátt að það
sást til sólar í doktorsverkefninu og
Guðrún Edda stóð þar þétt við hlið.
Nú erum við í þeim sporum að
stundirnar með Einari verða ekki
fleiri. Við getum ekki stöðvað gang
tímans en allt sem þær gáfu okkur
er vel geymt og varðveitt.
Elsku Guðrún Edda, Sigur-
björn, Guðný, Magnea og fjölskyld-
ur. Við biðjum algóðan Guð að vera
með ykkur, hugga og styrkja í
sorginni. Við þökkum Guði fyrir
Einar og vinastundirnar með
honum. Megi hann ávallt vera Guði
falinn.
Guðlaug Helga, Lárus
og fjölskylda.
Andlát vinar míns Einars Sigur-
björnssonar kom mér ekki á óvart
en þó fannst mér erfitt að trúa að
hann væri fallinn frá. Við höfðum
þekkst lengi, hist á göngum háskól-
ans óteljandi sinnum þegar ég var á
leið á fund í þýðingarnefnd Gamla
testamentisins, en kynnin urðu enn
nánari þegar við fórum saman yfir
Nýja testamentið fyrir nýja biblíu-
útgáfu. Ógleymanlegir eru vinnu-
fundir okkar á Atlastöðum í Svarf-
aðardal og á Þingeyri þar sem
Guðrún Edda, kona hans, sá um að
sem best færi um okkur, gaf okkur
að borða, og lét okkur taka hlé
reglulega, þegar við gleymdum
okkur, og njóta staða og veðurs.
Við Jakob maðurinn minn ókum á
fallegum sumardegi fyrir hvatn-
ingu Einars norður í Svarfaðardal
til að ganga með þeim hjónum yfir
Heljardalsheiði ásamt hópi fólks,
nutum þekkingar þeirra beggja og
fundum vel hve kært var með þeim.
Einar var óvenjulega hlýr
maður. Stutt var í brosið og það
náði til augnanna, sem alls ekki er
sjálfsagt. Hann var víðlesinn og
fróður og alltaf tilbúinn að gefa góð
ráð í fræðunum ef ég leitaði til hans
en hann var ekki síður reiðubúinn
að veita styrk með fallegum, hlýj-
um orðum þegar ég mest þurfti á
að halda.
Við Jakob sendum Guðrúnu
Eddu, börnum þeirra Einars,
tengdabörnum og barnabörnum
okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Guðrún Kvaran.
Kveðja úr B-bekknum.
Sumt samferðafólk er þeim
hæfileika gætt að það fær sæti í
vinaminninu og á það sæti síðan al-
veg óháð því hvort samfundir verða
margir eða fáir. Þannig maður var
Einar Sigurbjörnsson. Hann var
ekki hávaðasamur félagi í
Einar
Sigurbjörnsson